Bóksalinn í smábænum er samur við sig

Dagbækur bóksalans Shauns Bythells hafa heillað íslenska lesendur rétt eins og bókelskt fólk víða um heim. Þetta eru svo notalegar og mannlegar bækur og gestir bókabúðarinnar svo áberandi skrautlegir og skemmtilegir. Sú nýjasta heitir Óseldar bækur bóksala og er sú þriðja í röðinni. Þær fyrri eru Dagbók bóksala og Játningar bóksala.

Í stuttu máli þá lýsa þessar bækur lífi venjulegs manns í Skotlandi. Hann rekur fornbókaverslun í bænum Wigtown og lífið gengur upp og niður. En sveiflurnar eru þó aldrei gríðarlegar því Shaun er vanafastur og nokkuð rólegur í tíðinni. Að eigin sögn villtist hann inn í fornbókaheiminn þegar hann var rétt þrítugur og hafði flosnað upp úr laganámi. Nú leitar hann sjaldgæfra bóka og leitast við að bjóða upp á verk höfunda sem fáir þekkja eða muna eftir.

Hann hefur alltaf verið elskur að bókum og haft gaman af að lesa og fornbókabúðin hans er sú stærsta í Skotlandi. Níu herbergi full af bókum frá gólfi til lofts. Viðskiptavinir hans eru líka bókafólk en þar á meðal leynast margir sérvitringar og það kann að koma mörgum á óvart að á lista best seldu bóka í fornbókabúðinni eru bækur um frímúrarafræði og skjaldamerkjafræði. En helsti kostur bóksalans er að hann er næmur á fólk, athyglisgáfa hans afbragðsvel þjálfuð og hann kann að segja frá á skemmtilegan hátt.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar

Ritstjórn október 27, 2024 07:00