Atkvæði eldri borgara eru rúmlega 40.000

Gísli Jafetsson er Rolling Stones aðdáandi, hann er framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og situr í herráði Gráa hersins. Hann hefur áhuga á „ræktun lýðs og lands“ eins og hann orðar það glettnislega og unir sér best í sumarbústaðnum sínum á Rangárvöllum, þar sem hann hefur ræktað heilmikinn skóg. Hann er svolítið í golfi, en byrjaði of seint að eigin sögn, og hefur tvisvar farið á tónleika erlendis með átrúnaðargoðunum í Stones.

Símavinnuflokkur Kjartans Sveinssonar í Mjóafirði árið 1969. Gísli er fjórði frá hægri í efri röð

Símavinnuflokkur Kjartans Sveinssonar í Mjóafirði árið 1969. Gísli er fjórði frá hægri í efri röð

Malbikslyktin boðaði sumar

Gísli er svo mikill Reykvíkingur að það er malbikslyktin sem vekur með honum þá kennd, að vor sé í lofti.  „Ég fór í nokkra daga í sveit en mér þótti lyktin þar vond og entist ekki lengi á bænum“, segir hann. Hann fór hins vegar með símaflokki vestur á firði þegar hann var að verða sextán ára og kynntist þá lífinu fyrir utan höfuðborgina  í fyrsta skipti. „Við vorum þarna saman nokkrir ungir piltar og þetta var mikið ævintýri. Það var verið að leggja sjálfvirka símann og þetta var þrælavinna, en mjög gaman. Það var mikið fjör á sveitaböllunum sem við sóttum um hverja helgi.  Það var farið í Logaland og á Birkimel á Barðaströnd. Það rifjaðist svo upp þegar ég sá og heyrði BG og Ingibjörgu spila á Menningarnótt, að eitt sinn var farið á ball með þeim í Djúpinu, í Ögri minnir mig.  Það var mikið skrall og uppplifun fyrir ungan mann úr höfuðborginni“. Gísli var í símavinnunni í hjá Kjartani Sveinssyni verkstjóra og Þórhildi konu hans í þrjú sumur. Hann segir að síðari árin hafi þeir vinnufélagarnir verið „farnir að kíkja á stelpur og skoða í flöskur“.

Gísli nýtur þess að dvelja í sumarbústaðnum bæði á sumrin og veturna

Gísli nýtur þess að dvelja í sumarbústaðnum bæði á sumrin og veturna

Var næstum rekinn úr Laugarnesskólanum

Gísli sem fæddist og ólst upp í Múlahverfinu fyrir ofan Múlakamp gekk í Laugarnesskólann og eitt sitt stóð til að reka hann og Mörð Árnason íslenskufræðing úr skólanum, fyrir að neita að mæta í jólamessu hjá Séra Garðari Svavarssyni í Laugarneskirkju. Þeir voru uppátækjasamir og voru líka staðnir að því að næla sér í  molasykur á kennarastofunni, þar sem þeir áttu leið í gegn þegar þeir fóru í morgunsönginn. Þrátt fyrir þetta varð ekki úr því að þeir væru reknir úr skólanum. „Við höfðum sterkar skoðanir“, segir Gísli og bætir við að trúmál trufli sig þó ekkert í dag.

Alltof gaman til að stunda námið

Gísli fór í Menntaskólann í Hamrahlíð „Það var alltof gaman og lítill tími til að stunda námið. Þetta voru þannig ár að sólarhringurinn dugði ekki til að sinna lærdómnum og ég lauk menntaskólanum ekki fyrr en síðar“ rifjar hann upp. Hann eignaðist dóttur á meðan hann var í skólanum sem varð til þess að hann hætti og fór að vinna hjá launadeild fjármálaráðuneytisins. „Ég hafði strax gaman af tölum og varð svo einn af fyrstu starfsmönnunum hjá Reiknistofu bankanna. Þar var ég í rúm 20 ár í ýmsum störfum. Þetta var skemmtilegur uppbyggingartími í nýju fyrirtæki með ungu fólki og störfin voru spennandi og vel launuð. Ég fór  í framhaldsnám samhliða vinnunni og lærði rekstrarfræði í HÍ og síðar tók ég diplómapróf í mannauðsstjórnun frá sama skóla“.

Anna og Gísli á góðri stund í Pétursborg

Anna og Gísli á góðri stund í Pétursborg

Sérfræðiálitin fást heima

Gísli er umvafinn konum í einkalífinu. Eiginkona hans er Anna Antonsdóttir bókari í fjármálaráðuneytinu en hún er Reykvíkingur eins og hann, úr smáíbúðahverfinu. Þau Anna kynntust á Mallorca fyrir tilviljun, þar sem þau voru í sumarleyfi og bjuggu á sama hóteli. Veðrið var að sjálfsögðu gott og rómantíkin lá í loftinu. Þau eiga saman tvær dætur, þannig að dætur Gísla eru samtals þrjár og hann þarf ekki að leita langt yfir skammt eftir sérfræðiálitum, þar sem ein er læknir, önnur lögfræðingur og sú þriðja er líffræðingur/næringarfræðingur sem getur upplýst hann um allt sem viðkemur hollustu. Barnabörnin eru 6, en þar eru drengir í meirihluta, eða fjórir á móti tveimur stúlkum.

Vildu komast yfir „fé án hirðis“

Seinna bauðst Gísla starf hjá Sambandi íslenskra sparisjóða sem voru þá að stofna fræðslumiðstöð. Hann varð fræðslu- og markaðsstjóri þar á meðan sparisjóðirnir störfuðu. Hann upplifði andann í fjármálakerfinu fyrir og eftir hrun. „Fyrir hrunið voru menn farnir að krunka í sparisjóðina og vildu komast yfir „fé án hirðis“ eins og það var orðað í þá daga“, segir hann.  Sparisjóðirnir nutu gríðarlegra vinsælda og unnu ánægjuvogina 12 sinnum.  Gísli segir að lykillinn að því hafi verið að hlusta á fólkið sem sparisjóðirnir voru að þjóna. En sparisjóðirnir fóru illa og hann segist hafa verið með þeim síðustu frá borði. Störf í fleiri fjármálafyrirtækjum tóku við, en svo var hann ráðinn til Félags eldri borgara í Reykjavík síðla árs 2014.

Sneri fjárhagnum við

Fjárhagsleg staða félagsins var ekki góð þegar Gísli byrjaði að vinna þar og miklar skuldir hvíldu á húsinu sem það á í Stangarhyl 4 í Árbæjarhverfinu. Á síðasta ári varð hins vegar alger viðsnúningur í rekstri félagsins sem skilaði hagnaði uppá tæpar 16 milljónir króna. Árið áður var tapið 600.000 krónur.  Gísli segir að þetta hafi gengið með því að lækka allan kostnað og fjölga félögum, en félagsmenn í FEB eru nú 10.000.  Þá var einnig gert átak til að efla félagsstarfið.  Gísli segir að þetta hafi gengið vel. Félagið sé að breytast og sé nú mun sýnilegra en það var áður. Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður hafi komið inn af miklu afli og stjórnin sé sterk.

Baráttan tryggði 9,6% hækkunina

Það er mikið að gera hjá FEB við að svara margvíslegum erindum félagsmanna

Það er mikið að gera hjá FEB við að svara margvíslegum erindum félagsmanna

Gísli segir að menn hafi alls kyns ávinning af að vera í félaginu. Þeir fái Afsláttarbók sem spari verulega fjármuni notfæri menn sér afslættina og þeir sem eru ekki lengur í stéttarfélögum leggi saman kraftana í félaginu til að renna styrkari stoðum undir lífið á efri árum.  „Menn ganga í félagið ef þeir vilja og eru þar með orðnir þátttakendur í félagsskap sem býður uppá ýmislegt og er viðurkenndur málssvari þessa hóps gagnvart Reykjavíkurborg og á seinni árum einnig gagnvart ríkinu“ segir Gísli og þegar hann er spurður um árangurinn segir hann „Ég skal bara fullyrða að eftirlaunafólk hjá TR hefði ekki fengið 9,6 prósenta launahækkun um síðustu áramót  ef ekki hefði komið til barátta eldri borgara“ .

4% eldri borgara eru fátækir

Það er fjölbreyttur hópur sem er í félaginu í Reykjavík og aldursdreifingin spannar 30 ár, eða allt frá sextugu uppí rúmlega nírætt. „Í vikunni fóru 40 manns með félaginu í Landmannalaugar með Jóni R. Hjálmarssyni fararstjóra sem er  94ra ára“, segir Gísli og segir það endurspegla þá skoðun félagsins að það beri að nýta þekkingu og reynslu eldri borgara. Fjölbreytnin gerir það að verkum að það er vandasamt að sinna öllum hópum sem eru í félaginu.  Það eru til að mynda 4% eldri borgara í landinu sem flokkast sem fátækir í mælingum hjá OECD og sumum finnst að það sé of mikið fókuserað á þann hóp.

Íhugar borgaralaun

„Það má alveg gagnrýna þetta, en á meðan 4% eldra fólks býr við fátækt stöndum við vaktina. 4% fátækt er 4% of mikið“, segir hann. „Við verðum samt að gera okkur grein fyrir að sumt eldra fólk hefur það gott og við bjóðum uppá glæsilegar utanlandsferðir tvisvar á ári, sem standa öllum til boða. Við leggjum metnað okkar í að halda verðinu niðri og næsta vor verður farið bæði til Washington og Pétursborgar“.  Gísli er hugsi yfir kerfi Almannatrygginga, vegna þess ótta sem menn búa við sem fá ellilífeyri frá Tryggingastofnun. Fólk megi ekkert eignast og þurfi að gera tekjuáætlanir fyrir hvert ár fyrirfram. „Ætli við sem erum venjulegir launamenn gætum skilað slíkum áætlunum fyrirfram?“ spyr hann og segist hafa íhugað hvort borgaralaun yrðu einfaldari. „Það fer alltof mikill tími í það að reikna út og fylgjast með einstaklingunum, eins og þetta er núna“.

Hópur frá FEB sem fór Syðri fjallabaksleið kom við í sumarbústaðnum hjá Gísla

Hópur frá FEB sem fór Syðri fjallabaksleið kom við í sumarbústaðnum hjá Gísla

Nær 6000 manns hafa lækað Gráa herinn

Grái herinn sem var settur á laggirnar í mars, er baráttuhópur innan Félags eldri borgara í Reykjavík. Hann fékk gríðarlega miklar undirtektir og næstum 6000 manns hafa lækað Facebook síðu hans.  Á stofnfundi hans var fullt út úr dyrum. „Grái herinn er nokkurs konar unglingadeild í félaginu og baráttuhópur sem getur beint kastljósinu að ákveðnu máli sem er brýnt þá stundina. Núna eru það kjaramálin en Grái herinn getur líka einbeitt sér að einhverju öðru ef staðan breytist og önnur mál verða brýn“, segir Gísli.

Eftirlaunin lægri en búist var við

Hann segir að félagið verði áþreifanlega vart við það, að þegar fólk nálgist eftirlaunin, sjái það að kjörin séu ekki þau sem það var búið að gera sér væntingar um. Fyrir því séu ýmsar ástæður. „Kannski fóru menn að huga að þessu of seint og kannski greiddu þeir ekki í lífeyrissjóð af öllum tekjunum sínum. Lögin voru til dæmis lengi þannig að menn greiddu ekki í lífeyrissjóð af yfirvinnu. Kannski skuldar fólk of mikið þegar það fer á eftirlaun. Kannski fór það illa í hruninu, missti sparnaðinn sem það átti í hlutabréfum, eða varð að taka yfir lán barnanna sinna. Það er þögull hópur sem missti spariféð sitt. Kjaramálin snúast ekki eingöngu um þau fjögur prósent sem hafa það verst“.

Grái herinn með útifund

Gísli segir að næstu tvo mánuði fram að kosningum, verði félagið og Grái herinn mjög sýnileg.  Ætlunin sé að fylgja kjaramálunum eftir, en 300.000 króna lágmarkslaun í áföngum og tekjuskerðingarnar burt, séu helsta krafa félagsins.  „Félagið og Grái herinn hafa boðið formönnum allra stjórnmálaflokkanna á borgarafund í Háskólabíói 28. september klukkan 19:30 og til að heyra hvaða úrlausnir flokkarnir hafa fyrir þennan hóp. Þá er einnig ætlunin að halda útifund á Austurvelli  fimmtudaginn 8. september klukkan 17:00 en það verður hvatningar og baráttufundur. Við hvetjum alla til að mæta og gleymum því ekki að eldri borgarar hafa rúmlega 40.000 atkvæði“, segir Gísli að lokum.

Ritstjórn september 2, 2016 12:53