Til hamingju með kosningaréttinn!

Í dag eru 100 ár liðin frá því íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.  Þótt hann væri takmarkaður við konur fertugar og eldri fögnuðu konur þessum mikilvæga áfanga í réttindabaráttunni.  Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim hundrað árum sem liðin eru frá þessum merka viðburði.  Konur hafa haslað sér völl á flestum sviðum þjóðfélagsins til jafns við karla.  Þær eru þingmenn og ráðherrar og konur eru jafnvel forstjórar stórfyrirtækja.

Konurnar geisast fram

Vigdís Finnbogadóttir varð Forseti Íslands árið 1980 og nokkrum árum síðar varð Guðrún Helgadóttir forseti Sameinaðs þings fyrst kvenna.  Kristín Ingólfsdóttir varð rektor Háskóla Íslands fyrst kvenna árið 2005 og Agnes Sigurðardóttir var fyrsta konan sem tók við embætti biskups.  Jóhanna Sigurðardóttir varð fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra á Íslandi, 94 árum eftir að konur fengu kosningarétt til Alþingis hér á landi.

Áfram verk að vinna

Þótt konur hafi þannig náð frama á ýmsum sviðum, er launajafnrétti ekki náð og mikil hreyfing er nú ekki síst meðal yngri kvenna, gegn kynferðislegu ofbeldi. Þannig að það er áfram verk að vinna í kvenréttindabaráttunni og raunar hefur hún staðið mun lengur en í 100 ár.  Það vakti heimsathygli þegar íslenskar konur lögðu niður störf á kvennafrídaginn árið 1975.

Jafnréttissjóður stofnaður

Allir fjölmiðlar landsins fjalla um afmæli kosningaréttarins í dag  og mikil hátíðarhöld eru fyrirhuguð.  Á dagskrá Alþingis í dag er eitt mál á dagskrá, tillaga til þingsályktunar um Jafnréttissjóð Íslands. Þá verður opnuð sýning í Skála þinghússins um þingkonur og baráttu kvenna fyrir kosningarétti.  Stytta af Ingibjörgu H. Bjarnadóttur, fyrstu þingkonu Íslendinga verður afhjúpuð fyrir utan Skála Alþingis, en verkið, sem gefið er af flestum fjármálastofnunum landsins, er gerð af Ragnhildi Stefánsdóttur myndhöggvara.

Lifðu núna óskar öllum konum til hamingju með daginn!

 

Ritstjórn júní 19, 2015 12:38