Upp og niður stigana í Glaumbæ

Mörgum fannst sorglegt þegar skemmtistaðurinn Glaumbær brann í desember árið 1971, en ekki öllum. Nágrönnum staðarins í miðbænum fannst að minnsta kosti sumum, ekki mikil eftirsjá að staðnum.  En um tvö þúsund ungmenni settu snarlega á laggirnar „Glaumbæjarhreyfingu“ og kröfðust endurreisnar staðarins. Það reyndist árangurslaust og skemmtanir  fluttust annað.

Plötusnúðurinn Ásta R. Jóhannesdóttir

Plötusnúðurinn Ásta R. Jóhannesdóttir

En hvers vegna var Glaumbær svona vinsæll? Ásta R. Jóhannesdóttir sem vann sem plötusnúður þar á sjöunda áratugnum segir að Glaumbær hafi verið sérstakur heimur. Aðalspenningurinn var að komast inn og svo að ganga ákveðnar leiðir um staðinn, fram og tilbaka og upp og niður stiga. Þetta voru stöðugar hringferðir, farnar til að athuga hverjir væru þarna. Hljómsveitin var niðri, en diskótekið efst uppi og svo voru nokkrir barir sem hægt var að flakka á milli. Vinsælustu hjómsveitirnar spiluðu á staðnum og nýjustu plöturnar voru spilaðar í diskótekinu eftir að það var opnað. Það kom sér vel fyrir Ástu að hún var flugfreyja á þessum árum og gat keypt nýjustu plöturnar ýmist í Evrópu eða Bandaríkjunum „En svo brunnu þær allar þarna inni í brunanum mikla“, segir hún. Ásta segir að það hafi verið mikið fjör í biðröðinni, þar kynntust verðandi hjónaefni og dyraverðirnir sem voru farnir að þekkja gestina, gáðu að því að þeir væru ekki með fölsuð nafnskírteini, sem var vinsælt. Unglingar fengu lánuð nafnskírteini frá eldri systkinum eða skólaskírteini frá eldri nemendum og freistuðu þess að komast inn í Glaumbæ. En þeir urðu að vera almennilega til fara, það var til dæmis bannað að vera í gallabuxum og buxum með tvöföldum saum. Ásta segir að umræðan um klæðaburðinn á Alþingi hafi stundum minnt sig á svipaða umræðu í Glaumbæ.

Bruninn í Glaumbæ veturinn 1971

Bruninn í Glaumbæ veturinn 1971

Skemmtistaðurinn Glaumbær hvarf, en húsið var byggt árið 1916 sem íshús. Á þeim árum þegar ís var höggvinn á Tjörninni til að nota í fiskvinnslu, þegar engir voru frystiklefarnir. Núna er Listasafn Íslands í húsinu, sem var fallega gert upp.

Ritstjórn október 25, 2014 13:08