Hvað ætla stjórnmálaflokkarnir að gera í málefnum eftirlaunafólks eftir kosningar?

Stjórnmálaumræðan er farin í gang í Sjónvarpinu og að þessu sinni, er enginn flokkur sem í orði lætur sér ekki annt um eldri kynslóðina, þá sem eru komnir á eftirlaun í landinu.  Allir sem einn vilja þeir nú bæta kjör þessa hóps.  Það hyggjast Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn gera með því að samþykkja nýja frumvarpið um almannatryggingar sem velferðarráðherra hefur lagt fyrir þingið.  Þar er m.a. verið að hækka eftirlaunaaldurinn í landinu í 70 ár og gera starfslok sveigjanlegri.  Heldur er dregið úr skerðingum í kerfinu og meta stjórnvöld það þannig að með þessu sé verið að bæta kjör eftirlaunafólks um sem nemur 5.3 milljarða.

Vinna sér inn 100 þúsund en fá 32 þúsund í vasann

Félag eldri borgara í Reykjavík telur að margt í frumvarpinu horfi til bóta, en annað sé óviðunandi. Þá sé ljóst að verulegur hluti þessara rúmlega 5 milljarða fari tilbaka til ríkisins í formi tekju- og veltuskatta.  Með frumvarpinu stendur til að afnema aftur frítekjumark þeirra sem eru í vinnu, en þeir hafa getað unnið sér inn rúmar 100 þúsund krónur á mánuði, án þess að það skerði eftirlaunin sem þeir fá frá Tryggingastofnun ríkisins. Félagið telur að þetta vinni beinlínis gegn því markmiði frumvarpsins að fá eldra fólk til að vinna lengur.  Enda, hver ætti að vilja vinna eftir að eftirlaunaaldri er náð, ef þeir enda uppi með 32 þúsund krónur í vasann vinni þeir sér inn 100 þúsund krónur?  Þá gerir frumvarpið að hluta til ráð fyrir tilfærslu fjár, þ.e. frá millitekjuhópnum til þeirra sem hafa lágar tekjur, þannig að eftirlaun 4500 manns lækka verði frumvarpið samþykkt óbreytt.  Þeir tekjulægstu virðast heldur ekki fá nógu mikið í sinn hlut, verði frumvarpið að veruleika.

Vill 300.000 króna lágmarks eftirlaun

Krafa Félags eldri borgara og Gráa hersins er sem fyrr, að lágmarkslaun eldra fólks, fylgi almennum lágmarkslaunum í landinu og verði 300.000 krónur árið 2018. Þá vill félagið allar skerðingar burt. Undir þessar kröfur taka flestir, ef ekki allir flokkar sem eru í stjórnarandstöðu.  Félagið og Grái herinn efna til borgarafundar í Háskólabíói annað kvöld, miðvikudaginn 28.september klukkan 19:30 og ætla að krefja frambjóðendur allra flokka svara um hvernig þeir hyggjast ná þessum markmiðum.  Fundarmönnum verður gefinn kostur á að koma með spurningar úr sal.

 

 

Ritstjórn september 27, 2016 16:36