Ofbeldi gagnvart öldruðum eykst

Um leið og Bandaríkjamönnum 60 ára og eldri fjölgar verða fregnir af ofbeldi gegn eldra fólki æ algengari samkvæmt tilkynningu frá Centers for disease control and Prevention (CDC) og sagt er frá á vefnum aarp.org.

Samkvæmt tilkynningunni er talið að árásum á sextuga karlmenn og eldri hafi fjölgað um 75,4% á milli  áranna 2002 og 2016, árásum á konur á sama aldri hafi fjölgað um 35,4% milli áranna 2007 og 2016.

Í tæplega 60% tilvika voru árásarmennirnir skyldmenni eða þekktu fórnarlömbin.

„Ég held að þetta sé aðeins toppurinn á ísjakanum,“ segir Julie Schoen, en hún er yfirmaður National Center on Elder Abuse, um ofangreindar tölur. Fólk er hrætt við að tilkynna um misnotkun og ofbeldi segir Julie og bætir við að flestir óttist að missa sjálfstæði og heimili sitt tilkynni þeir um ofbeldi gagnvart sér.

Þó aldurshópur eldri Bandaríkjamanna fái talsverða athygli telja samtök og stofnanir eins og CDC að fólk þurfi að vera meðvitaðra um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi á eldra fólki. „Ofbeldið eykst  langt umfram fólksfjölgun“ segir rannsóknarmaðurinn Joseph Logan. Hann bendir á nokkrar leiðir sem aðstandendur geta notað til að sporna við ofbeldi gagnvart öldruðum.

  • Hlustað á gamalt fólk og reynt að skilja það.
  • Tilkynna grunsemdir um misnotkun og ofbeldi til viðkomandi stofnana.
  • Kynna sér hvernig á að bera kennsl á hugsanlegt ofbeldi.
  • Líta sem oftast við hjá þeim sem eiga fáa vini og vandamenn.
  • Reyna að fá fleiri en fjölskylduna eða ummönnunaraðila til að taka þátt í lífi hins aldraða einstaklings.
  • Hvetja og aðstoða fólk, þ.m.t. ummönnunaraðila sem eiga við áfengis og fíkniefnavanda til að leita sér hjálpar.

Það sem eldra fólk getur gert til að reyna að forðast að verða fyrir ofbeldi er:

  • Forðast einangrun með því að taka þátt í hvers kyns viðburðum í nágrenninu og að halda sambandi við fjölskylduna.
  • Vanda valið á aðstoðarfólki og fá að skoða bakgrunn þeirra og óska eftir meðmælum.
Ritstjórn maí 2, 2019 08:14