Kjörsókn kvenna snarminnkar á efri árum

Kjörsókn kvenna minnkar á efri árum en það sama á ekki við um karla. Ef eitthvað er, eru eldri karlar mun líklegri til að mæta á kjörstað en eldri konur. Í skýrslu starfshóps um leiðir til að auka kosningaþátttöku í borgarstjórnarkosningunum á laugardag, kemur fram að ekki séu til tölur um kjörsókn eftir aldri nema í einum sveitastjórnarkosningum, kosningunum fyrir fjórum árum.  Almennt hefur þó kjörsókn dregist verulega saman í sveitastjórnarkosningum frá aldamótum. Á árunum 2002 til 2014 minnkaði hún um 21 prósent í Reykjavík og um 16,7 prósent á landsvísu. Í áðurnefndri skýrslu segir: „Aldursgreind gögn um kjörsókn á Íslandi síðan 2014 sýna að kjörsókn kvenna snarminnkar á efri árum langt umfram það sem gerist hjá körlum. Þannig eru konur líklegri til að kjósa en karlar í öllum aldurshópum fram að eftirlaunaaldri. Í öllum tilfellum sem mæld hafa verið taka karlar fram úr konum einhvern tímann eftir 65 ára aldur og jókst munurinn gríðarlega í öllum tilfellum eftir áttrætt. Ekki hefur verið rannsakað hvað veldur svo starfshópurinn viti, en í bréfi formanns öldungaráðs Reykjavíkur, Guðrúnar Ágústsdóttur, til starfshópsins, dags. 10. Janúar 2018, og grein sem hún skrifaði fyrir síðustu þingkosningar er nefnd sú mögulega skýring að konur hafi á þessum aldri ekki aðgang að einkabílum á sama hátt og karlarnir. Önnur hugsanleg skýring er svo hrakandi heilsa þó erfitt sé að skýra kynbundna muninn á þann hátt. Í ljósi þess að einungis eru til aldursgreind gögn tæplega fjögur ár aftur í tímann er lítið hægt að fullyrða um þróun þessarar kjörsóknar en það verður áhugavert að fylgjast með sömu aldurshópum í framtíðinni og komast að því hvort um tiltekna kynslóð er að ræða eða almennari línur.“

Eins og sjá má af töflunni er kjörsókn eldri karla heldur meiri í öllum aldursflokkum í síðustu alþingiskosningum og dregur sundur með kynjunum með hækkandi aldri. Línurnar eru ekki jafn skýrar þegar kjörsókn eldra fólks er skoðuð í síðustu borgarstjórnarkosningum. Fleiri konur á aldrinum 65 til 69 ára kjósa en karlar en svo snýst dæmið við og dregur jafnt og þétt í sundur með kynjunum. Sérstaka athygli hlýtur að vekja að einungis 57 prósent kvenna sem komnar eru yfir áttrætt mæta á kjörstað en næstum 71 prósent karla. Það verður því afar fróðlegt að sjá hvort það sama gerist í kosningunum á laugardag.

 

Ritstjórn maí 24, 2018 07:17