Hvort viljum við öfgahópa eða verkalýðshreyfingu?

Inga Dóra Björnsdóttir

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur tekið mikinn fjörkipp að undanförnu.  Gamlir forystumenn hafa vikið úr sætum og yngri forystumenn og-konur hafa tekið völdin og gera nú háværar kröfur um betri launakjör og bætta stöðu á húsnæðismarkaðnum. Meðallaun lágtekjufólks á Íslandi eru um 300 þúsund á mánuði fyrir skatt, og eins og oft hefur komið fram, þá er nær engin leið að ná endum saman á þeim launum. Þau standa hvorki undir húsaleigu né matarkaupum mánuðinn út. Verkalýðshreyfingin krefst þess nú að grunnlaun verði hækkuð í rúmlega 400 þúsund krónur á mánuði og þeir krefjast þess líka að þeir sem eru með tekjur upp að 300 þúsundum á mánuði, eins og margir ellilífeyrisþegar og örykjar, verði undanþegnir sköttum.

Viðbrögð ráðamanna og forystumanna atvinnulífsins við kröfum verkalýðshreyfingarinnar  hafa verið í senn snögg og hörð: Ef gengið yrði að þessum kröfum, segja þeir, þá færi hin fræga íslenska þjóðarskúta á hliðina.  Verðbólgan muni æða áfram og allar kauphækkanir fuðra upp í verðbólgubálinu.  Einhvern tíma hefðu þessi varnarorð hrifið, en nú er í þeim holur hljómur.  Háttsettir opinberir starfsmenn, þingmenn þar með taldir, og forstjórar í einkageiranum hafa þegið launahækkanir upp á milljónir króna án  þess að blikna né blána. Nú er svo komið að bilið milli hinna hæstlaunuðustu og lægst launuðu er einna mest á Íslandi af öllum Norðurlöndunum og líkist æ meira launamuninum sem er milli ríkra og fátækra í Bandaríkjunum.

Eins og við vitum þá er efnahagsleg staða margra bandaríkjamanna af evrópskum ættum mjög slæm og bullandi reiði ríkir meðal þessa hóps, sem finnst hann hafa verið hlunnfarinn og svikinn og muni aldrei getað látið ameríska drauminn rætast. Reiði þessi brýst út á margan hátt.  Hún átti til dæmis mikinn þátt í kosningasigri lýðskrumarans Tumps, hún lýsir sér líka í uppsveiflu ný-nazista, í ofbeldi í garð minnihlutahópa, blökkumanna, gyðinga, múslima, kvenna og innflytjenda frá Latnesku Ameríku. Það eru margar og flóknar skýringar á því af hverju reiði þessa fólks beinist gegn þeim sem bera í raun enga ábyrgð á lélegri efnahagstöðu þeirra, hún er í raun fyrirtækjum og ráðamönnum landsins fyrst og fremst um að kenna. Ein mikilvæg ástæða er líka sú, að bandaríska verkalýðshreyfingin hefur, að undirlagi stjórnvalda, stórfyrirtækja og hæstaréttar Bandaríkjanna, verið veikt til muna.  Stór hluti vinnandi manna og kvenna hafa verið svipt réttindum og þeim heilbrigða baráttufarvegi, sem verkalýðsfélög veita. Og þar skilja Bandaríkin sig frá Íslandi.  Á Íslandi hefur verkalýðshreyfing ekki misst mátt sinn og megin og þar hafa ekki risið upp öfgafullir hópar, sem beina spjótum sínum að erlendum verkamönnum og -konum á íslenskum vinnumarkaði og kenna þeim um allt sem miður hefur farið. Nei í stað þess hafa íslensk verkalýðsfélög fengið erlent vinnuafl til liðs við sig og saman beina þau spjótum sínum að þeim, sem bera mesta ábyrgð á hinni veiku efnahagsstöðu þeirra, atvinnurekendum og íslenskum ráðamönnum. Þessu ber að fagna.

Það hafa verið gerðar tilraunir til að skrímslavæða verklýðshreyfinguna og forystumenn hennar, vonandi ná þær ekki að hafa víðtæk áhrif.  Þess í stað er vonandi að annað viðhorf festist í sessi, en það er að verkalýðsfélög eru ekkert annað en mannréttindasamtök, sem berjast fyrir bættri stöðu og réttindum þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Þessari baráttu ættu allir að gleðjast yfir, því hún mun ekki aðeins bæta kjör hinna verst settu, hún mun líka auka velmengun og vellíðan samfélagsins í heild.

 

Inga Dóra Björnsdóttir nóvember 26, 2018 07:18