Hattar eru meðal áhugaverðustu fylgihluta tískunnar. Þeir hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda og bæði gegnt hagnýtu hlutverki en einnig verið ætlað að draga athygli að eiganda sínum, koma til skila stéttastöðu hans og smekkvísi. Þeir geta verið þokkafullir og tælandi, spennandi og dularfullir, áhugaverðir og ögrandi en líka yfirdrifnir og bráðfyndnir. Skoðum aðeins betur kvenhatta.
Blómaskeið hattagerðarlistarinnar hófst með endurreisninni og stóð í blóma fram á miðja tuttugustu öld. Auðvitað höfðu konur borið alls konar höfuðföt fram að endurreisnartímanum sem hófst um miðja sextándu öld en frekar var um að ræða margsvíslegar húfur, túrbana og borða en beinlínis hatta. Stráhattar þekktust auðvitað en þeir vörðu verkafólk fyrir sólinni og voru langt frá að vera tískugripir. Höfuðföt tengdust einnig mikið trúarbrögðum en það þótti til marks um trúrækni að hylja hár sitt og höfuð.
Við hirð Frakkakonungs, í Bæjaralandi og Flæmingjalandi ríkti mikil velmegun á síðmiðöldum. Menn vildu gjarnan sýna ríkidæmi sitt og ein leið til þess voru skrautlegir hattar. Konur þóttu ekki klæddar nema þær hefðu setti upp hatt áður en þær fóru út. Tískan breiddist út til Þýskalands, Englands, Danmerkur, Rússlands og Ítalíu, ja eiginlega bara allra Evrópulanda. Hattar og hárkollur fóru að verða nauðsynlegur hluti af hversdagsklæðum aðalsins og aðrir nýttu sér ögn íburðarminni form en hattar voru það engu að síður. Og áfram héldu tilraunir með ný efni. Flauel, knipplingar, blúndur, leður og loðskinn, allt var notað til að skreyta hattinn.
Við hirð Lúðvíks XIV náðu hattarnir hæstum hæðum. Sumir voru nánast að sliga eigandann og allir lögðu sig fram um að finna frumlega, stórkostlega og tilkomumikla hatta. Fjaðrir, borðar, slaufur og allt hvaðeina skreytti hattana. Þetta voru skúlptúrar vandaðir að allri gerð.
Miðstéttin fæðist
Á seinni hluta átjándu aldar tóku hugmyndir manna um frelsi, mannréttindi og aukið lýðræði að fæðast. Borgarastéttin var í mikilli sókn og auður hennar óx með hverju árinu. Að sjálfsögðu vildu menn hafa sitt að segja um hvernig samfélaginu var stjórnað. En með auðlegð kom ekki bara vald til að ráða einhverju um gang mála í samfélaginu heldur einnig ráðrúm til að skapa eigin tísku. Rómantíska stefnan og afturhvarf til klassískur í listum hafði sitt að segja um hvað menn settu á höfuð sitt. Þá urðu til svokallaðir „bonnets“ hattar sem bundnir voru undir hökunni og minntu að sumu leyti á húfur en með löngu deri fram á andlitið. Þessir hattar eða húfur voru meira en höfuðföt, þeir voru stöðutákn, sögðu samborgurunum til um að þessi kona væri húsmóðir á eigin heimili.
Og þetta eru ekki einu hattarnir sem gengt hafa því hlutverki. Í hernum fengu menn og fá enn mismunandi höfuðföt eftir stöðu, kúluhatturinn var lengi einkenni þeirra sem unnu í fjármálahverfinu í London, kúrekahatturinn sagði til um hvaða starfi sá sem bar hann gengdi og sýslumenn og hreppstjóri hér á landi báru kaskeiti til að aðgreina sig frá almúganum. Í dag er þeirri hefð viðhaldið meðal lögreglumanna.
Hattagerðarlistin

Baskahattur eða Alpahúfa eins og þetta höfuðfat er kallað á íslensku.
Í byrjun sextándu aldar spruttu upp hattagerðarverkstæði víða um heim og iðnaðurinn hattagerð varð til. Menn þróuðu þar alls kyns tæki, tól og aðferðir til að hjálpa sér við störf sín og menn urðu hattagerðarmeistarar. Ekki leið á löngu þar til konur tóku að læra þessa iðn og það er merkilegt að mjög snemma varð það viðurkennt að konur stunduðu hattagerð, hanskasaum og byggju til margskonar höfuðskraut. Fyrsti hattagerðarmaðurinn til að slá í gegn á heimsvísu var raunar kona, Rose Bertin að nafni. Hún fæddist árið 1744 og lést árið 1813. Hún rak eigin stofu eða salon, Le Grand Moghul, á rue Faubourg Saint-Honoré í Paris. Það má eiginlega segja að þar hafi verið miðstöð nýrra strauma í hattagerð um árabil. Rose hannaði eigin borða, bjó til ný mynstur, skreytti með blúndum og margvíslegu öðru skrauti. Þar hittust konur líka til að spjalla og heyra nýjasta slúðrið við hirðina enda einn af viðskiptavinum Rose sjáf drottningin, Marie Antoinette.
Með iðnbyltingunni kom aukin sjálfvirkni í hattgerðinni. Saumavélar auðvelduðu margt, einnig sérstök tæki til að framleiða gufu sem menn notuðu til að móta efni í margvíslegar gerðir hatta. Í Bandaríkjunum blómstraði þessi iðnaður og tæknin gerði mönnum kleift að fjöldaframleiða og selja vörur sínar ódýrar en áður. París var áfram pólstjarna tískunnar og leiddi en nú voru menn farnir að skapa eigin vörur, bæta við og aðlaga að sínu umhverfi. Tískutímaritin gengdu líka því hlutverki að skila mönnum nýjustu straumum fljótt og vel en Harper’s Bazaar var stofnað árið 1867 og Townsend’s Monthly Magazine 1823 á Englandi en það lifði til ársins 1988, í Frakklandi leiddi Le Follet umræðuna um tísku það var stofnað árið 1829 en lagði upp laupana árið 1892.

Týrólahattur, ekki var óalgengt að litlir strákar á Íslandi hafi borið einn slíkan á síðustu öld.
Meðfram hattatískunni blómstraði einnig hefðbundnari og merkingarþrungnari iðnaður. Mörgum þjóðbúningum fylgja nefnilega hattar og á nítjándu öld fengu þeir nýja merkingu. Þeir urðu tákn tiltekinna þjóða og þjóðarbrota og menn og konur báru þá með stolti. Handverksmenn þessara landa bjuggu þá til og nefna má meðal annars Baskahúfuna sem við þekkjum reyndar undir nafninu Alpahúfur. Týrólahatturinn er annar slíkur en hann var um tíma vinsæll höfuðbúnaður fyrir litla stráka hér á landi og stundum klæddust þeir Týrólabuxum einnig. Túrbaninn sem upprunninn er í Mið-Asíu varð einnig innblástur fyrir tískuhönnuði og stjörnur á borð við Marlene Dietrich skreyttu höfuð sín alls konar útgáfu af þeim.
Hattarnir hverfa

Lilly Daché var frumkvöðull í hattatískunni í Bandaríkjunum og innleiddi túrbaninn þar. Meðal þeirra sem féllu fyrir þeim var Marlene Dietrich.
Þegar tuttugasta öldin gekk í garð fóru hvorki menn né konur í Evrópu út úr húsi án þess að bera einhvers konar höfuðfat. Hattar voru sjálfsagður hluti klæðnaðarins og engum hefði dottið í hug að sleppa þeim. Tískan tók að breytast ört eftir heimstyrjöldina fyrri og það gerðu hattarnir líka. Að þessu sinni var það Elsa Schiaparelli, Cristóbal Balenciaga og Agnès sem leiddu. Þau komu með hatta úr gerviefnum, beygða og mótaða í alls konar form, bugður, boga og kúlur. Hattie Carnegie var austurrísk en fluttist til Bandaríkjanna með þekkingu sína. Hún vann hjá Macy’s í New York í byrjun en eignaðist áður en yfir lauk sitt eigið hattagerðarviðskiptaveldi. Önnur evrópsk hattagerðarkona setti upp og rak sitt eigið salon í New York, hún hét Lilly Daché og hafði lært hjá Suzanne Talbot og Caroline Reboux í París áður en hún kom til New York árið 1925. Lilly hóf ferilinn einnig hjá Macy’s en hún var sá frumkvöðull sem innleiddi túrbaninn í Bandaríkjunum en hún var einnig þekkt fyrir blómamynstur sín og hálfa hattinn sem gersamlega sló í gegn. Annar þekktur hattargerðarmaður var Oleg Cassini, sonur rússnesks greifa, sem flúði heimalandið eftir byltinguna en hann hannaði ekki bara hatta heldur alls konar glæsilegt höfuðskraut.
Hér á landi störfuðu nokkrar lærðar hattagerðarkonur og ráku sín eigin verkstæði og búðir. Nefna má Hattabúð Reykjavíkur sem stofnuð var 16. september árið 1939 af Filippíu Blöndal og tveimur öðrum hattagerðarkonum. Filippía lærði í Danmörku og kenndi þónokkrum íslenskum konum eftir að hún kom heim. Halldóra Pétursdóttir stofnaði Hattabúðina Höddu 26. maí 1928 en Halldóra lærði hattagerðarlistina í London. Fríður Guðmundsdóttir var afgreiðslustúlka í versluninni og rak hana lengi eftir að Halldóra lést. Hattbúð Soffíu Pálma var á Laugavegi en sú var stofnuð 4. apríl 1936.
Það má eiginlega segja að blómaskeiði hattanna hafi svo einfaldlega lokið með seinni heimstyrjöldinni. Upp frá því fóru menn og konur að sjást æ oftar berhöfðuð utandyra og færri og færri litu á hattinn sem nauðsynlegan hluta af fataskápnum. Í dag eru enn framleiddir fallegir, glæsilegir, skrýtnir, klæðilegir og ljótir hattar en þeir virðast fyrst og fremst höfða til þeirra sem eru óhræddir við að skapa sér sinn eigin stíl og skera sig úr fjöldanum. Enn er þó venja í Bretlandi að allar konur beri hatta í brúðkaupum og á opnunardegi Ascot-veðreiðanna. Þá sjást margir áhugaverðir og skondnir hattar. Nefna má matarhlaðborðið sem Camilla Bretadrottning bar á þeim degi fyrir nokkrum árum. Þónokkrir leiðandi hátískuhönnuðir hafa oft reynt að innleiða hatta í tískuna að nýju og gert þá að hluta af nýjustu línum sínum en ekki tekist að gera þá að sama almenna og nauðsynlega fylgihlutnum og þeir voru.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.