Björgvin Guðmundsson lést á heimili sínu í gær. Hann var 86 ára. Björgvin, sem var viðskiptafræðingur að mennt starfaði lengi sem blaðamaður en tók einnig þátt í stjórnmálum. Hann var borgarfulltrúi og borgarráðsmaður fyrir Alþýðuflokkinn í tólf ár. Lifðu núna hefur iðulega fjallað um greinar sem Björgvin hefur birt um kjör eldri borgara og tók við hann langt viðtal árið 2016. Þar sagði meðal annars.
Björgvin Guðmundsson hefur á síðustu árum verið einn ötulasti baráttumaðurinn fyrir bættum kjörum eldri borgara og öryrkja. Hann heldur úti bloggi og hefur skrifað fjölda blaðagreina um þetta efni. Nýlega sendi hann svo frá sér bókina Bætum lífi við árin sem hefur að geyma úrval greina hans. „Ég myndi segja að undirrótin að þessari baráttu minni sé að ég er verkamannssonur og ólst upp við fátækt“, segir Björgvin í samtali við Lifðu núna. „Ég fékk strax í barnæsku áhuga á að vinna að bættum kjörum verkafólks og þeirra sem minna mega sín. Þess vegna varð ég jafnaðarmaður og gekk í Félag ungra jafnaðarmanna þegar ég var 17 ára“.
Hann var óþreytandi í baráttu sinni fyrir eldri borgara og á Facebook síðu Gráa hersins sagði í dag.“Blessuð sé minning þessa mikla baráttumanns okkar. Hlýjar kveðjur til allra aðstandenda. Nú er það okkar að sýna við við getum haldið kyndlinum á lofti“. Björgvin komst þannig að orði um kjör eldra fólks í viðtalinu við Lifðu núna.
Það á ekki að vera þannig með kjör aldraðra að þeim sé haldið við fátækramörk og að þeir rétt skrimti“ segir Björgvin. „Fólk á að fá að lifa með reisn, það á ekki að vera afgangsstærð þannig að menn sjái til í lokin, hvort þeir eigi eitthvað að fá. Af hverju eru aldraðir einhver afgangsstærð? Ég vil breyta þessu“. Hann segir að vissulega sé staðan misjöfn hjá eldra fólki. „Eins og ég hef alltaf sagt. Við erum að berjast fyrir þá sem búa við slæm kjör. Við erum ekki að berjast fyrir þá sem hafa það ágætt, sem er útbreiddur misskilningur hjá ýmsum. Það er stundum að heyra eins og eldra fólk borgi ekki skatta og sé byrði á þjóðfélaginu. En eldri borgarar hafa borgað skatta alla sína starfsævi og svo borga þeir skatt af öllu sem þeir fá. Það er ekki eins og þeir fái allt í vasann sem tekin er ákvörðun um að greiða þeim“.
Lifðu núna vottar aðstandendum Björgvins innilega samúð við fráfall hans. Blessuð sé minning hans.