Ávarp formanns LEB, Helga Péturssonar, á landsþingi félagsins í gær

Guð gefi ykkur öllum góðan dag og farsæld í starfi.

Ég hef oft rekið mig á það á undanförnum fjórum, fimm árum sem ég hef komið nálægt réttindabaráttu okkar eldra fólks, hversu mikill tími óg kraftur fer í að reyna að kveða niður margskonar bábiljur og aldursfordóma í okkar garð. Það er svo ótrúlega stutt í að við séum dregin í einhvers konar dilka, oftast tengdum aldri og því sem umhverfið kallar tímamót í okkar lífi.

Við þekkjum umrót sem verður við 67 ára aldur og töku lífeyris og við þekkjum breytingar sem verða á lífi fólks á vinnumarkaði eftir 70 ára aldur, breytingar á rétti til lífeyris, að maður tali svo ekki um þá sem þurfa á mikilli aðstoð að halda, jafnvel dvöl á hjúkrunarheimilum.

Hringiðan sem verður til við mat á því hvaðan við höfum tekjur og hvernig og raunar mat umhverfisins, þjóðfélagsins, á því hvað við eigum að hafa og hvernig hefur jafnvel leitt til þess að við erum sjálf farin að tala okkur niður.

Og það þarf auðvitað ódrepandi bjartsýni til þess að halda réttindabaráttu eldra fólks á lofti.

Á þessum fundi sem nú er að hefjast, þurfum við að horfast í augu við þá stöðu sem réttindabarátta okkar er í.

Og það er ekki gæt að segja að við höfum setið á rassgatinu og ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Við erum á undanförum misserum búin að fara með áhersluatriði okkar á fundum með öllum.  Öllum stjórnmálaflokkum, öllum ráðherrum, hinum og þessum þingmönnum , fulltrúum verkalýðsfélaga, sveitarfélaga, fulltrúum atvinnulífsins, og fjölmargra stofnana sem okkur varða.

Okkur hefur alls staðar verið tekið vel, en það hefur nákvæmlega ekkert gerst. Ekki neitt.  Fólk er auðvitað ýmist í stjórn eða stjórnarandstöðu og hefur misjöfn tækifæri til þess að knýja fram breytingar, en þegar málefni eldra fólks ber á góma er eins og enginn vilji sé til verka.

Nú erum við með bakið upp að vegg.  En það er ekki hægt að segja við okkur:  Talið þið við þennan – eða talið þið við hinn.    Við erum búin að tala við alla. Og út af fyrir sig er það merkileg staða og auðvitað lærdómsrík. Þetta eru viðtökurnar og viðhorfin til okkar.

Ráðherra hefur sagt við mig:  Helgi – Þú verður að átta þig á því að það er fullt af eldra fólk sem hefur það bara gott……… Og ég hef svarað:  EN EKKI HVAÐ?  Eigum við að hafa það skítt? Eftir 40 til 50 ár á vinnumarkaði, – eigum við þá rétt að skrimta? Eða vera fyrir neðan öll mörk, sem því miður er reyndin. Það er auðvitað óhugnanleg staða þegar greint af frá því að helmingur fólks á vinnumarkaði dagsins í dag eigi í erfiðleikum með á ná endum saman um hver manaðarmót.  Á þetta að vera normið?  Og menn ræða þetta ekkert frekar.

Svo er kominn nýr tónn í umræðuna.  Fyrsti þingmaður eldra fólks – Viðar Eggertsson, sem einnig er starfsmaður mánaðarins á skrifstofu LEB og sá eini – efndi til orðaskipta um kjaragliðnun við  fulltrúa stjórnvalda á Alþingi í síðustu viku. Viðar lagði þar fram fjölmörg atriði sem sýna þessa þróun. Milljarðamæringur úr Garðabæ, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, kannaðist ekki við annað en að sífellt væri verið að  hlaða undir eldra fólk og bætti því við að talsmenn eldra fólks færu iðulega með rakalausan þvætting í máli sinu.  Rakalausan þvætting.

Valinkunnar sómamanneskjur í Kjaranefnd LEB og talsmenn félaganna, – þið sem hér eruð – farið með rakalausan þvætting.

Á þessum landsfundi okkar í maí 2023 ætlum við að fjalla vandlega um kjaramál.  Ég ætla ekki að rekja þau mál hér, til þess er fundurinn, en ég legg á það áherslu að við fjöllum um baráttuaðferðir.  Munið:  Við erum með bakið upp að veggnum og erum búin að tala við alla. Það hefur ekkert komið út úr því.

Við höfum rætt að efna til sérstaks kjaramálaþings í haust og ég er hrifinn af hugmynd um sérstakt landsþing eldra fólks í Hörpu haustið 2024 – opið fyrir alla með gríðarlegri dagskrá og skemmtun. Þetta er bara hugmynd. Fáum endilega fleiri. En látum ekki saka okkur um þvætting.

Landsfundur Landssamband eldri borgara 2023 er settur.

Ritstjórn maí 10, 2023 07:35