Bjarga sjálfboðaliðar helgarmatnum?

„Ákvörðun velferðarráðs um að hætta um áramót með mat um helgar í matsal Borga í Grafarvogi, stendur óhögguð“, segir Ilmur Kristjánsdóttir formaður ráðsins, enda hafi hún verið samþykkt samhljóða í velferðarráði, einkum á þeim forsendum að þetta væri þjónusta sem væri ekki í boði annars staðar í borginni. „En málið þarf ekki að stranda þar“, segir Ilmur „heldur ætlum við að leita lausna sem auka lífsgæði fólks, rjúfa félagslega einangrun og eru hagkvæmar. Þess vegna viljum við fá til liðs við okkur nýstofnað öldungaráð og jafnvel félag eldri borgara“.

Lifðu núna sagði frá fundinum sem haldinn var í nóvember, þegar fólki var kynnt þessi ákvörðun velferðarráðs. Gert er ráð fyrir að sex milljónir króna sparist, við það að hætta með helgarmatinn í matsalnum og senda fólki þess í stað matinn heim. Sjá greinina hér.

Sjá ekki hvað sparast

Ásta Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur og íbúi í Eirborgum, segir málið í biðstöðu. Hún segir að heimsending matar leysi ekki vandann og spari heldur enga peninga, eða þau sjái ekki hvað sparist. Sérstaklega ekki þar sem þessu þurfi að fylgja fólk sem kemur til að aðstoða íbúa við að útbúa heimsenda matinn heima hjá sér, eins og boðið sé uppá. Hún segir að maturinn verði hækkaður um áramót og íbúarnir hafi rætt það í sinn hóp, hvort ekki megi hafa verðið eitthvað hærra um helgar, ef það gæti orðið til að leysa málið.

Sameiginlegur fundur í febrúar

Velferðarráð fjallaði um málið á fundi fyrir jólin og hefur óskað eftir ítarlegu yfirliti yfir allt tómstundaframboð borgarinnar, starfsmannahald og kostnað við hverja starfseiningu. Í bókun sem gerð var á fundi ráðsins kemur fram að auk þess er óskað eftir heildaryfirliti yfir þá matarþjónustu sem borgin heldur úti. Í bókuninni segir orðrétt.

Einnig óskar ráðið eftir að sviðið skoði möguleika á notkun sjálfboðaliða í matarþjónustunni. Velferðarráð mun taka upp málið að nýju þegar umbeðin gögn liggja fyrir. Það er ósk ráðsins að ræða bæði opið félagsstarf og matarþjónustu á sameiginlegum fundi velferðarráðs og öldungarráðs sem haldin verður í febrúar nk.

Ritstjórn desember 29, 2015 10:58