Bleiki fíllinn í stofunni

Það eru ekki allir þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga notaleg og gleðirík efri ár í sátt og samlyndi við sína nánustu fjölskyldu, maka, börn eða barnabörn, segir Elsa Inga Konráðsdóttir fjölskyldufræðingur hjá Sálfræðistofu Reykjavíkur, og margar ástæður geti búið þar að baki. ,,Það er eðlilegt að upplifa tímabundna togstreitu eða ósætti við einhvern eða einhverja innan fjölskyldunnar og sem betur fer ná flestir að miðla málum og ná sáttum“, segir hún.

Samskipti foreldra og fullorðinna barna

Fyrirsjáanleg álagsskeið sem koma upp á lífsferlinum líkt og barneignir, sambandsslit, skilnaðir, ótímabær dauðsföll eða skyndileg áföll geta haft áhrif á samskipti og tengsl foreldra og fullorðinna barna. Samsetning fjölskyldunnar getur líka haft áhrif á samskiptin ,,Hverjir eru eiginlega í minni fjölskyldu og hverjum tilheyri ég?“ Samheldni, sveigjanleiki og aðlögunarhæfni í fjölskyldum getur sagt til um hvernig fjölskyldan er í stakk búin til þess að takast á  við álagstímabil eða erfiðleika án neikvæðra afleiðinga fyrir hana. ,,Ósætti eða óuppgerð mál geta fylgt fólki fram eftir aldri, valdið gremju, kvíða og einmanaleika ef málin eru ekki rædd. Ástæðurnar geta verið margvíslegar, allt frá því að afi og amma séu að drukkna í barnapössun, til fjölskylduleyndarmála fortíðar. Þar getur líka verið á ferðinni misskilningur sem uppkomið barn hefur þróað með sér í vonbrigði, reiði og pirring gagnvart foreldrum sínum eða systkinum. Þá getur verið gagnlegt að opna umræðuna um til hvers foreldrar ætlast af uppkomnum börnum sínum og öfugt.  Stundum er það svo að foreldrar veigra sér við að bjóða börnum og barnabörnum til sín vegna ósættis milli einstaklinga innan fjölskyldunnar,“ segir Elsa Inga.

Hvernig tölum við saman

,,Sem betur fer leysist margur vandinn á farsælann hátt innan fjölskyldna þegar hann er borinn á borð og málin rædd á opinskáan og uppbyggilegan hátt“ segir hún. ,,Það getur hinsvegar verið foreldrum erfitt að opna á umræðu um ákveðin málefni og ástæða þess getur verið óttinn við viðbrögð þess sem um ræðir. Óttinn um að særa viðkomandi eða valda vonbrigðum.Til að viðhalda eða efla heilbrigði fjölskyldunnar og tengsl innan hennar verðum við að vera meðvituð um hvernig við sem fjölskylda tökumst á við þær hindranir sem á vegi okkar verða“, segir Elsa Inga og heldur áfram. „Þannig getum við komið í veg fyrir ósætti og átök sem geta valdið sársauka og jafnvel sundrung innan fjölskyldunnar. Þá er gagnlegt að spyrja sig, hvernig tölum við saman í minni fjölskyldu og skoða hvernig tjáskiptaleiðir hafa verið eða eru ríkjandi í fjölskyldunni.  Hlustum við á hvort annað en heyrum bara orðin tóm? Skynjum við líðan hvers annars, getum við sagt hvernig okkur líður, vitum við hvernig okkur líður? Hvað með erfiðar tilfinningar? Erum við í fjölskyldu þar sem ekki má tala, ekki treysta og ekki finna til? Við megum jú finna til en ekki ræða opinskátt um tilfinningar okkar, þó svo þær séu hvorki réttar né rangar, þær bara eru. Er leyfilegt að tala um vandamál eða eru þau bleiki fíllinn í stofunni, sem allir sjá en enginn heilsar?  Vandamálin eru ekki endilega vandamálið, heldur hvernig við tökumst á við þau“, segir hún að lokum.

 

 

Ritstjórn september 25, 2018 09:14