Dósasystirin, máttur hennar og megin

Systu megin er heiti nýjustu bókar Steinunnar Sigurðardóttur rithöfundar. Hún ber undirtitilinn leiksaga, en hann vísar til þess að í verkinu er blandað saman tveimur bókmenntagreinum, skáldsögu og leikriti. Þetta er óvenjulegt, en það truflar ekki lesturinn, nema síður sé.

Einnig bregður ljóðlist fyrir í bókinni, en Steinunn er engu síðra ljóðskáld en skáldsagnahöfundur eins og alþjóð veit.

Um bókina segir á kápu að hún sé hárbeitt og óvenjuleg saga um utangarðsfólk í Reykjavík sem fái bæði rödd og ásýnd.

Aðalsögupersónan, Systa, er ekki heimilislaus, en hún er utangarðs. Hún býr ein í kjallarakompu við bágar aðstæður, en hún ræður sér sjálf. Hún er útigangskona í þeim skilningi að hún dregur fram lífið með dósasöfnun. Hún hefur losað sig undan ægivaldi móður sinnar eins og Brósi, samkynhneigður bróðir hennar og bandamaður í tilverunni. Saman hafa þau systkinin tekist á við harðan heim frá barnæsku en valið hvort sína leið, Brósi innan samfélagsins, Systa utan þess.

Sagan gerist um jól og við grípum niður í lýsingu Systu á jólum bernskunnar:

Bestu stundirnar á jólunum og spursmálslaust albestu stundir ársins voru þegar ilmurinn fór að berast úr eldhúsinu, og þá var jafnan kveikt á útvarpi og jólalögum. Inn á milli fann Pabbi upp á því að spila jólafegurð eins og upphafið á Jólaóratoríu Johanns Sebastians Bachs sem og lög á borð við Rudolf the Red Nosed Reindeer í útsetningu Phil Spector. Yfirleitt var eldaður hamborgarhryggur eftir kúnstarinnar reglum og sósum og meðlæti. Þar á meðal heimatilbúnu rauðkáli með eplum sem var mikil sérgrein Pabba. Að ég nú ekki tali um Waldorfsalatið. Þá var einnig það nýmæli uppi að Mamma og Pabbi hjálpuðust að í eldhúsinu í aðdraganda hátíðarkvöldsins, og var oft ekki annað að heyra en sæmilega glatt væri á hjalla hjá þeim, til tilbreytingar.

Systa hefur ekki góða reynslu af ægivaldi móður sinnar. Til að árétta það eru orðin Móðir og Faðir í frásögninni með stórum staf, eins og sérnöfn:

Þegar ég velti Mömmu fyrir mér, sem ég geri nú helst sem minnst af, þá verður ekki hjá þeim sannleika komist að þetta er nískasta manneskja sem uppi hefur verið í samanlagðri heimskristninni. Leið hann Faðir minn sálugi mjög fyrir það, sérstaklega að Mamma sparaði ekki bara við okkur alsystkinin í mat heldur líka í klæðnaði. Áttum við Brósi bró tæpast til skiptanna á köflum. […] Ískyggilegur samansaumur Mömmu gekk svo langt að það átti að vera slátur helst í alla mata. Hef ég enn þann dag í dag ógeð á slátri í hvaða mynd sem það er, og forðast að horfast í augu við sláturkeppi í búð. Verður bara flökurt. Slíkar eru minningarnar frá eldhúsborði æskunnar.

Systu þykir vænt um bróður sinn:

Eitt af því sem ég sakna mest úr fyrra lífi er lambalæri. Veit Brósi um þennan læristrega minn og það eru þó nokkur skipti á ári sem hann kemur með sneiðar úr köldu læri úr sínu búi handa Systu systur sinni. Tvisvar hefur hann boðið mér í sunnudagslæri, einu sinni þegar hann var einhleypur í fáeinar vikur, hann er yfirleitt ekki lengi í einu á lausu, þessi fallegi drengur, sem skiljanlegt er, og svo einu sinni þegar hann var með Guðmanni. Það var góður drengur sem lét Brósa ekki skammast sín fyrir svona dósasysturafmán, og fann ég að honum þótti frekar vænt um mig heldren hitt, sem systur hans Brósa, svo kærleiksríkur sem hann var.

Þegar Systu býðst aukið öryggi í skiptum fyrir frelsið er úr vöndu að ráða.

Ritstjórn desember 9, 2021 15:04