Það hættir enginn í þessu starfi vegna aldurs

Ásdís Egilsdóttir prófessor í íslenskum miðaldabókmenntum verður með Íslendingasagnanámskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands sem hefst síðari hluta september mánaðar. Ásdís var prófessor við Háskóla Íslands þar til henni var gert að hætta kennslu  vegna aldurs árið 2016.  „Eigum við ekki að orða það þannig að ég sé formlega hætt störfum, en það hættir enginn í þessu starfi. Ég er enn að skrifa greinar og flytja fyrirlestra“, segir hún glaðlega.

Ásdís vill brydda uppá nýjungum á Íslendingasagnanámskeiðinu hjá Endurmenntun

Koma aftur og aftur á námskeiðin

Þetta er í fyrsta sinn sem Ásdís kennir á Íslendingasagnanámskeiði í Endurmenntun, en hún hefur  fyrir  kennt leiðsögumannaefnum miðaldabókmenntir. Endurmenntun menntar leiðsögumenn eins og raunar fleiri skólar. „Það flykkjast allir á þessi námskeið“, segir hún um Íslendingasagnanámskeiðin „ og koma aftur og aftur. Þess vegna fór ég að hugsa, Gunnar, Njáll, Hallgerður og Bergþóra hafa verið svo vinsæl, og mig langaði til að koma með eitthvað annað. Ég valdi þrjár sögur, Kjalnesingasögu, Bárðarsögu Snæfellsáss og Flóamannasögu. Sögupersónurnar koma frá þessum svæðum, en þær ferðast líka til fjarlægra staða þar sem ævintýrin gerast og þær þurfa að ganga í gegnum prófraunir. Í tveimur sögum liggur leið þeirra til Grænlands og mér finnst fyndið að þegar ég valdi þessar sögur, þá grunaði mig ekki að Grænland yrði svona „heitt“.

Karlar þurfa að finna sína sjálfsmynd

Ásdís segir að við horfum oft á 13 öldina, Sturlungaöldina, sem þá áhugaverðustu í Íslendingasögunum, en þá voru stóru sögurnar skrifaðar. En hún segir að 14.öldin sé ekki síður áhugaverð. „Þá var bókmenning orðin öflug á Íslandi og þetta val mitt á sögum fyrir námskeiðið endurspeglar mitt áhuga – og fræðasvið. Mér finnst gaman að fara á jaðarinn og vinna með það sem er ekki alltaf í brennidepli.  Ég hef mikið rannsakað heilagramannasögur og hvernig þær móta innlenda sagnaritun. Við sjáum hvernig höfundar nota Biblíuna og trúaarleg rit. Svo er annað, við munum mörg tímann í kringum 1970, þegar kvennabaráttan var að byrja. Þá fór að vakna áhugi fyrir konum í bókmenntum. Síðast liðin 20 ár hefur athyglin beinst meira að karlmennskunni og ég var fyrst til að halda karlmennskunámskeið hér í Háskólanum. Karlar þurfa líka að finna sína sjálfsmynd. Það hefur mikið verið talað um mótun kvenna eftir fyrirfram gerðum kröfum. En í fjölda sagna sjáum við frásagnir af drengjum sem eiga erfitt með að mæta þeim kröfum sem samfélagið gerir til drengja og ungra karlmanna“.

Gott að fara inná nýjar brautir

Ásdís hlakkar til að kenna í Endurmenntun. „Það er svo fjölbreyttur og skemmtilegur hópur sem kemur á þessi námskeið, með þekkingu á svo mörgum sviðum. Ég er spennt að heyra hvað þau hafa að segja um efnið. Og það er gott fyrir okkur sem erum komin á þennan aldur að fara inná nýjar brautir. Ég vona að þessar sögur geti náð til fólks. Íslendingasögurnar eru fleira en það sem okkur dettur fyrst í hug þegar við heyrum hugtakið“.

Með tvær bækur í smíðum

Það er stutt í brosið hjá Ásdísi, hún er svo sannarlega önnum kafin og sér fyrir sér að halda áfram að vinna. „Á meðan fólk vill ennþá fá mig á ráðstefnur og fyrirlestra, eða sem andmælanda við doktorsvarnir, þá tek ég þátt í því. Ég er líka með tvær bækur í smíðum. Aðra um karlmennsku í íslenskum miðaldasögum, en hin er um íslenska dýrlinga sem eru þrír. Þorlákur helgi, Jón helgi og svo Guðmundur góði“.

 

 

 

Ritstjórn september 10, 2019 08:09