Hugarheimur baráttukonu

Fyrstu línur ljóðsins Vetur eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur má lesa á torginu við steinbryggjuna í miðbæ Reykjavíkur. Ljóðið birtist fyrst í bókinni Dvergliljur árið 1968.

Þegar slokknaði á morgunstjörnunni
varð máninn kyrr
Sólin veifaði
skýjaslæðu
til hans
yfir fjallið
sem gleymdi að taka ofan
nátthúfuna.

Þetta ljóð endurspeglar á margan hátt höfundareinkenni Vilborgar, meitlaður stíll, hvert orð úthugsað og ákveðin kímni og næstum barnsleg gleði yfir lífinu og náttúrunni. Áhrif hennar á hugarfar nokkurra kynslóða verða seint metin til fulls því bæði hefur skáldskapur hennar heillað unga jafnt sem aldna og kennsla hennar mótað stóran hóp íslenskra barna.  Skáldkonan fæddist á Hjalla á Vestdalseyri þann 18. júlí árið 1930. Hún var að alþýðufólki komin og ólst upp við fátækt og þráði að menntast eins og margir af hennar kynslóð og nam leiklist um skeið en lauk síðar kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands.Síðar stundaði hún einnig nám í bókasafnsfræði við Háskóla Íslands. Vegna þessa hefur Vilborg ævinlega haft mikla samúð með lítilmagnanum og viljað stuðla að réttlátara samfélagi.

Lengst af starfaði Vilborg við kennslu í Austurbæjarskólanum. Hún var góður kennari og bar hag nemenda sinna mjög fyirr brjósti. Meðfram fullri vinnu stundaði hún ritstörf, skrifaði sögur handa börnum, orti ljóð og þýddi margvíslegar bókmenntir. Skáldkonan er auðvitað löngu komin á eftirlaun en hún er ern og oft má sá hana á ferð um bæinn. Á nýja torginu geta vegfarendur sest á svokallaðan skáldabekk og notað snjallsímakóða til að hlusta á Vilborgu sjálfa lesa Vetur og fleiri ljóð. Þetta er fyrsta skáldið sem Reykjavíkurborg opnar almenningi aðgang að með þessum hætti en áætlað er að halda áfram og gera bókmenntasöguna aðgengilega á götum og torgum í borginni samhliða endurnýjun og endurgerð á ýmsum stöðum í bænum. Hér gefst því tækifæri til að kynnast skáldskap þessarar sérstöku konu.

„Vilborg er mikil hugsjóna- og baráttukona og það er ekki víst að þeir sem yngri eru geri sér fyllilega grein fyrir hversu sterka réttlætiskennd hún hefur. Hún barðist fyrir kvenréttindum, bættum kjörum verkafólks og gegn her hér á landi.“

Hugsjónakona og frumkvöðull

Ekki er hægt að skilja við Vilborgu öðruvísi en að minnast á bók Kristínar Mörju Baldursdóttur, Mynd af konu, Vilborg Dagbjartsdóttir. Bókin kom út árið 2000 en þar tekst einkar vel að lýsa konu sem er ævinlega samkvæm sjálfri sér og hefur hugrekki til að vera hún sjálf. Vilborg er mikil hugsjóna- og baráttukona og það er ekki víst að þeir sem yngri eru geri sér fyllilega grein fyrir hversu sterka réttlætiskennd hún hefur. Hún barðist fyrir kvenréttindum, bættum kjörum verkafólks og gegn her hér á landi. Vilborg var einn frumkvöðla að stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar og sat lengi í stjórn Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna. Hún átti einnig sæti í stjórn Stéttarfélags íslenskra barnakennara, Rithöfundafélags Íslands og Rithöfundasambands Íslands. Samtalsbókin opnar mönnum leið að persónuleika hennar en ekki fyrst og fremst að skáldkonu að líta yfir farinn veg með tilliti til verka sinna. Þess í stað kynnast lesendur konu ólgandi af sköpunargleði, bráðgreindri og skemmtilegri.

Það eru ekki síst lýsingar á umhverfi skáldkonunnar og því sem hún tekur sér fyrir hendur í hversdagslífinu sem veita þessa einstöku innsýn. Meðal annars er sagt frá því að Vilborg heimsækir gjarnan Hólavallakirkjugarð við Suðurgötu og þangað fór hún með drengina sína í nestisferðir þegar þeir voru litlir. Það segir ekki lítið um manneskju að hún skuli fara með börnin sín til að heimsækja grafir forfeðra sinna og gera þær ferðir að ánægjustundum.

Fyrsta ljóðabók Vilborgar var Laufið á trjánum sem kom út árið 1960 og var hún þá ein af fáum konum sem ortu atómljóð. Ljóð Vilborgar hafa birst í erlendum safnritum og tímaritum á fjölda tungumála. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1992 fyrir ljóðabókina Klukkan í turninum. Vilborg lést 16. september 2021.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 14, 2023 07:00