Kerlingar í Kerlingarfjöllum

Sigrún nýtur lífsins í ferðinni

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég vaknaði í morgun með augað í pung eftir mýbit. Ég er stolt af þessu biti því ég fékk það í göngu með kvennahópnum sem kallar sig Dalalæður. Þessi hópur hefur tekið sig saman ellefu sinnum og farið í tveggja daga göngu í júlíbyrjun. Farið hefur verið í Þakgil, Snæfellsnes, Þjórsárdal, Húsafell, Þórsmörk, Laxárgljúfur og Vörðufell og fleiri náttúruperlur heimsóttar. Að þessu sinni lá leiðin í Kerlingarfjöll.

Sólin skein þegar við kvöddum Reykjavík snemma á fimmtudegi og sólin skein enn þegar ferðin endaði  á föstudagskvöldi á bílastæðinu fyrir neðan Háskóla Íslands þar sem hvíthærðir eiginmenn biðu göngugarpanna.

Ég hafði aldrei farið áður í Kerlingarfjöll og þurfti að byrja að skoða kortið til þess að átta mig á væntanlegu ferðalagi. Ég var hálf kvíðin. Klára ég mig í þessum göngum? Við erum jú orðnar tíu árum eldri en þegar Dalalæðurnar fóru í fyrstu ferðina.

Eftir  stutt stopp við Gullfoss var haldið í átt að Kerlingarfjöllum. Allt í einu blöstu við okkur tveir jöklar, Langjökull og Hofsjökull, glitrandi í sólskininu. Ótrúlega falleg fjöll birtust, Hvítárvatn og þegar komið var á áfangastað í Kerlingarfjöllum biðu okkar uppbúin rúm og heitur matur með meiru. Eftir stutta pásu fórum við aftur upp í rútuna og keyrðum að Hveradölum, í fylgd tveggja herra sem ætluðu að leiðsegja okkur. Þetta voru Jónas Valdimarsson og Valdimar Flygenring, sem nutu sín vel í kvennaskaranum.

Hann er fjölbreyttur hópurinn sem kallar sig Dalalæður

Dagurinn flaug áfram með áskorunum fólgnum í háum brekkum, frumstæðum tröppum, snjóbreiðum og stórgrýti, þreyttum mjöðum og enn þreyttari hnjám sem mörg hver hafa verið í notkun í sextíu til sjötíu ár og jafnvel lengur. Um kvöldið hurfu lambalæri sem frábærir kokkar höfðu steikt og síðan breyttist bílstjórinn í harmonikkuspilara, leiðsögumennirnir í forsöngvara og skemmtikrafta og ungi kokkurinn í gítarleikara. Seinni daginn fóru nokkrar í morgunbað í náttúrulaug í grenndinni, morgunmatur beið og svo var aftur lagt af stað í göngu við Gýgarfoss og áfram eftir gilbrúninni inn í þögnina og blíðuna. Við vorum komnar til Reykjavíkur með rútunni undir kvöld með dásamlegar minningar í farteskinu.

Leiðsögumennirnir gegndu ýmsum hlutverkum í ferðinni

Mig langar til að heimsækja Kerlingarfjöll aftur sem fyrst. Ég er ekki vel að mér í gönguleiðum á Suðurlandi en þessi gönguhópur hefur opnað fyrir mér hverja perluna á fætur annarri. Undantekningarlaust hef ég endurtekið leikinn í kjölfarið með manninum mínum og þá leik ég leiðsögumann. Formúlan bak við þennan gönguhóp er sáraeinföld en virkar. Dalalæðurnar eru 30 konur á öllum aldri og stéttum. Þarna eru hjúkrunarfræðingar, kennarar, verkfræðingar, leiðsögumenn, fjölmiðlafólk, já bara alls konar konur. Sumar þekki ég vel, aðrar lítið sem ekkert. Við getum boðið vinkonum okkar að koma inn þegar einhver afföll verða. Tvær úr hópnum skipuleggja ferðina og yfirbygging er engin og kostnaði haldið í lágmarki. Einföld formúla sem gengur upp.

En aftur að auganu í pung. Ég lít alls ekki vel út en ég veit að þetta lagast á nokkrum dögum. Í staðinn á ég fullt af minningum og stolti yfir að þora enn að taka áskorun og fara út úr þægindarammanum og finna að þrátt fyrir 73 ár að baki get ég enn það sem ég ætla mér.

P.s

Kjalvegur frá Gullfossi  inn að Kerlingarfjöllum er í fínu standi og ég treysti okkar litla bíl vel fyrir að fragta mig og sambýlismanninn þangað til þess að endurtaka leikinn. Aðstaðan í Kerlingarfjöllum er til fyrirmyndar og upplagt ferðalag fyrir þá sem vilja upplifa kyrrð fjallanna, jöklanna  og reyna svolítið á sig.

 

Ritstjórn júlí 10, 2020 08:44