Hugsanlega mætti gera það að rannsóknarefni hvers vegna sumir sjá aðeins tækifæri og lausnir þar sem aðrir koma ekki auga á annað en ófærur og hindranir. Það væri sannarlega fróðlegt að skoða niðurstöður úr slíkri könnun en Þóra Bergný Guðmundsdóttir væri án efa efst á blaði þegar leitað yrði að þeim framkvæmdaglöðu og hughraustu. Hún segir að sig hafi aldrei skort hugmyndir þótt núorðið sé hún dugleg við að leita stuðnings annarra við að hrinda þeim úr vör.
Þóra Bergný rekur farfuglaheimilið Hafölduna og gistiheimili í gamla sjúkrahúsinu á Seyðisfirði. Eftir að hafa ferðast til Indlands og heillast af menningunni þar ákvað hún að kaupa þar gamalt hús í Fort Cochin í Keralahéraði á Indlandi, gera það í stand og setja á fót hótelið, athvarfið og endurnæringarmiðstöðina Secret Garden. Þóra býr yfir vetrartímann á Indlandi en eins og hún er dugleg við að benda á gerir hún þetta ekki ein.
„Faizal Abdulkadher kynntist ég vegna þess að ég tók mér far með rickshaw sem hann keyrði en hann er núna farmkvæmdastjóri Secret Garden. Hann er minn trúfasti vinur og sér um þetta allt. Svona eign úti á Indlandi þarf svo mikla aðhlynningu og hann er alltaf að dytta að þótt allt sé byggt úr harviði er þetta fljótt að grotna niður, þaksperrur og klæðingar þarf alltaf að vera að endurnýja. Á hverju ári kem ég í allt uppfært og fínt. Framkvæmdastjórinn minn hér á Íslandi er Benedikta Guðrún Svavarsdóttir og það er sama sagan hún er mér ómetanleg. Ég verð líka að nefna son minn, Dýra Jónsson, sem er fæddur inn í allt þetta stúss og rak með mér Farfuglaheimilið sem ungur maður og er nú frumkvöðull í ferðaþjónustu í bænum. Hann rekur Hótel Ölduna og tvö eðal veitingastaði; Sushi staðinn, Norð Austur, Sushi & Bar, sem er rómaður sem sá allra besti á landinu og veitingastað Öldunnar.“
Sjóböð og sána æðaleikfimi
Útsýnið úr matsal Haföldunnar er engu líkt. Við blasir lognkyrr fjörðurinn og tvö risastór skemmtiferðaskip. Þóra er ein af þeim sem stunda sjóböð og það truflar hana ekkert þótt skip liggi úti á ytri höfninni.
„Þetta er svo mikil æðaleikfimi að skipta svona milli hita og kulda. Við eigum hérna niður á bakkanum samfélagsánu,“ segir hún og bendir niður brekkuna frá Haföldunni að fjöruborðinu. „Við erum með sjóð og kaupum saman við til að kynda hana, förum í sjóinn og svo í sánuna.“
Og svo stendur til að spilla þessu tæra, glampandi vatnsyfirborði með flotkvíum undir fiska. Þú hefur staðið meðal þeirra fremstu í baráttunni gegn laxeldinu. Heldur þú að baráttan sé vonlaus?
„Nei, ég vil ekki segja að þetta sé vonlaust en ég veit að það er löngu búið að ákveða að þetta eigi að gerast. En það verður bara að hnika því og stjórnvöld verða að viðurkenna skömmina. Þau gera það ekki ótilkvödd,“ segir hún með áherslu.
Stjórnvöld þurfa að viðurkenna skömm sína
Það er ótrúleg samstaða gegn þessu hér í firðinum. 75% íbúanna eru á móti þessu og vart hægt að menn geti haldið áfram þegar þeir mæta svo mikilli andstöðu.
„Já, og þar að auki brjótandi landslög hægri vinstri,“ segir Þóra. „Framkvæmdin er í trássi við vitalög, farið er inn á ofanflóðahættusvæði og Farice-strengurinn liggur hér í botni fjarðarins og þeir eru að fara inn á hans helgunarsvæði og þetta er stutt af stjórnvöldum. Sigurður Ingi undirritaði strandsvæðaskipulag og með því öll þessi lögbrot. Það er engin sanngirni í því að setja borgarana í þá stöðu að verja náttúruna og lög landsins. Það á að vera á annarra borði en okkar. Þetta er búið að kosta ómælda vinnu fjöldamargra. Við höfum þurft að fylgjast með, afla gagna, tala við fólk og skrifa greinar til að vekja athygli á þessu. Um leið og ég heyrði af þessu settum við af stað þessa undirskriftasöfnun og allir svöruðu strax, nei. Við erum öll sammála um það.
Einhverjir örfáir tala um atvinnutækifæri en hér skortir okkur fyrst og fremst vinnuafl. Hingað kemur fólk alls staðar að úr heiminum að vinna störfin. Það er sko nóg að gera í svona litlu samfélagi. Þetta er bara eins og stórt heimili í sveit. Við eum stanslaust að taka á móti gestum, gefa þeim að borða og sinna þörfum þeirra, reyna að skemmta þeim og skapa þeim afþreyingu. Það tínist svo margt til þegar svo stórir hópar fara um bæinn á hverju ári, bæði samgöngur á sjó og landi og fleira og fleira það geta ekki allir verið að búa um rúm.
Þetta er alltaf sama fólkið. Sá hópur vildi rífa gömlu húsin. Við vorum nokkur hér á móti því að eyðileggja Lagarfljótið. Guð minn góður, það er orðið að drullupolli og allt út af einhverju álveri á Reyðarfirði. Nú vill þetta sama fólk demba laxeldi hér í fjörðinn, allt í nafni einhverra atvinnutækifæra. En handa hverjum? Einhverjum sem vilja vinna á vöktum í álveri á Reyðarfirði. Er það eftirsóknarverðast? Með okkur í liði er einnig maður sem sjálfur rak sjókvíaeldi hér á árum áður. Hann hefur sagt að drullan sem safnaðist upp fyrir neðan kvíarnar sitji þar enn föst. Það er ómetanlegt að heyra það sem hann hefur að segja því hann hefur reynsluna og veit hvað hann er að tala um. “
Útsjónarsemi og natni hvarvetna
Seyðfirðingar hafa verið einstaklega natnir og útsjónarsamir að nýta það sem fyrir er í firðinum og byggja á því. Hér er mikið listalíf og handverksmenning. Allir þekkja LungA listahátíð unga fólksins og víða um bæinn eru gallerí.
„Já, við stofnuðum fyrirtækið Frú Lára, nokkrar konur hér í bænum og vorum með kaffihús og handverksmarkað, næsta samfélagsverkefni var Skaftfell, listamiðstöðin okkar og félagsheimilið blómstrar í höndunum á mjög fínni konu. Þar eru bíósýningar í hverri viku og þá sýndar nýjustu myndir. Það er mun meira innra líf hér en í mörgum bæjum þar sem ég þekki til. Maður finnur ekki alls staðar þennan anda.“
Þóra er lærður arkitekt og við fyrstu sýn kann að virðast að ekki sé mikið að gera fyrir manneskju með þá menntun í þorpi austur á fjörðum. Hefur þú starfað eitthvað við þitt fag?
„Já, mikið,“ segir hún með áherslu. „Ég hef komið mikið við sögu í endurgerð gömlu húsanna hér. Þau voru um það bil að verða að haugamat og raun ástæða þess að ég fór að læra arkitektúr. Ég hafði áhuga á að bjarga þessum húsum. Svo eru þau komin í tísku og ungt fólk farið að kaupa þau og gera upp og ég hef komið að því í mörgum tilfellum. Það má breyta húsum að innan þótt þau haldi útliti sínu hið ytra. Það má laga þau að þörfum íbúanna. Við höfum lagt áherslu á að halda gluggagerð og klæðningum.“
En hefur þú alltaf búið á Seyðisfirði?
„Ég er fædd hér og uppalin og mamma, amma og langamma líka. Ég er Seyðfirðingur í húð og hár. Pabbi var hins vegar úr Lóninu.“
Getur þú kannski hvergi annars staðar hugsað þér að búa?
„Jú, ég get búið hvar sem er en ég hef alltaf átt hér lögheimili og sný ávallt hingað aftur. Ég er búin að búa í þessum gamla síldarbragga í bráðum fimmtíu ár og þetta er að verða eins og hálfgert minjasafn.“
Laðar til sín fólk
Þóra hefur einstakt lag á að draga að sér fólk. Hún tekur öllum af ljúfmennsku og allir finna að í návist hennar er óhætt að koma til dyranna eins og maður er klæddur. Þegar Lifðu núna leit inn bjuggu í hjólhýsi fyrir neðan húsið tvær ungar, þýskar konur. Þær eru hluti af samtökum í heimalandinu þar sem hluti af innvígslu þeirra í iðn sína er að halda út í heim og ferðast, bjóða fram þekkingu sína og læra af kollegum á þeim stað. Christine er smiður og Elizabet garðyrkjumaður.
„Ég hitti þær hér inni í bæ,“ segir Þóra. „Hostelið var fullt og þær höfðu ekki gistingu. Þær höfðu heldur ekki fundið margt að gera svo ég bauð þeim að koma og búa í þessu hjólhýsi. Þetta er ábyggilega fyrsti caravan eða hjólhýsi á landinu. Pabbi smíðaði hann, var að því inn í bílskúr og það mátti enginn vita hvað hann var að gera. Þær tvær ganga hér í öll störf og það þarf aldrei að biðja þær um neitt. Þær bara gera það.“
Hausinn alltaf á fullu
Greinilegt er að þú ert mjög félagslynd, hefur gaman af fólki og hefur lag á að laða það til þín. Auk þess ertu framkvæmdamanneskja og hikar ekki við að vaða í hlutina. Þarftu alltaf að vera að ýta einhverju úr vör?
„Ja, hausinn á mér er alltaf á fullu. Ég er frekar hugmyndarík. Ég er ekki lagin sjálf en lagin við að fá aðra til að gera hlutina fyrir mig en já ég er alltaf að sjá fyrir mér eitthvað nýtt og eitthvað sem hægt er að fá aðra til að gera. Nú vantar hér hótel aftur. Á sínum tíma átti að byggja hér stórt hótel en við lögðumst gegn því nokkrar konur. Við lögðum til að nota frekar gömlu húsin sem voru að drabbast niður, stóðu auð og hlutverkslaus. Þá varð til þetta concept, húsahótel. Í stað þess að byggja stórt hótel fyrir utan bæinn var farið í að endurbyggja þessi hús og hótelið er í mörgum minni húsum.
Nú er þetta ekki nóg til að anna þessum mikla gestagangi og aftur farið að tala um að byggja hótel fyrir utan bæinn. Ég var að stinga upp á því við strákana sem eru í þessum pælingum að við ættum að kaupa minni gerðina af skemmtiferðaskipi, vegna þess að það er verið að sigla þeim til Indlands í brotajárn það kostar og er vesen, og sigla því hér í land og gera úr því hótel. Það væri ódýrara og yrði ábyggilega geggjað flott hótel. En það þarf einhvern hóp til að standa að svona verkefni og koma því í framkvæmd. En mér finnst hugmyndin góð og held að margir væru tilbúnir að gista á slíku hóteli.“
Það er óskaplega fallegt á Seyðisfirði og þrátt fyrir að miðbærinn sé fullur af fólki upplifa menn enn kyrrðina og notalegheit lítilla sjávarplássa á Íslandi.
„Já, það er rosalega gott að búa hérna. Þetta er mjög gott samfélag. Ég held, kannski, af því að við höfum alltaf verið svona hlið inn í Ísland höfum við aldrei fundið fyrir þessari útlendingaandúð sem talað er um í blöðunum. Hún bara finnst ekki hér. Fólk af öllum mögulegum þjóðernum dvelur hér mislangan tíma og margir sem koma hingað í sumarvinnu er fyrr en varir búið að kaupa sér hús og ætlar að setjast að. Að vísu kom svolítið rót á samfélagið þegar frystihúsið lokaði. Þá vissi margt fólk ekki hvert það ætti að líta.“
Byggir athvarf í fjöllunum á Indlandi
Flestir gesta hennar á Seyðisfirði koma seint og fara snemma morguns daginn eftir. Úti á Indlandi kemur hins vegar fólk og dvelur lengi. Þar er boðið upp á jóga á hverjum morgni og Þóra hefur verið iðin að finna og hefja samstarf við aðila sem geta kennt og miðlað öðrum af þekkingu sinni. Til hennar hafa komið ritlistarhópar með Björgu Árnadóttur, fólk í leit að ayurveda lækningum og áhugafólk um hugleiðslu.
„Ég fer út í lok október byrjun nóvember á hverju ári,“ segir hún. „Tek ferjuna út til Danmerkur. Þar á ég rætur, ég lærði þar og á þar bæði vini og fjölskyldu. Þaðan flýg ég svo til Indlands og er þar í mínu hosíló Secret Garden þar til í byrjun mars þá fer ég gjarnan sömu leið heim. Því ef ég tek ferjuna heim þá er ég komin heim í ferðalok. Við Seyðfirðingar elsku Norrænu, ferjuna okkar sem hefur tengt okkur við umheiminn í hálfa öld. Ég mæli með því að sigla með henni. Þetta er svo notalegt skip og lúxus um borð, bæði góðir veitingastaðir og ýmislegt við að vera.“
Ekki kemur eingöngu til af góðu að Þóra dvelur á Indlandi á veturna. Hún býr undir Bjólfinum, bæjarfjalli Seyðfirðinga, á rauðu snjóflóðasvæði. Hún má þess vegna ekki vera með starfsemi þar á veturna og jafnvel helst ekki búa þar sjálf. Hinum megin fjarðar er Strandartindur sem aurskriða féll úr fyrir fjórum árum og olli gríðarlegum skemmdum. Þóra segir íbúa þrátt fyrir þetta æðrulausa. Þau séu vön hættunni og viti af henni. Óttaleysið sé hins vegar ekki til marks um andvaraleysi. Menn haldi vöku sinni, fylgist vel með aðstæðum og verið sé að byggja upp ofanflóðavarnir. En er hún eitthvað farin að hugsa um að hægja á?
„Nei, ég get með sanni sagt að ég geri ekki annað en það sem mér dettur í hug,“ segir hún kímin. „Ég er með yndislega framkvæmdastjóra og fólkið í kringum mig hugsar um mig eins og blóm í vasa. Það er langt frá því að ég sé stressuð eða hafi þungar skyldur á herðunum. Ég hef það mjög notalegt. Ég lifi ekki heilsusamlegu lífi hér en úti fer ég í jóga á hverjum degi og er þess vegna ennþá liðug. Þar eru bestu nuddarar í heimi á hverju götuhorni og ég fer mikið í nudd.
Svo er ég að byggja athvarf uppi í fjöllunum á Indlandi fyrir mig, fjölskyldu, vini og kunningja. Þetta er stórt hús með góðum gestaherbergjum í 1700 m hæð yfir sjávarmáli, dásamlegt útsýni og heilnæmt loftslag. Það verður tilbúið eftir svona þrjú ár.“
Það má að lokum geta þess að Þóra á einnig lítinn kofa uppi á Fljótsdalshéraði þar sem sólar nýtur fram á kvöld en hún hverfur undir Bjólfinum síðdegis. Þangað fer hún til að jarðtengja sig og ná áttum ef hún telur sig þurfa á að halda.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.