Skiptir ekki máli að hafa verið viðskiptavinur til þrjátíu ára

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir skrifar

Mér brá í brún mánaðamótin þegar símareikningurinn minn hækkaði um 100% frá mánuðinum á undan.  Fór í símabúðina og fékk strax tilboð um aðra áskrift með ótakmörkuðum fjölda símtala út um allar trissur.  Það var frábært.  Var að vísu undrandi á reikningnum sem hafði hækkað um 100% milli mánaða og spurði hvort hægt væri að athuga það mál og hugsanlega leiðrétta.  Nokkru síðar var þeirri beiðni hafnað í pósti.  Ég hefði nefnilega fengið sms um þróun símanotkunar minnar reglulega.   Og það var að sjálfsögðu rétt.  Ég sem var með 500 mínútuna áskrift og 100 sms, fékk þær upplýsingar nokkrum dögum fyrir mánaðamót að ég væri búin að tala í símann í rúmlega 700 mínútur.  Að það gæti  hækkað reikninginn um 100% hafði hreinlega ekki hvarflað að mér.  Hringi í símafyrirtækið, er númer 13 í röðinni á virkum degi þegar flestir eru í vinnu. Bíð, líklega í hálftíma.  Þegar röðin loks kemur að mér, er ég tilbúin með erindið og vil fá að ræða það að leiðréttingu á símareikningnum hafi verið hafnað en það hafi ekki verið neitt mál að bjóða mér nýja og betri áskrift.  Hvort ekkert sé hægt að gera fyrir mig sem sé búin að skipta við símafyrirtækið í 30 ár?

Unga konan er kurteis og segir „Það gilda sömu reglur fyrir alla og skiptir ekki máli hvort þú ert búin að vera í viðskiptum í eitt ár eða þrjátíu ár“, segir hún.

„Nú“, segi ég og það er aðeins farið að þykkna í mér „Þá er ég kannski bara ekki hjá rétta fyrirtækinu með mín viðskipti.  Mér datt ekki í hug að rúmlega tvö hundruð mínútur framyfir 500 mínúturnar þýddi 100% hækkun á símareikningnum“.

„Verðskráin er á netinu“, svarar unga konan.

„Já, ég hef ekkert verið að lesa hana“, segir ég.  „Heldurðu að viðskiptavinirnir séu alltaf að tékka á verðskránni?“  Hún vissi það ekki, en ítrekaði að þetta væru reglurnar og hún hefði ekki samið þær.

Ég skildi það mæta vel og bað hana að skila því til æðri yfirvalda að mér þættu þetta kaldar kveðjur eftir 30 ára viðskipti við fyrirtækið.  Gat síðan ekki stillt mig um að spyrja, hversu margir væru að svara í símann þarna í reikningadeildinni, ég hefði beðið í hálftíma.  Ég hefði reynslu af að hringja í skiptiborð fyrirtækja í Bandaríkjunum, þar sem byggju 300 milljónir manna og stundum hefði ég þurft að bíða ansi lengi, en símafyrirtækið hér í smáríkinu væri farið að slá þeim við þar vestra.

„Við erum nokkur“ sagði unga konan, en viðurkenndi þó að það hefðu verið sumarleyfi og staðan kannski ekki jafn góð í símsvöruninni og æskilegt væri.

Það var ekki við ungu konuna að sakast, hún var ákaflega kurteis og fór í einu og öllu eftir settum reglum eins og henni bar að gera, en það flaug að mér hvað tímarnir væru breyttir.  Að ekki skipti lengur máli að þjónusta viðskiptavini sem hefðu verið í viðskiptum hjá sama fyrirtæki í áratugi.  Þá skiptir nefnilega heldur ekki lengur máli, hvar maður hefur sín viðskipti.

Það var þess vegna ekki mikið umhugsunarefni fyrir mig, þegar ég gekk inn í annað símafyrirtækið fyrir tilviljun, var boðið að flytja öll mín viðskipti þangað og mér gert tilboð sem ég gat ekki hafnað!!  Ég ákvað að skilja við símafyrirtækið mitt eftir þrjátíu ára samfylgd og var eiginlega sama.

Erna Indriðadóttir júlí 6, 2020 07:22