„Eru þetta ekki bara menn sem eru orðnir áttræðir?“

Þótt Pétur Kristinsson gerðist stofnfélagi í Golfklúbbi Garðabæjar fyrir um þrjátíu árum, liðu mörg ár, þar til hann fór að stunda golf. Hann var önnum kafinn, hafði ekki útvegað sér golfsett og sá ekki að hann hefði nokkurn tíma aflögu til að stunda golf. „Eru þetta ekki bara menn sem eru orðnir áttræðir?“ spurði hann Kjartan Borg, sem var einn stofnenda klúbbsins.

Verð aldrei golfari

Pétur og eiginkona hans Sonja Þórarinsdóttir, stunduðu hestamennsku á sumrin og dvöldu í sumarbústaðnum sínum. Árið 2007 fóru þau að tala saman og velta því upp að lengja sumarið með því að fara í golfferðir. Þau fréttu af golfskóla á Spáni á vegum Heimsferða, skóla sem í dag heitir Golf Saga. „Það eru Hörður Árnason, Magnús Birgisson og Ragnhildur Sigurðardóttir margfaldur Íslandsmeistari í golfi sem reka hann“, segir Pétur.  „Við fórum á fund Harðar og Magnúsar til skrafs og ráðagerða og Sonja sem var ekki bjartsýn sagði: „Ég verð aldrei neinn golfari“. Það þótti þeim félögum afar skemmtileg áskorun!“

Fara í golfferðir á vorin og haustin

Pétur og Sonja fóru í  10 daga strangan golfskóla, bæði bóklegt og skriflegt nám. „Síðan höfum við farið út bæði vor og haust, á ýmsa staði í Andalúsíu á vegum Golf Sögu“, segir hann. Í framhaldinu gengu þau í Golfklúbbinn Odd á Urriðavöllum.  „Við sinntum þessu lítið hér heima fyrstu árin, enda í hestaferðum á sumrin. En síðast liðin fimm ár, eftir að við hættum í hestamennskunni höfum við verði duglegri að spila golf og forgjöfin hefur farið niður. Sonja er miklu duglegri en ég og bókar sig í golf með hinum og þessum, þar sem er pláss, en stundum getur verið erfitt að komast að“.

Góður félagsskapur í golfinu: F.v. Pétur, Sonja og Svala og David Pitt

Að hafa hausinn í lagi

„Golfið er í fyrsta lagi góð þjálfun“, segir Pétur. Menn ganga  10-12 kílómetra á 18 holu velli. „Það reynir á þol að ganga upp brekkur og menn eru í hörku æfingum. Við leyfum okkur stundum að vera á golfbílum þegar við erum úti, en gerum það ekki hér heima“.  Hann segir hugarfarið skipta miklu máli í golfinu. „Við köllum þetta að hafa hausinn í lagi. Það þarf að muna þessi ótal smáatriði sem eru mikilvæg, frá því kúlunni er stillt upp. Síðan þarf að slá hana og fylgjast með hvar hún lendir, þetta er ofboðsleg einbeiting. Svo segja aðrir að þú eigir ekkert að hugsa, bara vera alveg slakur. Það þarf að fara þarna milliveginn“, segir hann.

Útskrifuðust golfarar komin á áttræðisaldur

Hin hliðin á peningnum í golfinu er félagsskapurinn, að sögn Péturs. „Við erum fjórir félagar úr versló sem höfum haldið hópinn síðan 1967.  Tveir nýir hafa bæst í hópinn, en við hittumst og borðum saman í hádeginu einu sinni í viku. Mér tókst að smita þá nýju af golfbakteríunni og núna í haust fórum við út saman og þau byrjuðu í golfskólanum sem við höfðum farið í árið 2007. „Þau áttu ekki orð yfir hversu vel og faglega var staðið að málum þar. Þau útskrifuðust sem fullgildir golfarar komin á áttræðisaldur. Það er aldrei of seint að byrja“, segir hann.

Langafi bjó þar sem Golfvöllurinn í Grindavík er nú

Pétur er einnig félagi í Golfklúbbi Grindavíkur, sem landeigandi, en langafi hans var bóndi í Húsatóftum í Grindavík, þar sem golfvöllurinn er í dag. „Pabbi fæddist þarna og afi og amma bjuggu á stað sem hét Blómsturvellir en þar er núna 17 teigur á Húsatóftavelli, sem er rauður teigur. Ég spila oft á þessum velli á sumrin á minni föðurarfleifð“, segir Pétur og hlær. Og til gamans fyrir ættfræðiáhugamenn  fylgir hér lýsing Péturs af upplifun hans, þegar hann spilaði golf í fyrsta sinn á þessu landi forfeðra sinna.

Þó þessi ferð ætti að heita golfleikur þá fór fljótlega af stað annar leikur í höfðinu á mér: Minningar. Hér höfðu forfeður mínir í föðurætt lifað og starfað. Þarna á Húsatóftum stóð ég væntanlega á tóftum húsa langafa míns og ömmu, Árna Jónsonar (f. 1850) og Vilborgar Guðmundsdóttur(f. 1852), sem fluttu að Húsatóftum árið 1907 með sjö börnum sínum, 13-25 ára, en þau fluttu frá Krísuvík þar sem þau höfðu búið sjö árin þar á undan og verið með allt að þúsund fjár. Þar áður höfðu þau búið að Sperðli í Landeyjum þar sem Ágústa amma mín fæddist (f.1891) og systkini hennar. Það sem lokkaði langafa í Staðarhverfið frá rolluskjátunum í Krísuvík var útræðið þaðan; útgerðin heillaði – og nóg var af sonunum til að gera út – en það varð langafa og ömmu dýrkeypt.

Golfið hélt áfram með góðum tilþrifum á stundum og minningarnar hlóðust inn sem truflaði einbeitinguna í sveiflunni – en hvað með það: Var ég ekki á ættargrund og þarf maður alltaf að fara í gegnum lífið sem þota án þess að hugsa um úr hverskonar efnivið maður er sorfinn ?

Þannig að ég lét hugann áfram reika samhliða sveiflunni.

Í Arfavík, á 13. og 14. Braut á vellinum, þar sem brimaldan brotnar var útræði mikið og sjórinn stundaður af miklu kappi í tíð langafa. Þarna stóð hún langamma mín þann 8. apríl 1915 og horfði út í gráðið þar sem veðrið gekk upp smám saman og él setti niður um kring. Þar úti á sjó átti hún þrjá syni sem allir fórust þar ásamt sjö öðrum bátsverjum á tíæringi.

Faðir minn, Kristinn Reyr, orti þessi þrjú síðari erindi um frændur sína, þá Magnús, Árna og Ólaf:

Þann apríldag.

…..Og enginn sá

hvað afa mínum

innifyrir bjó

þann apríldag

– er átti hann

syni tvo á landi

og syni þrjá

í sjó.“

 

Ritstjórn nóvember 17, 2021 07:32