Bríet, blómin og HannesSextán ára skrifaði Bríet Bjarnhéðinsdóttir grein um menntun og réttindi kvenna en birti hana ekki fyrr þrettán árum seinna í tímaritinu Fjallkonunni. Strax þá sló þessi einstaka kona tóninn um nauðsyn þess að konur hefðu sama valfrelsi og karlar til að njóta hæfileika sinna, hafa sömu tækifæri til mennta og starfa. Margt hefur vissulega áunnist frá því Bríet var á dögum en oft koma bakslög í mannréttindabaráttu og þá er gott að hverfa aftur í grunninn og rifja upp hugsjónir og fórnir þeirra sem fóru á undan. Það er einmitt það sem áhugaverð dagskrá í Hannesarholti snýst um.
Dagskráin Bríet og blómin verður flutt í Hljóðbergi í Hannesarholti þann 27. september næstkomandi. Það er hópurinn Leikhúslistakonur 50+ sem standa að viðburðinum en hann er haldinn til heiðurs Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, kvenréttindakonu, blaðamanns og ritstjóra Kvennablaðsins á afmælisdegi hennar. Fjallað verður um samstarf Hannesar Hafstein fyrsta ráðherra Íslands og Bríetar, ólíka æsku þeirra og kjör og hvernig lífsþræðir þeirra spunnust saman, meðan bæði lifðu. Samstarf þeirra hafði mikil áhrif á þróun kvenréttinda hér á landi. Sá sögulegi sannleikur má ekki gleymast. Meðal þess sem hann gerði fyrir kvenréttindabaráttu á Íslandi var að opna Lærða skólann (sem nefndist eftir það Menntaskólinn) fyrir stúlkum árið 1904 og árið 1907 lagði hann fram frumvarp á alþingi um rétt kvenna til allrar menntunar og embætta.
„Stígðu ófeimin stúlka upp og stýrðu klæði,
yfir geiminn yfir græði,
allan heiminn skoða í næði.“
Þessi vísa stendur á minnisvarða um Bríet í Þingholtunum ekki langt frá Hannesarholti. Að öllum líkindum orti hún þessa vísu til dóttur sinnar Laufeyjar og varla er hægt að óska dóttur sinni neins betra en einmitt þess að fá að skoða heiminn í næði og stjórna sjálf sínu klæði hvert sem hún vill fara.
Dagskráin hefst klukkan 15 og stendur yfir í um eina klukkustund. Þær sem taka þátt í henni eru Edda Þórarinsdóttir leikkona, Helga E. Jónsdóttir leikkona, Þórey Sigþórsdóttir leikkona, Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari og Ásdís Skúladóttir leikstjóri, skráði textann
En hvaða blóm eru þetta? Það færðu að vita ef þú mætir í Hannesarholt þann 27.september. Veitingahúsið er opið frá kl.11.30 og má njóta veitinga á undan viðburði. Borðapantanir í síma 511-1904. Aðgangseyrir kr.3.000, miðasala á tix.is.