Bítlar bjarga barni

Bítlaæðið á sjöunda áratug síðustu aldar, olli ýmsum vangaveltum meðal þjóðarinnar. „Skattborgari“ velti fyrir sér í Velvakanda,  auraráðum foreldra unglinga sem fóru 30 sinnum að sjá Bítlamyndina „A hard days night“.  Strákar á hælaháum skóm og æpandi stúlkur vöktu athygli. Ýmsir höfðu af því áhyggjur að rakarar landsins yrðu atvinnulausir. En bítlunum var ekki alls varnað eins og þessi pistill Odds fréttaritara Morgunblaðsins á Akranesi bar með sér, en hann birtist í maí 1965, ári eftir að bítlaæðið greip um sig.

Segið svo, að bítlar geti ekki verið afreksmenn. Glæfralegt ævintýri gerðist kl. 3 eftir hádegi í gær á baðströndinni Langasandi hér á Akranesi. Átta ára drengur, Daði Pétursson, sem heima á á Höfðabraut 12 var að leika sér á vindsæng í flæðarmálinu. Hann var svo upptekinn af leiknum, að hann gætti þess ekki að snarpa norðangolu lagði af landi.

Víkur nú sögunni til bítlanna Rúnars og Óla, og Finns jafnaldra þeirra. Lágu þeir í makindum í sólbaði fast upp undir bakka, er köll kveða við neðan af sandinum. Bíða þeir ekki boðanna og hendast í einum spreng niður sandinn, út í sjóinn, syndir eins og selir. Daði litli kraup grátandi á vindsænginni, en brosti gegnum rárin, er bjargvættirnir gripu í sængina. Rúnar bítill og Finnur hvor í sitt sængurhorn og fóru á undan, en Óli bítill ýtti á eftir. Syntu þeir knálega með annarri hendi. Tíu mínútur tók sundið fram og aftur.

Ritstjórn júní 10, 2014 13:47