Eftir hverju sjáum við í lífinu

Hvað er það sem fólk sér mest eftir að hafa ekki gert í lífinu og hvað skiptir mestu máli.  Ef fólk sér ekki eftir neinu þá er það líklega vegna þess að það hefur ekki lifað sérstaklega spennandi lífi, segir Karl Pillmer, öldrunarlæknir við Cornell háskóla. Hann og rannsóknarteymi hans ræddu við 1500 Bandaríkjamenn sem voru 65 ára og eldri og spurðu það hvað þeir sæju mest eftir í lífinu. Um þetta má lesa nánar á vefnum Today.com. Lifðu núna ákvað að þýða og endursegja greinina lauslega.

Þeir sem rætt var við voru sammála um að eitt það mikilvægasta sem fólk gerði á lífsleiðinni væri að velja sér lífsförunaut. Margir væru óvarkárir og hvatvísir þegar kæmi að makavali vegna þess að þeir væru hræddir við að finna engan til að eyða lífinu með. Þeir tækju því þeim fyrsta eða fyrstu sem á vegi þeirra yrði.  Kona nokkur sagði að það væri betra að vera einn ævina á enda en giftast röngum manni. Margir sögðust hafa skilið og lært af mistökunum og seinna hjónabandið hefði verið mun farsælla. Eldra fólkið vildi koma þeim skilaboðum á framfæri við þá sem yngri eru að fólk ætti að taka sér góðan tíma til að kynnast áður en það skuldbindur sig.

Margir sáu líka mjög eftir því að hafa átt í slæmu sambandi við börn sín og aðra nána ættingja.  Það olli fólki mikilli óhamingju að hafa misst samband við börn sín. Næstum allir sem svo var komið fyrir óskuðu þess að þeir hefðu reynt að sættast við börn sín og biðja þau fyrirgefningar á því sem aflaga fór í sambandinu. Það sama gilti um aðra nána ættingja.

Stór hópur karlanna sem sem rætt var við sáu eftir að hafa ekki sagt konum sínum hversu mikið þeir elskuðu þær. Þeir sem höfðu misst maka sinn sáu líka mjög eftir því að hafa ekki beðið fyrirgefningar á því sem þeir höfðu gert á hluta þeirra eða þakkað þeim það sem vel var gert.

„Ég ferðaðist ekki nóg á meðan ég hafði góða heilsu,“ var setning sem oft heyrðist. Jafnvel fólk sem hafði ferðast vítt og breytt sagði; en ég komst aldrei til Japans eða á einhvern annan áfangastað sem það hafði langað að heimsækja. Fólk ætlar oft að ferðast þegar það er komið á eftirlaun en þá er það oft búið að missa heilsuna. Niðurstaðan var sú að fólk ætti að ferðast á meðan það hefði heilsu og þor. Það ætti að taka ferðalög fram yfir aðra hluti. Ein kona sagði ef valið stendur á milli þess að fara í gott ferðalag eða gera upp eldhúsið ættu allir að taka ferðalagið fram yfir.

Fólk sá líka eftir því að hafa eytt tímanum í ástæðulausar áhyggjur af því hvað framtíðin myndi bera í skauti sér. Að hafa áhyggjur af öllu mögulegu er að sóa lífinu.

Að hafa verið óheiðarlegur hvort sem það var í peningamálum, hafa staðið í framhjáhaldi eða logið einhverju vísvitandi að öðrum var líka meðal þess sem fólk sá mikið eftir. Fólki sem hafði verið svindlað á leið líka illa yfir því að hafa verið svikið.

Margir sáu líka eftir að hafa ekki tekið næga áhættu í þeim störfum sem þeir lögðu stund á. Að hafa ekki gripið tækifærið þegar það bauðst. Fólki býðst stöðuhækkun í örfá skipti á ævinni og fólk ætti að hugsa sig vel og vandlega um áður en það hafnar slíku. Hvað ef, er hugsun sem oft skaut upp kollinum hjá eldra fólkinu. Fólk spurði sjálft sig líka oft hvers vegna var það var ekki tilbúið að prófa eitthvað nýtt.

Að hugsa ekki nógu og vel um heilsuna á yngri árum, var á meðal þess sem fólk sá sárlega eftir.  Að hafa reykt, ekki stundað æfingar og orðið of þungur. Margir vildu óska þess að þeir hefðu ekki sagt sem svo mér finnst gott að reykja, borða og mér leiðast æfingar. Hvað með það þó ég verði ekki hundgamall. Fólk áttaði sig of seint á því að með því að lifa óheilbrigðu lífi var það ekki aðeins að minnka ævilíkur sínar heldur þjáðist það af allskonar lífsstílssjúkdómum sem það hafði mögulega getað komið í veg fyrir.

Ritstjórn ágúst 20, 2019 07:13