Tengdar greinar

Ásta Möller tók stefnuna snemma á sveitina

Hér eru barnabörnin með Ástu og Hauki að velja jólatré í Norðurárdal: Hilmar Bragi nú 3, Haukur Hafliði (8), Una Bríet (6) og Svanhildur Ásta (10). Vantar Agnar Breka (3)

Ástu Möller þekkja margir af störfum hennar en hún hefur verið í sviðsljósinu á tímabilum. Nú er hún hætt að vinna og flutt í sveitina þar sem þau hjónin eiga litla paradís þar sem áhugamál þeirra fá að njóta sín. Þau létu gamlan draum rætast en hugmyndin að flytja í sveitina fæddist fyrir áratugum síðan. Örlögin höguðu því þannig að nú hefur sá draumur ræst, reyndar heldur fyrr en þau ætluðu.

Ásta er ekki nema 65 ára en hætti í sinni síðustu vinnu fyrir nokkrum misserum. ,,Ég hafði ætlað mér að vinna aðeins lengur en sjúkdómur sem lagðist á augun gerði það að verkum að ég gat ekki sinnt starfi mínu sem sviðsstjóri starfsmannamála hjá Háskóla Íslands lengur en það var mitt síðasta starf,” segir hún og er æðrulaus yfir þeim dómi. Nú er hún sest að í sveit og er meira að segja komin í kvenfélagið í Stafholtstungunum þar sem hún býr nú í Fornastekk í Stafholtstungum sem er til marks um að hún hefur aðlagast sveitalífinu vel.

Eru mikið hestafólk

Hús þeirra Ástu og Hauks og hestar þeirra á beit..

Eiginmaður Ástu er Haukur Þór Hauksson en hann hefur alla tíð verið sjálfstætt stafandi og rekur fyrirtækið Investis. Hann er búfræðingur að mennt og bætti síðar við sig viðskiptafræði. Haukur var í sveit hjá frændfólki sínu í Hjarðarholti í Stafholtstungunum. Þau Haukur og Ásta eru mikið hestafólk og voru með hrossin sín öll sumur hjá frændfólki Hauks í Borgarfirðinum. Þá fæddist hugmyndin að fá svolítinn skika undir sumarhús sem þau ætluðu að nota sem athvarf þegar þau væru að hugsa um hestana. Þau fluttu síðan 40 fermetra hús á landið og voru þar mjög mikið öll sumur en síðan eru liðin hátt í þrjátíu ár og mikið vatn runnið til sjávar. ,,Reiðleiðirnar upp og niður Þverána eru stórkostlegar og við nýtum okkur mikið að fara í útreiðartúra í þessu dásamlega landslagi, eins og Borgarfjörðurinn er reyndar allur,“ segir Ásta og brosir við tilhugsunina. ,,Þegar við vorum farin að vera þarna mjög mikið og liðin voru 8 ár langaði okkur að færa út kvíarnar. Þá kom til tals að við keyptum 60 hektara af landi sem hafði verið notaður til útigangs búfjár um aldaraðir sem er skammt frá þar sem sumarhúsið stóð og það varð úr, strax þá með það fyrir augum að þegar fram liðu stundir myndum við flytja alfarið í sveitina. Við létum leggja veg, ruddum fyrir túni og undirbjuggum svæði fyrir skógrækt og svo létum við teikna og byggja hús og skemmu. Og nú er þessi tími runninn upp og við flutt í sveitina,” segir Ásta og brosir.

Dvöldu sífellt lengur í sveitinni

Ásta og Hukur í afmæi vinar fyrir skömmu.

Það var árið 2005 sem Ásta og Haukur reistu húsið sem þau búa nú í. ,,Við seldum bústaðinn og byggðum þetta hús og gistum fyrstu nóttina í því fyrir 17 árum. Við vorum farin að vera svo mikið í sveitinni að ákvarðanatakan snerist orðið um það hvort við ættum að fara í bæinn eftir helgarnar frekar en um hvort við ættum að fara í sveitina um helgar,” segir Ásta og hlær. ,,Svo þegar covid skall á var ég hætt að vinna og þá ákváðum við að selja íbúðina okkar í bænum og byggja við húsið í sveitinni og flytja alfarið þangað.”

Svínin mesta áskorunin

Ásta segir að fyrir utan hrossin hafi þau verið með kindur í 10 ár. Þau ákváðu nýverið að nú væri nóg komið af kindahaldi m.a. vegna þess að það væri líklega dýrasta kjöt í heimi í svona frístundabúskap sem þau stunduðu án stuðnings frá ríkinu . ,,En þetta var mjög skemmtilegt á meðan á því stóð. Svo höfum við prófað að vera með landnámshænur og fengum egg en það sem var líklega mesta áskorunin var að halda svín. Það kom þannig til að tengdasonur okkar átti afmæli og vinir hans gáfu honum tvo grísi í afmælisgjöf. Þá vissum við alveg hvað til okkar friðar heyrði því þessir grísir yrðu ekki hafðir úti í garði hjá þeim,” segir Ásta hlæjandi. ,,Við tókum grísina í sveitina og þegar upp var staðið var mjög gaman að takast á við þessar skepnur. Haukur sóttist eftir því að fara út að gefa þeim og kom alltaf svo glaður til baka. Þegar grísirnir heyrðu fótatak hans nálgast strunsuðu þeir út úr skýlinu og hoppuðu og skoppuðu og fögnuðu honum innilega. Hann sagði að það fagnaði honum enginn eins vel og grísirnir! Þetta voru þriggja vikna kríli þegar þeir komu til okkar í júní og í lok ágúst voru þeir orðnir 50 kíló hvor. Þá voru þeir sendir í sláturhús og öllum bar saman um að hafa aldrei bragðað eins gott kjöt. Enda voru þeir aldir á afbragðs afgöngum og voru frjálsir og leið vel allan tímann hjá okkur. Þetta var mjög skemmtileg reynsla,” segir Ásta.

Örlögin tóku í taumana

,,Við erum mjög sátt og ánægð með að hafa tekið þessa ákvörðun á sínum tíma,“ segir Ásta. ,,Starfslokin áttu sér þó stað heldur fyrr en ég hafði ætlað því ég hafði hugsað mér að vinna til amk 65 ára aldurs. Ástæða starfslokanna var þessi sjúkdómur sem lagðist á augun mín. Ég gat ekki lengur sinnt starfi mínu sem sviðsstjóri starfsmannamála í HÍ svo þá var sjálfhætt. En þannig haga örlögin lífi okkar stundum og þá er bara að gera það besta úr því,“ segir Ásta og er ekki að sýta orðinn hlut. Hún segir að nú sé hægt að halda sjúkdómnum í skefjum með líftæknilyfjum og komið sé jafnvægi á hann og hún geti nú meira að segja keyrt í björtu sem skipti miklu. ,,Þetta byrjaði með því að haldið var að ég væri komin með gláku fyrir þremur árum en eftir nokkrar aðgerðir kom í ljós hvað þetta var og ég var sett á þessi nýju líftæknilyf.”

Fór þá í Garðyrkjuskólann

Þegar Ásta hafði fengið þann úrskurð að hún yrði að hætta að vinna fór hún að hugsa um að hún þyrfti nú að gera eitthvað í

Sjá má skemmuna vinstra megin við húsið og gróðurhúsið hægra megin.

staðinn. ,,Úr varð að ég fór í nám í Garðyrkjuskólann að Reykjum í Hveragerði sem er hluti af Landbúnaðarháskólanum,“ segir hún og hlær en hún hefur alltaf verið áhugamanneskja um garðyrkju. ,,Ég var nýbyrjuð í því námi þegar covid skall á svo ég er búin að vera í fjarnámi síðan og tek námið á þeim hraða sem hentar mér.“ Ásta segir að garðyrkjunámið sé mest fyrir hana sjálfa og hún muni liklegast ekki fara að starfa sem garðyrkjufræðingur. ,,Við settum upp gróðurhús þar sem ég er að rækta eitt og annað og nú hef ég verið í fyrsta sinn í blómarækt en áður var ég mest í trjárækt og grænmetisrækt. Svo hef ég verið að hjálpa Sædísi Guðlaugsdóttur á garðyrkjustöð hennar ,Gleym mér ei” sem er rétt utan Borgarness Þar eru fallegustu sumarblómin á landinu. Þetta er þriðja árið sem ég fer að hjálpa Sædísi frá febrúar/mars og fram á sumar og það er geysilega skemmtileg vinna. Svo kem ég aðeins á haustin í svolitla vinnu líka sem hentar okkur báðum mjög vel. Þetta telur inn í verknámið hjá mér svo það hentar fullkomlega,” segir Ásta sæl.

Starfsævin skiptist í fjögur tíu ára tímabil

Ásta er upphaflega hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands og bætti síðar við sig meistaragráðu í stjórnsýslufræðum frá sama skóla. Hún útskrifaðist 1980 og starfaði sem hjúkrunarfræðingur á Borgarspítalanum í nokkur ár. Fljótlega var hún þó farin að kenna í hjúkrunarfræðideildinni og varð síðar formaður fyrir háskólamenntaða hjúkrunarfræðinga. Og þegar félagið sameinaðist Hjúkrunarfélagi Íslands varð Ásta fyrsti formaður sameinaðs félags 1994. Eftir það hefur Ásta ekki verið í klínísku starfi en hefur lagt áherslu á að nýta þekkingu sína á heilbrigðisþjónustunni í störfum sínum.

Ásta starfaði í 10 ár sem hjúkrunarfræðingur og þá tók við 10 ára tímabil þar sem hún var í formennsku fyrir félag sitt eða til 1999. Að því loknu tók við 10 ára tímabil þar sem Ásta fór á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn og vann þar mikið að heilbrigðismálum. Að því tímabili loknu sótti hún um starf forstöðumanns hjá stofnun Stjórnsýslufræða og stjórnmála innan Stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands í fjögur ár og þaðan fór hún í verkefni hjá háskólarektor. Hún endaði sem sviðsstjóri starfsmannamála Háskólans sem var hennar síðasta formlega starf áður en hún hætti að vinna. Hún var því í nær 10 ár hjá Háskólanum. ,,Tilviljanir hafa oft ráðið því hvar ég hef starfað en öll þau störf sem ég hef tekið að mér hafa verið gefandi og skemmtileg,” segir hún eftir farsælan feril. ,,Í þessu covid tímabili hef ég verið svo stolt af stétt minni, hjúkrunarfræðingum, sem hefur lyft grettistaki við erfiðar aðstæður og staðið sig eins og hetjur. Það hlýtur að koma að því að vinna þeirra verði metin til sanngjarnra launa,” segir Ásta ákveðin en hún stóð lengi í að bæta kjör hjúkrunarfræðinga sem formaður félagsins.

Hafa haldið siðum

Þau Ásta og Haukur hafa haldið í siði sem þau komu sér upp fyrir löngu síðan og eitt af því er að fara í sund á morgnana eins oft

Í reiðtúr við Þverána með vinum sumarið 2020 með Baulu í baksýn.

og þau koma því við, helst á hverjum morgni. ,,Við fórum í áratugi í Árbæjarlaugina þar sem við hittum alltaf okkar hóp. Í sveitinni fundum við Varmalandslaugina þar sem við syndum helst á hverjum morgni. ,,Þangað erum við mætt á húninn klukkan átta og komin heim um kl. 9. Það skipti okkur miklu máli að halda þessari rútínu.”

Sniðu stakk eftir vexti        

Þegar börnin fóru að heiman seldu þau Ásta og Haukur einbýlishús sem þau áttu í Ártúnsholtinu og keyptu sér íbúð í Bryggjuhverfinu. Ásta vann þá í Háskólanum og Haukur niðri í bæ. En þar kom að þau fengu sig fullsödd af umferðinni frá Grafarvoginum niður í bæ svo þau ákváðu að selja íbúðina og kaupa íbúð við Grundarstíg. ,,Okkur hafði alltaf langað að upplifa að búa niðri í bæ og létum verða af því. Það var líka mjög skemmtilegur tími en svo kom að því að við seldum þá íbúð og ákváðum að fara alfarið í sveitina.”

Ásta og Haukur eiga þrjú börn og fimm barnabörn. Dæturnar skipta þeim á milli sín en sonur þeirra er yngstur og er ekki með börn. ,,Hann er hestafræðingur frá Hólum og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og vinnur með pabba sínum en þeir feðgar eru jafnframt saman í hrossarækt. Það er önnur nálgun á sveitalífið og hefur gefið okkur mikið,” segir Ásta.

Börnin og barnabörnin stærst í lífinu

Hér fagna Ásta og Haukur 35 ára brúðkaupsafmæli með börnum og tengdabörnum.

,,Það er svo dásamlegt ef krökkunum þykir ,,notalegt“ að koma til ömmu og afa í sveitinni eins og einn átta ára sagði í gær. Það er frí í skólum næstu daga og hann var spurður að því hvað hann langaði að gera í fríinu og sagði strax að hann vildi fara í sveiina til ömmu og afa af því það væri svo notalegt fara í pottinn, kíkja á hestana og leika í náttúrunni. Þetta var fullkomið svar fyrir ömmu og afa,” segir Ásta sem er mjög sátt við að vera nú orðin sveitastelpa.

Sóveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn febrúar 25, 2022 07:00