Ástin fyrir opnum tjöldum

Steingerður Steinarsdóttir nýr ritstjóri Lifðu núna

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar. 

 

Ástin er undarlegt fyrirbæri og merkilegt hvað hún vefst fyrir mönnunum ekki bara á einn veg heldur margan. Þótt okkar eigið ástalíf valdi stundum endalausum áhyggjum og uppákomum látum við ekki nægja heldur hellum okkur af krafti í afskipti af ástum allra hinna. Eitt sinn voru það óþolandi rómantískir elskendur að leiðast, kyssast og faðmast á opinberum stöðum sem ollu taugatitringi, nú eru það allir væmnu statusarnir á fésbók og sú staðreynd að stundum breytist „Í sambandi“ í „Engar sambandsupplýsingar til að birta“ á einni nóttu.

Hálfundarlegt að sjá heilan hóp af fólki gefa vini sínum „Like“ á þá breytingu að vera orðin makalaus. Stundum er löng og erfið sorgarsaga að baki, einstaka sinnum stórkostlegt áfall og í einhverjum tilvikum sprenging í formi heiftarlegra átaka. Varla hægt að sjá nokkuð ánægjulegt við svona uppákomur og varla við því að búast að nokkur óski vini þess að ganga í gegnum slíkar hremmingar. En af hverju líkar mönnum breytingin? Er verið að senda stuðning eða samúðarkveðjur með þessu móti? Ef svo er þá hljómar það svolítið eins og að segja: „Til hamingju“ í jarðarför.

Þá eru það statusarnir. Sumir eru svo heppnir að geta tjáð sig reglulega um besta mann eða indælustu konu í heimi. Viðkomandi færði rjúkandi morgunverð í rúmið, rósir í eftirmiðdaginn eða kvaddi svo hlýlega og fallega áður en haldið var í vinnuna. Þegar fésbókaræðið og fyrir hrun sukkið sameinuðust kvartaði karl  einn sáran yfir því í pistli að ekki væri nokkur leið að keppa við ofureiginmennina á konudaginn. Hans viðleitni til að vera konu sinni góður á konudaginn, bliknaði í samanburði við hálsmenin, hringana og farseðlana sem faldir voru í risablómvöndum vinkvennanna. Og allar áttu þær ótal orð til að lýsa þessum, æðislega, dásamlega, sætasta, flottasta og besti manni í heimi. Guð! Hvað þær elskuðu hann heitt.

Hvað gerði hann nú af sér?

Jamm, ábyggilega lítið skemmtilegt fyrir meðaljónuna og meðaljóninn að lesa, kannski nýkomin á fætur, úldin upp úr rúminu og búin að steingleyma bóndadeginum eða hinum samsvarandi konudegi. Vissulega nægt tilefni til að fussa svolítið í morgunkaffinu yfir væmninni, yfirdrepsskapnum og af því það er ekki nóg skjóta nokkrum eitruðum örvum. „Hvað ætli hann hafi nú gert af sér fyrst blómin voru ekki nóg heldur varð að bæta við demantshálsmeni.“

Æ, já, ástin, hún slævir einhvern veginn dómgreind okkar á hvar mörkin milli væmni og hlýju liggja og hversu teygjanlegt þol umhverfið hefur. Þeir sem ekki eru á valdi hormónanna og sjá allt í rósrauðum bjarma hins ástfagna eiga stundum bágt með að þola hjalið. Parið sem leiddist um allt í menntaskóla og kysstist bless fyrir utan kennslustofudyrnar er orðið miðaldra og ergilegt. Ofurrómantískir statustar af fésbókinni eru í huga þess óviðeigandi og barnalegir, ekki hvað síst ef þeir eru settir fram af jafnöldrum þeirra.

En hvað er viðeigandi og óviðeigandi þegar ástin er annars vegar? Eiga ástfangin pör að stilla sig hvort sem er á Netinu eða á götuhornum, veifa í kveðjuskyni og segja sem minnst um sambandið? Mörgum finnst það. Sú kenning er jafnvel uppi í sumum hópum að því meiri sem rómantíkin, kjassið og kjammsið væri í fyrstu þess meiri líkur á að sambandið færi í norður og niðurfallið. Hin gamla og lífsseiga bölsýni Íslendinga. Bölsýni sem öldum saman stóð eins og veggur milli bænda í harðbýlu landi og raunveruleikans. Lærðu að búast alltaf við hinu versta þá getur þú glaðst svo innilega þá sjaldan að það gerist ekki. „Gegn svo mörgu sem guð þeim sendir menn gera kvíðann að hlíf.“

Þetta lærðum við og tileinkuðum okkur og það er erfitt að snúa af þeirri braut; venda sínu kvæði í kross og segja upphátt og keik: Ég elska þig.  Hrós átti að spara og alls ekki má vera of yfirdrifinn í því heldur. Er ekki oflof háð? En er það ekki með góðu orðin eins og sparifötin, ef þau geymast of lengi ónotuð inni í skáp verða þau á endanum of lítil? Jú, sú er hættan.  Gleðjumst þess vegna með vinum sem ræða samvistarhamingju sína opinskátt á fésbók en samhryggjumst þeim þegar raunveruleikinn reynist of grár og erfiður til að viðhalda ljúfum stundum. Kommentum frekar og sendum hlýja samstöðukveðju og gefum „liketakkanum“ frí þegar hann á alls ekki við.

Steingerður Steinarsdóttir febrúar 25, 2024 07:00