Biðlistinn eftir augasteinsaðgerðum lengist stöðugt

Kristján Þór júlíusson

Kristján Þór júlíusson

Heilbrigðisráðuneytið telur að nærri 2.400 manns hafi verið á biðlista eftir augasteinsaðgerð í febrúar síðast liðnum. Heilbrigðisráðherra segir að fjöldi augasteinsaðgerða ráðist af fjárheimildum fjárlaga ár hvert. Að óbreyttum fjárlögum þessa árs fjölgi aðgerðum ekki  í ár.  Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svarsdóttur (VG) um augasteinsaðgerðir. Nú bíður fólk hátt í tvö ár eða í 88 vikur eftir að komast í augasteinsaðgerð á Landspítala.  Biðtíminn hefur lengst verulega undanfarin ár og gæti verið kominn í tvö ár í lok þessa árs.

Enginn veit hversu margir kaupa sig fram hjá biðröðinni

Svandís Svavarsdóttir

Svandís Svavarsdóttir

Í svarinu kemur fram að  augasteinsaðgerðir eru framkvæmdar á Landspítala , Sjúkrahúsi Akureyrar  og tveimur einkastofum, Sjónlagi og Lasersjón.  Svandís vildi vita  hversu margir einstaklingar hafa undanfarin tvö ár greitt augasteinsaðgerðir sínar að fullu úr eigin vasa. Sjónlag og Lasersjón neituðu að gefa upplýsingar um hversu margir greiddu að fullu fyrir aðgerðir hjá þeim. Þeir sjúklingar sem fengu aðgerðirnar niðurgreiddar af ríkinu greiddu á bilinu ellefu til sextán þúsund krónur fyrir aðgerðina en meðal heildkostnaðurinn við aðgerð er talin rúmar 100 þúsund krónur.

Flestir orðnir 60 ára

Flestir þeirra sem fara í augasteinsaðgerðir eru orðnir 60 ára eða eldri. Oft eru slíkar aðgerðir gerðar vegna þess að fólk fær ský á auga og hættir að sjá jafn vel og áður sem er mikil lífsgæðaskerðing. Þjóðin er að eldast og það segir sig sjálf að eftirspurn og þörf fyrir augasteinsaðgerðir á eftir að aukast verulega á næstu misserum.

Ritstjórn maí 18, 2015 12:01