Dauðvona manni veitt hægt andlát

Lengi hafa verið mjög skiptar skoðanir um dánaraðstoð (euthanasia) en dánaraðstoð merkir að veita dauðvona manni hægt andlát, einkum til að binda enda á langt dauðastríð eða koma í veg fyrir kvalafullan dauðdaga.

Afstaða heilbrigðisstarfsfólks hefur verið misjöfn eftir löndum en bent hefur verið á að jákvæðari afstaða til dánaraðstoðar hafi verið meiri í þeim löndum þar sem líknandi meðferð kom seint til eins og í Hollandi, en dánaraðstoð var lögleidd þar árið 2001. Nú virðist sem afstaða heilbrigðisstarfsfólks og almennings sé almennt jákvæðari í garð dánaraðstoðar en áður en hjúkrunarfræðingar almennt hliðhollari dánaraðstoð en læknar. Hér á landi kemur þó löggjöf í veg fyrir að hægt sé að veita sjúklingi dánaraðstoð og óneitanlega eru siðferðileg álitamál sem tengjast dánaraðstoð.

Sprauta notuð við dánaraðstoð

Breyting á viðhorfi til dánaraðstoðar

Af niðurstöðum kannana sem gerðar hafa verið meðal heilbrigðisstarfsfólks um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar má sjá að hún hefur orðið jákvæðari síðustu árin. Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð, vill að fram fari opin, uppbyggileg og víðtæk umræða um dánaraðstoð. Á heimasíðu samtakanna segir: Markmið Lífsvirðingar er að stuðla að fræðslu um rétt fólks til að deyja á eigin forsendum. Þá vilja samtökin vinna að því að samþykkt verði löggjöf um það að við vissar, vel skilgreindar aðstæður, og að uppfylltum ströngum skilyrðum, verði dánaraðstoð mannúðlegur valkostur fyrir þá sem kjósa að deyja á eigin forsendum. Félagið telur að dánaraðstoð með skýrum skilyrðum teljist til mannréttinda.

Sé litið til annarra Norðurlanda má einnig greina af rannsóknum þar og fréttaflutningi að afstaða heilbrigðisstarfsfólks, lækna og hjúkrunarfræðinga, hafi færst æ meira í átt til jákvæðara viðhorfs til dánaraðstoðar á síðustu 10 árum. Þannig voru 30% norskra lækna hlynntir dánaraðstoð árið 2019 en aðeins 15% árið 2009. Stuðningurinn hafði því aukist um helming á áratug. Í Finnlandi voru 46% lækna hlynntir dánaraðstoð en stuðningur við slíka aðstoð var 29% meðal þeirra árið 2002. Árið 2013 voru 33% sænskra lækna hlynntir dánaraðstoð. Í Noregi voru 40% hjúkrunarfræðinga hlynntir dánaraðstoð árið 2019 en 25% 10 árum áður. Þessar niðurstöður benda til þess að stuðningur heilbrigðisstarfsfólks við dánaraðstoð hafi aukist með árunum. Í skoðanakönnun sem Bresku læknasamtökin (BMA) létu framkvæma 2020 kemur fram að meirihluti breskra lækna vill að samtökin láti af andstöðu sinni við dánaraðstoð.

Hvað með Ísland?

Nokkrar athuganir hafa verið gerðar á dánaraðstoð hér á landi. Elsa Valsdóttir, Pálmi V. Jónsson, Vilhjálmur Árnason og Hildur Helgadóttir gerðu rannsókn árið 1995 um afstöðu lækna og hjúkrunarfræðinga á Borgarspítalanum og Landspítala til líknardráps. Svörin voru flokkuð eftir hjúkrunarfræðingum og læknum og starfsstað. Alls tóku 235 þátt, 44 læknar frá Borgarspítala og 66 frá Landspítala, 61 hjúkrunarfræðingur frá Borgarspítala og 63 frá Landspítala.  Alls svöruðu 55% þátttakenda og sýndu niðurstöður að: almennt viðhorf væri að ósk sjúklings um takmörkun meðferðar við lífslok skyldu óskir hans virtar. Niðurstöðurnar sýndu að 5% lækna fannst að líknardráp gæti verið réttlætanlegt undir einhverjum kringumstæðum en 11 hjúkrunarfræðinga (9%), 4 eða (2%) einstaklinga gátu hugsað sér að verða við slíkri bón. Meirihluti 201/320 (87%) voru fylgjandi því að til séu skráðar leiðbeiningar innan sjúkrahúsa um takmörkun meðferðar við lífslok.

Könnun var birt í Læknablaðinu árið 1997 um afstöðu lækna og hjúkrunarfræðinga til siðfræðilegra álitamála varðandi takmörkun meðferðar við lífslok. Í umræddri viðhorfskönnun var ein af spurningunum um dánaraðstoð, eða líknardráp eins og það var þá kallað. Aðeins 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga töldu líknardráp (dánaraðstoð) réttlætanlegt undir einhverjum kringumstæðum og einungis 2% svarenda gátu hugsað sér að verða við slíkri ósk.

Hins vegar kom fram árið 2010 í sambærilegri könnun sem var gerð á meðal lækna og hjúkrunarfræðinga að líknardráp (dánaraðstoð) þótti réttlætanlegt hjá 18% lækna og 20% hjúkrunarfræðinga en aðeins 3% vildu verða við slíkri ósk.
Síðan þessi könnun var gerð á viðhorfi heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar hér á landi hefur umræða um dánaraðstoð átt sér stað opinberlega. Samtökin Lífsvirðing voru stofnuð árið 2017 og hafa opnað umræðuna með fræðsluefni um dánaraðstoð á samfélagsmiðlum, birt reynslusögur almennings og haldið fræðslufundi um dánaraðstoð.

Í nýlegri könnun sem gerð var á vegum heilbrigðisráðherra og birt í júní 2023 kom fram að 56% lækna, 86% hjúkrunarfræðinga og 81% sjúkraliða eru alfarið, mjög eða frekar hlynnt því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi. Það er allveruleg aukning frá því sem var.

Markmið líknarmeðferðar er hvorki að lengja líf né flýta dauða

Í svari við spurningu fyrir allnokkrum árum um hvort ófullnægjandi líknandi meðferð og lífslokameðferð ýtti undir kröfu um dánaraðstoð sagði Valgerður Sigurðardóttir, þáverandi yfirlæknir líknarlækninga, að líknarmeðferð (e. palliative care) væri meðferð sem miðaði að því að bæta lífsgæði sjúklinga sem væru með lífshættulega sjúkdóma (life-threatening) og fjölskyldna þeirra og fælist meðferðin í að fyrirbyggja og draga úr líkamlegri, sálfélagslegri og andlegri þjáningu. „Líknarmeðferð á við snemma á veikindatímabilinu samhliða læknandi meðferð. Hún miðar að varðveislu lífsins en jafnframt er litið á dauðann sem eðlileg þáttaskil. Markmið líknarmeðferðar er hvorki að lengja líf né flýta dauða.

Í líknarmeðferð er ekki litið á sjúkdóminn sem afmarkaða truflun á starfsemi líkamans, heldur horft til þeirrar þjáningar sem sjúkdómurinn veldur og áhrifum hennar á fjölskyldu sjúklings. Fjölskyldan tilheyrir þannig meðferðareiningunni ásamt sjúklingi og er hvött til þess að taka virkan þátt í umönnun hans. Lokastig líknarmeðferðar er meðferð við lífslok.

Lífslokameðferð (LLM) er hins vegar að mörgu leyti frábrugðin líknarmeðferð hvað varðar ástand og einkenni sjúklings og meðferðarúrræði,“ sagði Valgerður. Hún sagði jafnframt að líknarmeðferð væri ung fræðigrein innan læknisfræðinnar en samt vel þróuð á ákveðnum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Hún næði hins vegar ekki til allra þeirra sem hefðu gagn af þjónustunni. „Þekking bæði meðal leikra og lærðra er enn mjög ábótavant og margvíslegar ranghugmyndir á lofti. Miklar framfarir hafa átt sér stað í læknisfræði, sérstaklega á seinni hluta síðustu aldar. Með auknum möguleikum á lífslengjandi meðferð lifa fleiri og fleiri einstaklingar lengur með langt genginn sjúkdóm og því fylgir oftast meira líkamlegt og andlegt álag eða þjáning og jafnframt meira álag á aðstandendur. Áherslan á lækningu er mikil og umræðan um meðferðarmarkmið eru ekki tekin, eða rædd mjög seint. Þannig að á okkar tímum eru 2/3 allra andláta vegna langvinnra sjúkdóma, t.d. hjarta- og æðasjúkdóma, lungnasjúkdóma og krabbameina, en ekki bráðasjúkdóma eins og áður var. Hugsanlega gæti þessi breyting verið áhrifaþáttur í aukinni umræðu um dánaraðstoð. Mér vitanlega hefur ekki verið skoðað skipulega af hverju líknarþjónusta nær ekki að sinna nægilega vel þörfum þessara einstaklinga. Það er eitthvað sem þyrfti að skoða betur og ég tel að opnar og öfgalausar umræður gætu varpað ljósi á þessa þætti.“

Hvort þau lönd eða ríki, eins og Holland, Belgía, Lúxemborg, Sviss o.fl. ættu einhverja sameiginlega þætti sem gætu skýrt þessa leið sem sjúklingar geta óskað eftir sagði Valgerður að hollenskt samfélag hafi alltaf verið álitið mjög veraldlegt samfélag. „Það sem er merkilegt með bæði Holland, sem leyfði dánaraðstoð 2001 og Belgíu, ári síðar, er að þessi lönd höfðu lögleitt dánaraðstoð löngu áður en líknarmeðferð tók að þróast þar. Einnig er sérstakt við Holland að hvergi í Evrópu deyja fleiri heima og einnig eru heimafæðingar þar mjög algengar.

Í Sviss er sjálfsvíg með aðstoð læknis (PAS = physician assisted suicide) löglegt og það sama gildir í nokkrum ríkjum BNA. En eins og ég benti á fyrr þá var þróun líknarmeðferðar mjög sein í Hollandi, Belgíu og einnig Lúxemborg sem margir telja eina af skýringunum.“

Aukin einstaklingshyggja leiðir kröfu um dánaraðstoð

Frelsisregla Johns Stuarts Mill byggir á að einstaklingur hafi leyfi til að ráða sínu lífi, lifa því eða ekki, svo framarlega sem það hefur ekki áhrif á aðra. Valgerður sagði að

tíðarandinn og vaxandi einstaklingshyggja í samfélaginu væri líklega aðalástæða þess að svo hátt hlutfall Íslendinga vilji leyfa dánaraðstoð, að það séu mannréttindi að ráða yfir eigin lífi og eigin dauða. Þetta einskorðaðist ekki við Ísland, heldur ríki í öllum hinum vestræna heimi.

„Í Bandaríkjunum eru töluverðar öfgar varðandi þetta málefni, fréttir berast af málum fyrir dómstólum vegna einstaklinga sem legið hafa heiladauðir í lengri tíma og fá ekki að deyja og svo um lögleiðingu dánaraðstoðar með aðstoð læknis. Í Bandaríkjunum er mikil áhersla á lækninguna og oft erfitt að taka upp umræðu um takmörkun á meðferð þar sem það eru sjúklingurinn og fjölskyldan sem taka ákvarðanirnar, ekki læknirinn eins í Evrópu. Þessi fyrrnefndu lönd eiga það öll sameiginlegt að líknandi meðferð hófst seint sem kann e.t.v. að vera ein ástæða þess að líknardráp eru leyfð. Margoft hefur komið fram að fjárhagur fjölskyldunnar hefur áhrif á ákvarðanatökuna í Bandaríkjunum,“ segir Valgerður. „Þá má einnig spyrja á hvaða þáttum slíkar ákvarðanir myndu byggja í fátækum ríkjum, t.d. Afríku?“

Salvör Nordal heimspekingur hefur bent á að framfarir í læknisfræðinni og snögg viðbrögð við áföllum eða slysum hafi fjölgað bæði þeim sem lifa af og einnig þeim sem lifa við mjög skert lífsgæði. Þá hafi verið vaxandi áhersla á sjálfræði einstaklingsins og við haft á mörgum sviðum mun meiri möguleika á að stjórna lífi okkar en áður, s.s. eins og barneignum. Það sé því skiljanlegt að fólk velti fyrir sér hvernig það geti haft áhrif á dánarstundina. Hún hefur tekið undir það sjónarmið bæði lækna og presta að ekki ekki hægt að gera slíka kröfu á nokkurn að hann taki líf annarrar manneskju. Almennt hafi læknar verið andvígir því að dánaraðstoð sé leyfð og líta ekki svo á það sé hluti af þeirra skyldu að binda enda á líf með beinum hætti. Ég held að það stríði klárlega gegn siðareglum lækna og heilbrigðisstarfsfólks að aðstoða einhvern við að stytta líf sitt. Það að leggja á lækni að vera reiðubúinn að deyða þjáða manneskju gæti veikt traust almennings á stéttinni og gefið þau skilaboð að viðbrögð við þjáningunni sé að taka viðkomandi af lífi í stað þess að veita stuðning, líkamlegan, andlegan og sálarlegan.“

Ef leyfa eigi dánaraðstoð verði að gera það í mjög góðu samráði við lækna og það getur ekki verið hluti af verknaðarskyldu þeirra. Þá sé það reynsla annarra þjóða þar sem dánaraðstoð er leyft að það er flókið að heimila dánaraðstoð og hafa verði strangt eftirlit með framkvæmd þess. ,,Framfarir í læknisfræðinni og snögg viðbrögð við áföllum eða slysum fjölga bæði þeim sem lifa af og einnig þeim sem lifa við mjög skert lífsgæði. Þá hefur verið vaxandi áhersla á sjálfræði einstaklingsins og við höfum á mörgum sviðum mun meiri möguleika á að stjórna lífi okkar en áður s.s. eins og barneignum. Það er því skiljanlegt að fólk velti fyrir sér hvernig það getur haft áhrif á dánarstundina.”

Í dánaraðstoð er líf tekið með inndælingu lyfs. Í líknarmeðferð er sjúklingur meðhöndlaður með verkjalyfjum. Í báðum tilfellum er þó meðferð sjúklings hætt.

Eins og íslensk lög eru í dag er dánaraðstoð hvorki lagalegur möguleiki fyrir sjúklinginn né heilbrigðisstarfsmann. Heimssamtök dánaraðstoðar (World Federation of Right to Die Societies), sem Lífsvirðing er aðili að, hafa lagt ríka áherslu á sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga  og að þeir einir geti verið dómbærir á eigin þjáningar. Þeir eigi því rétt á að fá dánaraðstoð að uppfylltum ströngum skilyrðum.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn febrúar 26, 2024 07:00