Fergurðarsamkeppni: Fræi sáð

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur

Inga Dóra Björnsdóttir

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Þegar ég var að alast upp á Íslandi á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar voru fegurðasamkeppnir í fullum blóma. Engin ung íslensk stúlka gat náð lengra en að öðlast titilinn Fegurðardrotting Íslands. Við systur og vinkonur mínar fylgdumst grannt með þessum árlegu keppnum, lágum yfir Vikunni og Fálkanum, skoðuðum myndir af þátttakendunum, spáðum í spilin og veðjuðum á hver myndi vinna. Svo létum við okkur dreyma um í leyni  að sá dagur kæmi að okkur yrði boðin þátttaka í keppninni.

Þær voru margar glæsilegar konurnar í þessum keppnum og sigurvegararnir urðu samstundis að gyðjum í okkar augum, konur eins og María Guðmundsdóttir, Thelma Ingvarsdóttir og ekki síst Guðrún Bjarnadóttir, því hún varð ekki bara Fegurðardrottning Íslands, heldur líka Ungfrú Alheimur….vá…..

Það var því alls ekkert skrítið þegar framtakssöm bekkjarsystir mín í ellefu ára bekk stakk upp á því að efnt yrði til fegurðarsamkeppni meðal stelpnanna í bekknum. Kennarinn, sem var karl og hét Karl, tók vel í hugmyndina og keppnin var haldin á laugardagsmorgni, en á þessum árum var skólahald fram að hádegi á laugardögum.Tímarnir á laugardögum voru frjálsir tímar, þar sem nemendur fengu að láta ljós sitt skína meðal annars í leiklist, svo uppákoma eins og fegurðarsamkeppni var vel við hæfi.

Bekkjarsystirin sem átti hugmyndina að fegurðarsamkeppninni stjórnaði henni auðvitað. Hún valdi þáttakendurna, sem voru að vonum sætustu stelpurnar í bekknum, þær með himinbláu augun og ljósa englahárið og þær með brúnu augun og dökka hárið. Stelpur eins og ég með skollitað hár, gráblá augu og skakkar tennur áttu ekki sjens…

Stjórnandanum láðist að hafa með sér málband, svo hún varð að láta reglustriku duga, þegar hún mældi mjaðma, mittis- og brjóstamál og hæð keppenda, sem hún skráði samviskulega með krít á töfluna. Þegar því verki var lokið, stilltu keppendur sér tvístígandi upp fyrir framan bekkinn, meðan við hin fylltum út atkvæðaseðlana og auðvitað greiddi ég bestu vinkonu minni, brúneygðri þokkadís, atkvæði mitt.

Að atkvæðagreiðslu lokinni hvarf stjórnandinn ásamt kennaranum bak við skáp til að telja atkvæðin á meðan við hin biðum spennt eftir niðurstöðunum.  Þegar þau snéru aftur var ljóst á svip þeirra að ekki var allt með felldu. Við talningu hafði nefnilega komið í ljós að flest atkvæði hafði hlotið stúlka sem ekki var þátttakandi í keppninni og þótti, samkvæmt fegurðarstaðli þess tíma alls ekki sæt, enda rauðhærð. Þegar kennarinn gekk á bekkinn og spurði hverju þessu sætti, þá viðurkenndu strákarnir í bekknum að þeir hefðu tekið sig saman fyrir keppnina um að greiða rauðhærðu stelpunni atkvæði sitt, því þeim fannst þessi fegurðarsamkeppni asnaleg. Stjórnandi keppninnar stokkroðnaði og enginn sagði neitt, keppendurnir snéru aftur í sætin sín og var málið látið niður falla og sú rauðhærða hélt titlinum.

Mér hefur oft verið hugsað til þessarar keppni og uppátækis bekkjarbræðra minna. Kvenréttindahreyfingin svaf enn værum svefni og okkur bekkjarsystrum fannst alveg sjálfsagt og eðlilegt að við kepptum um hver okkar væri sætust. En bekkjarbræður okkar voru á öðru máli og ég hef oft spurt mig: Var þessi mótmælaaðgerð þeirra forboði þess sem koma skyldi, en níu árum síðar, árið 1970,var Rauðsokkahreyfingin stofnuð og tveimur árum síðar, árið 1972, mættu Rauðsokkur í vígahug með kvíguna Perlu Fáfnisdóttur krýnda kórónu sem fegursta ungkýr landsins fyrir framan Hótel Akranes þar sem fegurðarsamkeppnin fór fram. Rétt eins og bekkjarbræður okkar voru Rauðsokkurnar búnar að fatta að fegurðarsamkeppnir eru og verða alltaf asnalegar.

 

Inga Dóra Björnsdóttir október 28, 2016 12:28