Ég búin að prófa að vera ellilífeyrisþegi

Gróa Hreinsdóttir er margra manna maki þegar kemur að tónlistarstörfum og hefur komið víða við í þeim efnum. Saga hennar er efni í heila bók svo margt hefur á daga hennar drifið. Hún var bráðung farin að spila undir hjá kórum og þegar hún lauk píanókennaraprófi var ferilinn þegar orðinn langur. Gróa er komin á þriðja aldursskeiðið og er eftirsóttur starfskraftur en hún réði sig nýlega í organistastarf á höfuðborgarsvæðinu.

Gróa ólst upp á Suðurnesjunum og mikið við tónlist. „Pabbi spilaði á klarinett, saxófón og þverflautu og var einn af stofnendum Lúðrasveitar Keflavíkur. Ég fór oft með honum þegar sveitin spilaði einhvers staðar. Svo var hann fyrir slysi og missti heyrnina á öðru eyranu og var ráðlagt að hætta að vera í hávaða. Hann átti trésmiðaverkstæði og varð að hætta á báðum stöðum. Mamma spilaði á gítar þannig að það þótti sjálfsagt að ég færi í tónlistarskólann 6 ára, fyrst á blokkflautu og svo á píanó m.a. hjá Ragnari Björnsyni sem var skólstjóri Tónlistarskólans í Keflavík og dómorganisti. Ragnar var stórhuga, bæði strangur og góður og ætlaði að gera snillinga úr okkur þremur stelpum. Hann lét okkur æfa erfið verk en það var til þess að ég leitaði í nóturnar heima og þjálfaði þannig óafvitandi nótnalestur og get spilað nánast hvað sem er af blaði. En píanóið var ekki nóg fyir mig, ég fór að læra á selló hjá Pétri Þorvaldssyni til að geta spilað í skólahljómsveitinni því ég öfundaði svo krakkana sem voru í henni.“

Gróa ólst upp í næsta húsi við Stapann og stóð stundum og horfði á þegar fólk var að fara á kirkjukórsæfingar. „Ég fór að hlusta á æfingar og svo að syngja með, 13 ára. Jón Ísleifsson kom til að æfa Friður á jörðu með kórnum og einsöngvurum, hann stjórnaði og lék undir. Á einni æfingunni segir einhver: „Láttu stelpuna spila, hún spilar á píanó.“ Það endaði með að ég spilaði á píanóið á tónleikunum. Við fórum í tónleikaferðalag með verkið og þegar við komum til Akureyrar uppgötvaðist að það hafði gleymst að panta hótelherbergi fyrir undirleikarann, líklega af því að ég var bara „krakkinn“. Ég var því heila nótt á vergangi og í messu um morguninn steinsvaf ég,“ segir Gróa og hlær að þessari makalausu minningu.

Tónlistin á mig
Gróa var á undan í skóla, var glögg á tölur og fór í Verzlunarsklólann. „Ég var komin til Reykjavíkur í herbergi úti í bæ 15 ára. Fyrsta árið var ég í leiguherbergi hjá ungum leigubílsstjóra. Myndi einhverjum detta þetta í hug í dag?“

Framtíðin var eiginlega ráðin þarna. „Ég hafði verið tvö ár í Versló og í Tónskóla þjóðkirkjunnar á sama tíma, ég lærði á orgel hjá Marteini Hunger dómorganista og sótti tíma hjá dr. Róbert Abraham Ottósyni í bóklegu greinunum. Jón Ísleifs lét mig hafa lykla að Neskirkju þannig að ég gat auðveldlega æft mig. Ég var komin á þriðja ár í Versló en alltaf að stússast í tónlistinni og svo uppgötvaði ég að ég hafði ekkert lært í margar vikur. Ég fór til mömmu og pabba og sagði: „Þetta gengur ekki lengur. Tónlistin á mig, ég verð að sinna henni.“ Þau tóku þessu með jafnaðargeði og skildu þetta enda höfðu þau keypt handa mér flygil og ég var þá þegar búin að stjórna Karlakór Keflavíkur o.fl. Ég lærði svo kórstjórn á Marteini Hunger síðar.“

Árið 1974 ákvað Gróa að fara í píanókennaradeildina í Tónlistarskóla Reykjavíkur. Foreldrar hennar höfðu þá keypt íbúð í Kópavogi til þess að Gróa gæti verið nær skólanum en hún var á sama tíma vinna í tónlistinni fyrir sunnan eins og hún segir um Suðurnesin.
„Eftir jólamessu í Stapanum árið 1976 var sagt við mig: „Heyrðu, okkur vantar organista, geturðu ekki spilað í messu á nýársdag?“ Og þar var ég í organistastarfi í níu mánuði eða þar til ég sagði; ég verð að hætta þessu því ég þarf að læra fyrir Tónlistarskólann en ég kenndi líka og keyrði alltaf á milli. Þegar maður er heimamanneskja er ætlast til alls mögulegs af manni. Ég útskrifaðist 1982 úr píanókennaranáminu eftir að hafa frestað því, eignast barn og skilið. Þá langaði mig að gera eitthvað alveg nýtt,“ segir hún enda þá búin að vera lengi að. „Það var auglýst skólastjórastaða við Tónlistarskóla Skagafjarðar og vinkona mín og ég keyrðum norður og sungum allan tímann allt sem við sögðum. Ég fór í viðtal en svo var hringt í mig og þá höfðu sveitungarnir safnað undirskriftum fyrir mann sem átt heima þarna. Ég var spurð hvort ég gæti hugsað mér að koma sem kennari og ég var til í það. Ég fór norður 1982 og var í orlofshúsi yfir veturinn en þurfti að losa það í maí. Ég var eini menntaði píanókennarinn þarna en var bara þennan eina vetur og stjórnaði líka Rökkurkórnum en ég hef haldið tryggð við marga á staðnum.“

Fór aftur á Suðurnesin
„Ég fór þá aftur suður eftir. Þá var hringt í mig frá krikjunni í Njarðvík, það vantaði organista. Ég hef eiginlega ekki losnað undan kirkjustarfi síðan. Þetta var 1985 og ég kenndi samhliða starfinu. Ég var seinna skólastjóri í Garði og líka um hríð í Vogunum. En svo var ég rekin frá Njarðvík eftir að ég átti barn. Þeir notfærðu sér bréf sem ég hafði sent um að endurvekja barnakórinn því annars væri ekki víst að ég myndi vilja koma aftur til starfa og þeir litu á það sem uppsögn. Og það máttu þeir ekki gera.
Ég sótti þá um organistastarf í Seljakirkju og þar var ég í fimm ár. Ég stóð svolítið uppi í hárinu á prestinum og var sagt upp störfum. Ég var boðuð á fund og mér boðið að segja upp. Það datt af mér andlitið. Ég sagðist ekki skrifa undir nema að ráðfræra mig við lögfræðing og mitt starfsfélag. Þá var mér rétt uppsagnarbréf og sagt upp störfum án skýringa. Þetta var sjokk. En kirkjan má gera þetta vegna þess að organistar eru starfsmenn safnaðanna, sóknarnefndir ráða ferðinni og geta þess vegna hagað sér eins og einkafyrirtæki.
Ég fór að svipast um eftir vinnu, vildi flytja úr hverfinu og ekki vera í þessum söfnuði. Ég vann í Landakotsskóla við tónmennt og var í kórastarfi en það birtist viðtal við mig í Séð og heyrt undir fyrirsögininni: „Á fimm börn og stjórnar níu kórum“. Ég var einstæð móðir og þurfti að vinna fyrir okkur og langaði til að geta boðið börnunum upp á íþróttir og tónlistarnám. Þetta var dásamlega gaman, þetta var svo fjölbreytt en börnin liðu fyrir það að vera mikið ein.“

Flutti út á land
Árið 2007 var auglýst afleysingastaða skólastjóra í Hafralækjarskóla og Gróa sótti um. „Mér fannst hljóma vel að fara út í sveit með börnin og langaði að kynnast betur afrísku marumba-hljóðfærunum. Þetta var áskorun en þarna vorum við í 1 og ½ ár. Þá ákváðu skólastjórahjónin að koma ekkert til baka. Skólastjórastöðunni var þá breytt í deildarstjórastöðu og skólastjóri grunnskólans gerður að skólastjóra yfir báðum skólunum og leikskólanum. Ég talaði við Kennarasambandið og var sagt að miðað við starfslýsingu væri þetta skólastjórastaða. Þau hvöttu mig til að sækja um og gera síðan athugasemd við starfslýsinguna. En ég fékk ekki stöðuna. Það voru tveir aðrir umsækjendur, annar var frá Suður-Ameríku en hafði búið eitthvað á Austurlandi, sá fékk stöðuna. Hann talaði enga íslensku og það hafði verið aulglýst eftir píanókennara. Hann var fiðluleikari en konan hans kunni að spila á píanó. Þau fengu saman stöðuna. Ég kærði þetta og vann málið en þeir neituðu að borga mér samkvæmt útreikningum miðað við það sem ég hafði kennt sem skólastjóri.“
Þetta var 2009 og afleiðingar hrunsins áþreifanlegar. „Við fluttum á Hellu í hús sem strákurinn mínn átti, ég hóf störf sem organisti í Hveragerði og þar vorum við til 2012. Staðan var auglýst sem rúmlega 90% staða. Svo var komið til mín og staðan minnkuð niður í 70%. Ég spurði hverju á ég þá að sleppa? Engu, við viljum að þú haldir áfram. Ári seinna var komið aftur til mín og nú átti staðan að vera 50%. Þá sagði ég: Nei, ég læt ekki fara svona með mig. Það er ótrúlegt hvernig farið er með fólk og ekki hjálpar að vera kona.“

Eftir að Gróa kom í bæinn frá Hveragerði vantaði hana vinnu. „Ég komst að því að atvinnuleysissjóður hjálpar fólki að öðlast ný réttindi með námi. Mig hafði alltaf langað til að verða rútubílstjóri, afi keyrði rútur og ég man eftir mér pínulítilli standa við hliðina á honum þegar hann var að keyra. Ég fór líka í Próment til að rifja upp bókhald og stofnaði seinna fyrirtækið Muzzbuzz. Ég byrjaði að keyra hjá Teiti eftir meiraprófið en langaði svo að fara í ferðamannabransann á sumrin og hef verið þar síðan. Mér finnst þetta svakalega skemmtilegt,“ segir Gróa sem var 57 ára þegar hún tók meiraprófið.

Kulnun í Covid

Með Jónínu Aradóttur og Guðbjörgu Magnúsdóttur söngkonum

Með Jónínu Aradóttur og Guðbjörgu Magnúsdóttur söngkonum.

„Ég lét svo annan draum rætast. Ég flutti árið 2015 til Drammen í Noregi. Mér var boðin hálf staða þar en ég sagði nei og stuttu síðar var hringt aftur og ég spurð hvort ég myndi vilja koma ef staðan yrði hækkuð upp í 70%. Seinna spurði ég prestinn af hverju þeir vildu frekar auka starfshlutfall við mig en ráða einhvern annan. Veistu það ekki svaraði hann. „Það er útgeislunin þín.“ Þessi tími var bæði skemmtilegur og lærdómsríkur fyrir okkur mæðgur. Ég keypti íbúð sem ég gerði upp dásamlega og sé eftir.“

Covid var erfiður tími fyrir marga, ekki síst tónlistarfólk. „Það fór með mig að geta ekki starfað. Ég reyndi allt mögulegt. Það sem hélt í mér lífinu var að fara upp í kirkju, setjast við píanóið eða orgelið og spila. Ég setti símann á nótnastatíf og tók upp og þetta efni er á Youtube. Þegar þau í kirkjunni sáu hvað ég gerði báðu þau mig að búa til vídéó, klippa og senda út. Þannig varð til efni sem var sett á vef kirkjunnar og samfélagsmiðla. Það gaf mér mikið að vita að einhverjir væru að horfa og að þetta gæti glatt fólk.“

Gróa segir að þarna hafi hún fundið fyrir kulnun. „Ég hafði fundið fyrir þreytu heima og hugsaði oft – hvenær get ég hætt að vinna? Það var samt allt annað andrúmsloft úti, miklu rólegra tempó og vinnan mun þægilegri og ekki ætlast til of mikils af mér.“

Gróa við orgelið í Drammen.

Eftirsóttur starfskraftur á eftirlaunaaldri

Eftir þetta fór Gróa að koma heim á sumrin og keyra. „Ég greindist með smá gigt í fingrum, en kirkjurnar úti eru svo kaldar, og fór í veikindaleyfi. Að vera atvinnulaus er bara ekki í mínum beinum. Ég ætlaði að vera á Kanaríeyjum síðastliðinn vetur en þá vantaði organista í Digraneskirkju og Hjallakirkju í eitt ár. Ég hafði samband og presturinn sagði: „Guð hefur bænheyrt okkur, hann er búinn að senda okkur organista“. Ég tók starfið að mér og líkaði mjög vel og nú vilja þeir ekki sleppa mér. Það er svo gaman að vera eftirsótt sem organisti komin á þennan aldur, 68 ára. Ég hef gaman af að kynnast fólki og ég er við góða heilsu, full af orku og alltaf til í eitthvert fjör. Ég er búin að prófa að vera ellilífeyrisþegi. Það á ekki við mig að gera ekki neitt.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn september 6, 2024 07:00