Lyftingar eru heppilegar fyrir þá sem vilja viðhalda vöðvamassa og tónuðum vöðvum og góðri beinheilsu. Það hefur löngum verið talið að það þurfi að lyfta þungum lóðum til að byggja upp vöðva. En samkvæmt nýrri rannsókn sem greint er frá á vefnum aarp.org er það ekki rétt. Það skilar jafngóðum árangri að lyfta léttum lóðum og þungum. Það eru hins vegar endurtekningarnar sem skipta máli. Það þarf að lyfta þangað til fólk er farið að þreytast -skiptir þá engu hvort fólk er ungt eða gamalt eða hefur stundað lyftingar áður. Rannsóknarteymi við háskólann í Hamilton í Kanada hefur gert samanburðarrannsókn á 50 einstaklingum körlum og konum sem skipt var í tvo hópa. Fólkið mætti í líkamsræktarstöð fjórum sinnum í viku í þrjá mánuði til að lyfta. Annar hópurinn voru byrjendur sem lyftu léttum lóðum og tóku 20 til 25 endurtekningar í hverri lotu, hinn hópurinn hafði æft lyftingar og lyfti þungum lóðum átta til tólf sinnum í hverri lotu. Aukning á vöðvamassa var svipaður hjá báðum hópum óháð aldri og fyrri getu. Fólk þarf að endurtaka lyfturnar þangað til að getur ekki meir, segir prófessor Phillis sem stýrði rannsókninni, það er það sem skiptir öllu máli en ekki þyngdin. Fólk byrjar að tapa vöðvamassa í kringum 30 ára aldur og eftir 65 ára aldur tapar það vöðvamassa mjög hratt, sérstaklega kyrrsetufólk. Mörgu eldra fólki hugnast ekki að fara að lyfta þungum lóðum. Phillis segir að lyftingar séu heppilegar sértaklega fyrir eldra fólk til að viðhalda styrk og hægja á vöðvarýrnun. Þær henti konum og körlum jafn vel.
Það er hægt að byggja upp vöðva með því að lyfta léttum lóðum.