Þórunn Sigurðardóttir flutti nýlega úr einbýlishúsi í Garðabæ í rúmgóða íbúð á Garðatorgi. Húsið var rúmir 200 fermetrar með bílskúr, en nýja íbúðin rúmlega 120 fermetrar með geymslu. Maðurinn hennar Finnur Jónsson verkfræðingur féll frá fyrir sex árum. Hann teiknaði húsið þeirra í Garðabæ og byggði að mestu sjálfur og þangað fluttu þau með börnin sín fjögur árið 1978. Þórunn segir að það hafi verið komið viðhald á húsið og lóðin hafi verið mjög stór. „Ég réði ekki við að sjá um hana, en vildi hafa þokkalegt í kringum mig“, segir hún. Dætur Þórunnar studdu hana dyggilega í því sem hún vildi gera og það varð úr að selja húsið og flytja í minni íbúð.
Kom aldrei bíll í bílskúrinn
Ég þurfti ekki að losa mig við mjög mikið, svona miðað við það sem ég heyri hjá öðrum“, segir Þórunn. „Við höfðum safnað dóti í geymslur og bílskúr. Það kom aldrei bíll inní bílskúrinn og við vorum búin að taka helminginn af honum og útbúa þar geymslu með hillum. Það var viðkvæði hjá manninum mínum að bílar ættu ekki að vera í bílskúr, því þeir myndu bara ryðga. En bílskúrinn var mesti höfuðverkurinn þegar kom að því að flytja. Við ætluðum alltaf að fara í gegnum hann, en náðum því ekki“, segir hún. Það varð hins vegar úr að sonur þeirra Siggi, sem býr í Ameríku, kom heim ásamt Tómasi syni sínum til þess að hjálpa henni að fara í gegnum bílskúrinn.
Nýi eigandinn vildi smíðabekkinn
Það voru áratugagömul skíði frá Sviss í bílskúrnum og gamalt orf og ljár, sem tengdafaðir Þórunnar smíðaði sjálfur. „Þegar maður hefur nóg pláss, safnast í það“, segir hún. Þarna var líka mikið af fínum verkfærum. Þórunn segir að Finnur hafi verið alinn upp á smíðaverkstæði föður síns, Karls Jónssonar læknis. Hann átti sumarbústað við Elliðavatn, sem hann byggði sjálfur. „Það var í ættinni að gera allt sjálfur og Finnur gerði það. Hann var alltaf að smíða og þurfti að eiga góð verkfæri. Hann var búinn að smíða eða útbúa heimagerðan smíðabekk í bílskúrnum. Það var mikill léttir að nýi eigandinn vildi fá hann, svo hann var bara skilinn eftir“, segir Þórunn.
Gæti þegið stærri geymslu
Tengdasynir Þórunnar skiptu verkfærunum á milli sín og sonur hennar tók eitthvað. Hennar verkefni var hins vegar að fara í gegnum alls kyns pappíra sem leyndust í geymslunni. Hún segir að eitthvað af dóti hafi farið á haugana, en hún hafi ekki fylgst með því í smáatriðum. „Ég var spurð hversu margar ferðir við hefðum farið í Sorpu og ég sagði „Ég veit það ekki“ og það var alveg satt. En það var gott að Siggi kom heim til að sjá um þetta, því hann hafði taugar til þessara hluta“, segir Þórunn og hallar sér afturábak í stólnum í nýju íbúðinni. Þar er bara lítil geymsla og Þórunn segir að hún eigi ennþá eftir að fara yfir nokkra kassa. „Ég gæti alveg þegið stærri geymslu“, segir hún að lokum.