Dásamlegir Dagar

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

 

Ég flaug á vængjum ástarinnar til New York haustið 1977. Ég var mikill andstæðingur Víetnamsstríðsins og hafði heitið því að fara aldrei til Bandaríkjanna. En slík fyrirheit fuku út í veður og vind, þegar ég hitti draumaprinsinn á dansstaðnum Óðali við Austurvöll í ágúst 1976. Ég vissi strax að hann var sá eini rétti, og sótti því um inngöngu í sama háskóla í New York og hann var að hefja nám við það haust. Eftir fjögurra ára dvöl í New York, fluttum við til Tucson, Arizona.

Á þessum árum var ekkert net og eina leiðin til að hafa samband við ættingja og vini á Íslandi var í gegnum síma eða með bréfaskriftum. Símtöl voru mjög dýr og síminn var aðeins notaður í neyð. Í raun óttaðist maður símtöl að heiman, þau voru yfirleitt boðberar slæmra frétta. En dagblaðssendingar frá Íslandi voru kærkomnar, en foreldrar okkar beggja sendu okkur reglulega blaðapakka með helstu dagblöðum landsins og á afmælum og um jólin fengum við sendar íslenskar bækur.

Á þessum árum skrifaði ég reglulega pistla fyrir Helgarpóstinn sáluga um lífið í New York og síðan um lífið í Tucson. Ég skrifaði meðfylgjandi pistil snemma árs 1982 um dásemdina sem fylgdi því að fá blaðasendingar og bækur frá Íslandi, og efast ég ekki um að margir lesendur Lifðu Núna hafi upplifað það sama og ég gerði við það að komast, um stundarsakir, í snertingu við Ísland og allt sem íslenskt er, í fjarlægu landi.

 

Það eru dásamlegir dagar. Þeir byrja á að ég finn bleikan miða í póstkassanum þar sem tilkynnt er að pakki sé kominn frá Íslandi. Ég skelli samstundis á mig vígalegum hjálmi og bakpoka og hjóla eins og lífið liggi við niður á pósthús. Ekki læt ég á mig fá þó biðröð sé út að dyrum. Væri þess vegna tilbúin að bíða í heilan dag. Bleiki miðinn þýðir nefnilega að kominn er blaðapakki að heiman.

Varla bregst að póstafgreiðslumaðurinn hafi orð á, að ekki vildi hann vinna á pósthúsi í heimalandi pakkans, sem varla sést í fyrir frímerkjum. “En þetta eru falleg frímerki, hvaðan eru þau?” Þegar ég svara: Frá Íslandi, brosir hann til mín eins og hann hafi loksins fengið ósk sína uppfyllta að sjá engil úr Paradís. Ó, Íslandi, það er alveg stórkostlegt land! Þar er hreint loft, heilsuhraust, ljóshært og bláeygt fólk og engir glæpir. Við  liggur að honum svelgist á við að segja síðustu orðin. Ég jánka öllu óþolinmóð, vitandi að það tæki mig minnst hálftíma að sannfæra manninn um að megun, sjúkdómar og glæpir séu líka til á Íslandi og margir íslendingar séu dökk- hærðir og með brún augu.

Þegar heim kemur hita ég sterkt kaffi, hringa mig upp í sófa og gleymi bæði stað og stund, skólabókum og óskrifuðum ritgerðum, meðan hvítur pappír og prentsverta leiða mig um króka og kima íslensks þjóðlífs. Tímum saman sit ég í sölum Alþingis og hlusta á ræður misviturra þingmanna og-kvenna. Ber augum ótal listaverk og kvikmyndir. Klappa lófana sára á frumsýningum. Les úrdrætti úr öllum helstu bókum bókmenntaþjóðarinnar. Skála við Vigdísi við afhendingu bókmenntaverðlauna. Græt mig til ekka í jarðförum og samgleðst nýgiftum. Dansa undan mér sólana á skemmtistöðum borgarinnar, sem verða sífellt fleiri og heita æ glæsilegri nöfnum. Þrefalda þyngd mína (létti á pyngjunni í sama hlutfalli) við át og drykkju á hinum mörgu veitingarhúsum borgarinnar og göfga sálina samtímis við að hlusta á spil og söng íslenskra tónlistarmanna.

Þegar ég ranka við mér loksins grúttimbruð, örþreytt og alsæl, er ég tíu sinnum betur að mér um íslensk dægurmál en ég var þegar ég sjálf hluti af hringiðunni. Og þúsund sinnum nær lífspúlsinum á Íslandi en í mínu nánasta umhverfi.

Fyrir jólin og afmælisdaga er bleikur miði í póstkassa ekki tákn um blöð heldur bækur, og ekki hafa þær lengri viðdvöl á pósthúsinu en dagblöðin. En meðan dagblöðin eru étin upp á einum degi, er farið með íslenskar bækur eins og dýrindis konfektkassa. Aðeins leyfist að bragða á einum kafla á dag, sem fluttur er sem heilög ritning í heyranda hljóði. Eigendur vita að þó þeir ættu heila milljón væri engin leið að skreppa í búð til að kaupa nýjan konfektkassa.

Íslensk dagblöð og bækur gegna ekki því hlutverki eingöngu að vera tengiliður við íslenskt þjóðlíf og menningu, þau eru líka lykill að íslenskri tungu. Hugurinn staðnæmist iðulega við orð og orðasambönd, sem ekki hafa heyrst lengi. Margra ára aðskilnaður gefur þeim nýja merkingu og nýtt líf og tónar þeirra óma í sálinni eins og stef úr vinsælu lagi svo dögum skiptir. Í minningargrein um Þórleif Bjarnason, höfund Hornstrendingarbókar í Þjóðviljanum í haust (1981) vitnaði Bjarnfríður Leósdóttir í verkið. Í tilvitnunum leyndust meðal annarra orðin “hreggbarin fjöll.”

HREGGBARIN FJÖLL.  Þróttur og hrynjandi þessara orða gagntóku mig og Arizonafjöllin handan við gluggann minn breyttust í tíguleg fjöll Vestfjarða, sem engan bilbug láta á sér finna þótt barin séu óveðrum stóran hluta ársins. Í sömu tilvitnun var lýsing Þórleifs á komu vorsins norður við ystu höf og hafði amma hans orð á að nú væri kominn lífsteinn í jörðina. Landið undir mér fylltist samstundis lífi og tók að hristast og dansa. Steinar á Íslandi eru ekki einir gæddir lífi. Lífið sjálft hefur sinn stein, sína hörku og þrautseigju.

Í Möskvum morgundagsins hans Sigurðar A. kom fyrir orðið bosmamikill. Bosmamikill. Það seiddi fram ilm af nýbökuðum lummum og rjúkandi súkklaði í hlýju sveitareldhúsi, þar sem brosmild, bosmamikil húsmóðir stóð í rósóttum kjól og sívökul augu hennar gættu þess að enginn bolli væri tómur og enginn diskur auður. Aðeins eitt orð þurfti til að fylla munninn af vatni og heimþrá.

Svo voru það kárínurnar í bókinni um Kjarval. Er til betra orð yfir refsingu eða yfirbót en kárína? Það rímar við orðið rúsina, sem minnir á hversu mjótt bil er oft á milli beiskju og sætleika. En eins og rúsína er ekkert annað en þurrt og saman skroppið vínber, þá er syndin oft örsmá í hlutfalli við refsinguna.

Næmleiki íslenskrar tungu á blæbrigði sálarinnar endurspeglast einnig í orðunum grátur og hlátur. Fjórir síðustu stafir orðanna eru þeir sömu og kynið er það sama. Upphafsstafir þeirra Gé og Há standa hlið við hlið í stafrófinu. Bilið milli hláturs og gráts er oft tæpt, en lýsir það ekki bjartsýni íslenskunnar að Háið í hlátri kemur á eftir Géinu í gráti?

 

Tucson, Arizona, 23. jan. 1982

Inga Dóra Björnsdóttir júní 18, 2019 07:18