Lengi hefur sá misskilningur verið ríkjandi að atvinnuþátttaka kvenna sé nýtilkomin og þær ekki unnið fyrir sér eða heimilinu fyrr en langt var liðið á tuttugustu öldina. Svo er ekki og konur hafa alla tíð lagt til heimilisins bæði með launaðri vinnu og ólaunaðri og sýnt mikla útsjónarsemi, frumleika og dugnað við að afla sér tekna.
Iðulega er talað um að vera bara heima og það fær einhvern veginn neikvæða merkingu. Starf kvenna inni á heimilinu var og er stórlega vanmetið. Það var full vinna að halda heimili og hugsa um börn en konur í sveitum tóku svo einnig mikinn þátt í búverkunum. Auk þessa voru margar konur í hjáverkum að vinna að alls konar verkefnum til að drýgja tekjurnar og í sumum tilfellum hreinlega að halda heimilinu gangandi.
Rósa Ingólfsdóttir heitin líkti hugsun kvenna við blúndu og vildi meina að á meðan karlmenn hugsuðu línulega fléttaðist hugarfar kvenna í alls konar krúsindúllur og mynstur. Hafi svo verið hefur blúndan skilað konum ómældri hæfni til að hugsa út fyrir rammann og finna leiðir til að bjarga sér þar sem línan sér ekkert nema ófærur. Blúnda stendur í hugum margra fyrir mýkt og viðkvæmni en hún er sterkari en margur hyggur. Þegar búið er að flétta saman þræðina halda þeir vel og endast oft lengi.

Prjónavél
Ríflega tvöþúsund prjónavélar
Knipplingar eru einmitt á meðal þess sem konur sköpuðu sér aukatekjur með að búa til. Þær hekluðu einnig milliverk í sængurfatnað og svo saumuðu þær út. Þær fundu líka leiðir til að nýta allt sem til féll og gera úr því eitthvað fallegt. Nefna má að þegar hernámslið Breta fór héðan skildu þeir eftir heilmikið af ullarteppum. Konur gerðu úr þeim svokallaða „porterar“ en þeir voru hengdir fyrir hurðir til að halda dragsúgnum frá. Sumar konur saumuðu í ullina mynstur og þar með var einfalt grænt eða grátt teppi orðið híbýlaprýði. Margir þeirra sem nú eru komnir vel yfir miðjan aldur minnast þess líka að hafa sofið á lökum gerðum úr samansaumuðum hveitipokum.
Árið 1920 voru fluttar til Íslands í kringum 800 prjónavélar. Nærri tíu árum síðar voru þær 2364. Bak við hverja vél var ein eða fleiri konur og þær nýttust til gríðarlegrar framleiðslu. Allur nærfatnaður þjóðarinnar var prjónaður á þannig vélar. Auk nærfatnaðarins voru prjónaðar peysur, sokkar og fleira. Hægt var að stilla vélarnar á mismunandi hátt og fá þannig breytileg mynstur, þéttleika og fleira.
Stétt matselja verður til
Á kreppuárunum á þriðja áratug síðustu aldar streymdi fólk inn í borgina í leit að atvinnu. Mikil húsnæðisekla var í Reykjavík og margir leigðu kytrur í kjallara og hanabjálka á háalofti þar sem engin eldunaraðstaða var. Þá varð til þörf fyrir einhvern til að elda mat fyrir þessa leigjendur og stétt matselja varð til. Sumar voru aðeins með tvo til þrjá kostgangara heima hjá sér en dæmi voru um ungar konur, nýútskrifaðar úr húsmæðraskóla sem leigðu út húsnæði og seldu mat til allt að þrjátíu manns. Til eru listar yfir hversu margar matseljur voru starfandi á skömmtunarárunum því kostgangararnir létu þær hafa skömmtunarseðlana sína. Aðeins einn matsali var starfandi. Upp úr 1930 fór að draga úr starfi matseljanna. Konurnar auglýstu þjónustu sína í blöðum og sumar tóku að sér að gera við föt og sáu jafnvel um þvotta fyrir kostgangarana. Ekkjur og einhleypar konur gátu haft í sig og á með þessu.
En fleira gat skapað tekjur en matseld. Vefarar gerðu teppi bæði á vegg og gólf og í þeim lá heilmikil vinna meðal annars úr efnisafgöngum. Á stríðsárunum varð svo til mun meiri eftirspurn eftir þvottakonum en áður. Mikil umsýsla var í kringum þvotta á fyrra helmingi síðustu aldar og konur störfuðu lengi við að taka þvotta fyrir efnameiri heimili. Á stríðsárunum fóru þær að þvo fyrir Breta og þá jukust tekjurnar. Heimildir eru fyrir því að vatnsskortur hafi orðið í Reykjavík á þeim árum því svo mikill var þvotturinn.
Saumað og soðið niður
Svo komu saumavélarnar og þá opnaðist hagleikskonum möguleiki á að skapa sér vel launaða atvinnu. Þær gátu nefnilega framleitt mun meira en áður og jafnvel séð fyrir fjölskyldu með því að sníða og sauma alls konar fatnað. Oft var setið langt fram á kvöld við saumavélarnar bæði við að sauma á fjölskyldumeðlimi og fólk úti í bæ. Það þurfti líka að gera við dúka af veitingastöðum, en almennt voru borð dúklögð á öllum veitingahúsum og reykingar leyfðar í salnum. Þá komu oft brunagöt í dúkana.
Konur stunduðu líka útiverk og niðursuðu. Sulta, saft og fleira var unnið og selt frá sumum heimilum. Grasakonan var einnig mikilvæg og sá fyrir sér með tejurtum, smyrslum og seyðum. Hattagerðarkonur voru margar í Reykjavík meðan engin kona fór hattlaus út úr húsi. Sumar unnu heima við að búa til blóm og annað skraut á hatta fyrir hattagerðarkonurnar og talsverða lagni þurfti til að setja saman fallegt hattskraut. Nú og svo þurfti einhver að búa til öll blómin á páskaeggin þegar þau fóru að koma í búðirnar og bolluvendina.
Á þessum árum gengu konur í silkisokkum og þeir voru dýrir. Sumar bjuggu svo vel að eiga sokkaviðgerðarvél. Hún er til að gera við silki- og nælonsokka og margar konur höfðu vinnu af því. Þegar kom lykkjufall voru sokkarnir sendir í viðgerð. Borgað var fyrir hverja lykkju. Konur þóttu misflinkar í viðgerðunum og stundum voru sokkarnir sendir milli landshluta. Fleiri konur en nútímamenn grunar sóttu nám utanlands til dæmis í hljóðfæraleik og tóku nemendur heim. Aðrar kenndu skrift, stærðfræði og fleira í einkatímum.
Bakað, smurt og spáð í spil
Upphaf veisluþjónustu á Íslandi var í heimahúsum. Sumar konur voru þekktar fyrir að baka sérlega góðar kökur og voru oft fengnar til að baka fyrir veislur bæði pönnukökur og annað bakkelsi. Þær gerðu sömuleiðis smurbrauð og fleira. Enn í dag baka konur kransakökur í fermingarnar. Ef kona var svo heppin að hafa náð að verða sér út um ísgerðarmót gat hún gert sér mat úr því. Ísinn var settur í mótið og það sett út í snjóinn með salti kring og eftir ákveðinn tíma var ísinn tilbúinn.
Á tuttugustu öld breyttist einnig hártískan og nú var ekki lengur nóg að flétta hárið á hverjum morgni. Hollywood sendi hingað kvikmyndir þar sem konur með stutt bylgjað hár skinu á hvíta tjaldinu. Þá rann upp tími hárgreiðslukvennanna. Þær sem þóttu sérlega flinkar að „ondúlera“ fengu heim til sín aðrar konur að ekki sé talað um þegar permanentið kom. Það var sett í heima og sumar misstu reyndar hárið vegna þess en það er önnur saga og það minnir óneitanlega á að fegurðin hefur alltaf kostað fórnir. Sumar buðu líka handsnyrtingu og fótsnyrtingu.
Ein stétt kvenna hefur svo í flestum tilfellum kosið að fá viðskiptavini sína heim til sín og það eru dulrænar konur sem skyggnast inn í framtíðina með hjálp spila og kaffidreggja í bolla. Þótt í dag starfi sumar þeirra hjá Sálarrannsóknarfélögum eru enn margar sem taka á móti fólki heima og leiðbeina því varðandi næstu skref í lífinu.
Þær eru nokkuð margar sem lærðu að vélrita fyrir tíma tölvunnar og tóku að sér að vélrita ritgerðir fyrir stúdenta, verslunarbréf og margvísleg skjöl. Enn í dag vinna konur við þýðingar eða skriftir í hjáverkum þótt tölvan hafi tekið við af ritvélinni. Sumar unnu við bókhald og það er aukastarf einhverra kvenna. Prjónakonur eiga líka góða möguleika á að skapa sér aukatekjur með því að prjóna lopapeysur fyrir túrista sem streyma til landsins. Nú á tímum hafa svo skapast ótal fleiri möguleikar á að sinna margvíslegum verkefnum heiman frá sér og drýgja tekjurnar. Iðnin fer ekkert úr genum Íslendinga svo hjáverkin munu ábyggilega halda áfram.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.