Tengdar greinar

Átakanlegar frásagnir af kjarnorkuslysi í Tjernobyl- bæninni

Þau voru ung og ástfangin, Vasja og Ljúsja, nýgift og áttu von á fyrsta barninu sínu þegar slysið varð í kjarnorkuverinu í Tsjernobyl, þar sem  Vasja var slökkviliðsmaður.  Frásögn Ljúsju og fjölda annarra fórnarlamba slyssins streyma fram á síðum bókarinnar Tsjernobyl- bænin framtíðarannáll, eftir Svetlöndu Aleksíevítsj. Angústúra gefur bókina út.  Þetta er sannarlega áhrifarík bók sem lýsir slysinu frá sjónarhóli fjölmargra ólíkra einstaklinga, svo sem starfsmanna í kjarnorkuverinu og aðstandenda þeirra, íbúa í grenndinni, fólks sem starfaði í kórum á svæðinu, eðlisfræðinga og forstöðumanns Kjarnorkustofnunar Hvíta- Rúss.

Eftir sprenginguna í kjarnakljúfnum fór Vasja í útkall ásamt félögum sínum. Skömmu síðar voru þeir allir komnir á sjúkrahús og síðar voru þeir fluttir á sjúkrahús í Moskvu, án þess að eiginkonurnar fengju að fara með. Ljúsja lét það ekki aftra sér frá að fara til að sitja við sjúkrabeð síns heittelskaða og hélt til Moskvu ásamt föður sínum.  Lýsing á veru hennar hjá Vasja á sjúkrahúsinu er átakanleg.

Hann var í þrýstiklefa, stúkaður af með gagnsæjum plasttjöldum og bannað var að stíga inn fyrir þau. Þetta var gert svo hægt væri að gefa sprautu eða koma fyrir hollegg án þess að fara inn fyrir plastið… Á því voru alls kyns rif- og rennilásar sem ég lærði á… Til að geta laumast inn fyrir tjaldið… Að rúminu hans. Hann var orðinn svo slæmur að ég vék ekki frá honum, ekki eina mínútu. Hann kallaði og kallaði í sífellu… Kallaði stöðugt á mig: „Ljúsja, hvar ertu? Ljúsja mín!“ Kallaði og kallaði… Í hinum þrýstiklefunum lágu félagar hans en hermenn hjúkruðu þeim, fastastarfsmenn sjúkrahússins neituðu að sinna þeim án hlífðarfatnaðar. Hermenn komu með koppinn. Skúruðu gólfin, skiptu á rúmunum…Sáu um alla þjónustu. Hvaðan komu þessir hermenn? Ég spurði einskis… Hann var sá eini… Sá eini sanni… Og á hverjum degi heyrðist sagt: Dáinn, dáinn… Tísjsúra er dáinn. Títenok, dáinn. Dáinn… Eins og hamarshögg í höfuðið.

Stólpípa tuttugu og fimm til þrjátíu sinnum á sólarhring. Blóð og slím. Húðin farin að springa á höndum og fótum… Líkaminn þakinn brunablöðrum. Hann hagræddi höfðinu og hártjásur urðu eftir á koddanum… En samt var þetta ástin mín. Ég elskaði hann svo heitt. .. Ég reyndi að slá þessu upp í grín: „Þetta er bara betra. Nú þarf ég ekki að taka greiðu með mér.“ Skömmu síðar voru þeir allir krúnurakaðir. Ég klippti hann sjálf. Ég vildi sjálf sjá um allt sem að honum sneri. Ef líkaminn hefði haldið það út hefði ég verið hjá honum tuttugu og fjóra tíma sólarhringsins, ekki vikið frá honum eitt andartak.

Ljúsja skreppur frá  sjúkrabeðinum og þegar hún kemur tilbaka er appelsína á stól við hlið Vasja, en hjúkrunarkona handan við plastið gefur til kynna að hún skuli ekki snerta appelssínuna. Það sem hafði komið nálægt honum í stutta stund mátti ekki snerta, hvað þá borða. Ljúsja lét ekkert stoppa sig og  sat hjá Vasja öllum stundum.

„Ég gerði allt til þess að hann þyrfti ekki að hugsa um dauðann… Um þessi skelfilegu veikindi og hvort ég yrði hrædd við hann… Ég man slitur úr samtali… Einhver reyndi að hafa vit fyrir mér: „Mundu að það sem þú hefur fyrir framan þig er ekki maðurinn þinn, ekki mannekskjan sem þú elskar, heldur geislavirkur hlutur sem smitar hratt úr frá sér. Ekki ætlar þú að fyrirfara þér? Taktu þig saman í andlitinu.“ Ég var að missa vitið: „Ég elska hann! Ég elska hann!“ Á meðan hann svaf hvíslaði ég: „Ég elska þig!“ Á tröppum spítalans: “Ég elska þig!“ Með koppinn í höndunum: „Ég elska þig!“ Ég hugsaði um lífið eins og það var. Um heimilið okkar á slökkviliðsstöðinni… Hann varð að halda í höndina á mér til að geta sofnað. Þetta komst upp í vana; hann hélt í höndina á mér á meðan hann svaf. Alla nóttina.

En á spítalanum var það ég sem hélt í höndin a á honum og gat ekki sleppt…

Nótt. Friður og ró. Við tvö. Hann horfir lengi á mig og segir svo:

– Mig langar svo að sjá barnið okkar. Hvernig ætli það sé?

– Hvað eigum við að skíra það?

– Þú þarft að ákveða það…

– Af hverju ég, erum við ekki tvö?

– Jæja, ef það er drengur má hann heita Vasja en Natasha litla, ef það er stelpa.

Gunnar Þorri Pétursson þýðandi Tjernobyl bænarinnar verður með námskeið um bókina í Safnaðarheimili Neskirkju, en það verður haldið í fjögur skipti á tímabilinu 26.apríl – 17.maí. Hann hvetur fólk til að skrá sig í tæka tíð, því uppselt var í fyrra á námskeið hans um Karamazov bræðurna sem haldið var á sama stað.

https://tix.is/is/event/12931/tsjernobyl-b-nin-namskei-undir-lei-sogn-gunnars-orra/

 

Ritstjórn mars 30, 2022 16:33