Árni Snævarr upplýsingafulltrúi

Árni Snævarr er Íslendingum að góðu kunnur úr fjölmiðlum. Hann hefur hins vegar alið manninn mest í Brussel undanfarin 15 ár við vinnu hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann var ráðinn þangað fyrst í tvö ár, þótti það nóg til að byrja með. Hann fékk reyndar atvinnutilboð hér heima þegar hann var búinn að vera í Brussel í eitt ár en eftir nokkra umhugsun þótti honum fljótfærni að rjúka svo fljótt heim. Hann óttaðist að hann hefði þurft að horfast í augu við spurninguna: hvað ef? “Ég sá ekki eftir því vegna þess að fyrirtækið sem hafði boðið mér vinnu lagði upp laupana á innan við ári. Þá hefði ég staðið uppi atvinnulaus eða í það minnsta óhamingjusamur eða jafnvel bæði, því skömmu síðar kom hrunið.” Svo Árni prísaði sig sælan yfir að vera enn starfandi hjá Sameinuðu þjóðunum því í blaðamennskunni hefði ekki verið um auðugan garð að gresja. Hann segir samt hlæjandi frá því að hann sé svo oft á Íslandi að hann nái alveg að verða leiður. Börnin hans tvö eru Ásgerður 32 ára lögfræðingur í forsætisráðuneytinu og Þorgrímur 27 ára sem lærði að hluta til í Brussel en er nú á öðru ári í lögfræði hér á landi. Þau eru búin að marka sína eigin stefnu í lífinu svo að Árni er ekki bundinn þess vegna.

Þegar Árni kom fyrst til vinnu hjá Sameinuðu þjóðunum heyrði hann að Brussel væri borg sem væri svo gott að komast burtu frá. “Ég áttaði mig fljótlega á að það er auðvitað alveg laukrétt því staðsetning landsins er alveg kjörin. Það er mjög auðvelt að fara hvert sem er, stutt til Parísar og líka stutt til London. Svo eru flugsamgöngur þaðan gífurlega öflugar vegna fjöldans sem vinnur hjá Evrópusambandinu. Borgin er tiltölulega lítil miðað við London eða París svo ég tali nú ekki um New York þar sem fólk býr mjög þröngt þótt launin séu há. Ef maður vill búa sæmilega í þessum stóru borgum þarf maður að borga himinháa leigu og eyða svo skelfilega löngum tíma í samgöngur. Verðlagið hér í Brussel er þess vegna viðráðanlegt í samanburði.

Nú hefur auk þess sýnt sig eftir alla fjarvinnuna vegna covid að “bureaukratarnir” í Brussel geta starfað hver í sínu heimalandi og héraði og þurfa ekki allir að vera á sama stað. Svo á bara eftir að koma í ljós hvort það jákvætt eða neikvætt,” segir Árni.

Í Brussel er Árni með Norðurlöndin á sinni könnu. Í því felst að gefa upplýsingar og safna þeim um Norðurlöndin en líka standa fyrir viðburðum, svara fyrirspurnum o.þ.h. Hann starfar að mismunandi málefnum, allt frá loftslagsbreytingum til réttindamála kvenna. “Eitt lítið dæmi má nefna að sums staðar í heiminum hætta stúlkur í skóla þegar þær byrja á blæðingum af því að það er ekki snyrting í skólanum. Þetta er svo framandi fyrir okkur hér sem erum að skrifa um rifrildi stjórnmálamanna á þingi um smámál í samanburði. Það er því óskiljanlegt að munur á lífi fólks á jörðunni skuli vera svona mikill.”

Árni varð stúdent frá MR 1981 og fór eftir það í nám til Frakklands þar sem hann nam sögu og blaðamennsku. Seinna tók hann próf í alþjóðastjórnmálum í Brussel.

Eftir framhaldsnám í blaðamennsku í París hélt Árni til Kosovo þar sem hann starfaði fyrir Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í umboði íslensku friðargæslunnar og hefur nú boðað frið og framfarir á vegum Sameinuðu þjóðanna í þrjú ár.

Þegar grannt er skoðað hefur saga Árna verið í eðlilegu framhaldi af fyrri störfum og vinnan hefur borið hann víða um heiminn.

Í frítíma sínum fæst Árni nú við ritstörf og hefur þegar skrifað eina bók og lagt drög að annarri. Sú sem þegar er komin út er um Paul Gaimard sem var franskur landkönnuður og vísindamaður. Hann kom eins og stormsveipur til Íslands 1935 og ‘36 og um hann segir Árni að hann hafi stýrt mestu vísindaúttekt sem gerð hafði verið á eyjunni norður í hafi.

Árni er byrjaður að rannsaka heimildir í næstu bók sem hann segir að sé um Dýrafjarðarmálið. Það var þegar Frakkar komu með hugmynd um að stofna fiskverkunarstöðvar í Dýrafirði 1855. Seinna hafi Napóleon prins komið hingað og hugmynd var uppi um að stofna hér franska nýlendu. “Þetta þykir mér óskaplega spennandi að skoða og kannski verður önnur bók úr,” segir Árni Snævarr en áhugi hans á sögu gefur lífi hans augljóslega lit.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 2, 2020 07:36