Auður Jacobsen hefur alltaf haft gaman af að vinna. Hún er sextíu og átta ára gömul og ekki á þeim buxunum að fara á eftirlaun. Það er þó ekki vegna þess að hún eigi engin áhugamál og sjái fram á langa aðgerðarlausa daga ef hún er ekki í vinnunni þvert á móti. Auður tekur ríkan þátt í félagsstarfi og hefur gaman af fólki. Við hittum þessa líflegu og skemmtilegu konu á kaffihúsi um daginn.
Hvernig er það getur þú ekki hugsað þér að hætta að vinna?
„Nei, ég er ekki komin þangað ennþá,“ segir hún og brosir. „Bara alls ekki. Mér líður rosalega vel í vinnunni. Ég gegni mjög skemmtilegu starfi sem er breytilegt frá degi til dags og vinnufélagar mínir eru einstaklega góðir. Ég myndi sakna þeirra rosalega ef ég hætti að vinna. Nú og svo er vinnan mikill partur af lífinu. Maður fer á fætur til þess að mæta til starfa. Nei, ég sannarlega ekki tilbúin að hætta að vinna.“
Sveigjanlegur vinnutími en mikil ábyrgð
Auður vinnur hjá Dögum. Það er fyrirtæki sem sér um alhliða fasteignaumsjón eftir því sem hún segir allt frá því að skipta um peru og skúra gólfið upp í viðhald á búnaði og rýmum. Hún er í yfirmannsstöðu og ber ábyrgð á ákveðnum fjölda fasteigna.
„Ég er þjónustustjóri yfir ræstingum hjá þremur stórum fyrirtækjum. Vinnan mín er verkefnatengd og ég hef frjálsan vinnutíma en verð að skila mínum verkefnum vel hvort sem ég kýs að mæta, 8, 8.30 eða 9. Við erum með tæpa níu hundruð starfsmenn í vinnu. Dagar er mjög lifandi fyrirtæki og ég held að um það bil sextíu manns vinni á skrifstofunni og ég hef eignast marga vini þar. Ég hugsaði mér alltaf að hætta þegar ég yrði sextíu og sjö ára en þegar kom að því gat ég ekki hugsað mér það. Ég held að maður verði að vera tilbúin í kollinum til að hætta að vinna.
Vegna þess að þetta er verkefnatengd vinna er maður svolítið frjáls þótt maður sé með mikla ábyrgð því maður er ábyrgur gagnvart þeim fyrirtækjum sem maður er með. Ég sé um krefjandi verkefni og þetta er mjög gaman,“ segir hún.
En áttu þér þá engin áhugamál sem gætu tekið yfir þegar þú dregur þig í hlé?
„Jú, jú, við erum dugleg að ferðast erlendis og hér innanlands. Við eigum flott hjól og hjólum. Ég á stóra fjölskyldu og fullt af barnabörnum. Ég er í kvenfélaginu Hringnum og tek þátt í safna fyrir Barnaspítala Hringsins og er í Lions. Ég var að vinna í kosningunum um síðustu helgi, tók þar fimmtán tíma törn, kom svo heim og horfði á sjónvarpið fram á nótt. Svo það er nóg eftir.“
Byrjaði að vinna hjá ömmu í Agli Jacobsen
Það liggur þá beint við að spyrja hvernig kona með svona mörg áhugamál hafi almennt tíma til að vinna? Auður fer að hlæja en segir svo:
„Þetta er ekki svo mikið. Það eru fundir svona tvisvar í mánuði í félögunum. Við fórum til dæmis nokkrar úr Lions um daginn upp í Heiðmörk. Kópavogsmegin þar á Lions-klúbburinn trjálund og við þurfum að gróðursetja meira þar og svoleiðis.
Auður hefur komið víða við í atvinnulífinu frá því hún tíu ára gömul fór að hjálpa til ömmu sinni í búðinni, Agli Jacobsen, í Austurstræti. Það hefur alltaf skipt hana máli að gera gagn.
„Ég hef mjög gaman af því að vinna,“ segir hún. „Ég held raunar að ég hafi mest gaman af að vera innan um fólk. Það er númer eitt, tvö og þrjú.“
Pabbi Auðar, Úlfar Jacobsen var frumkvöðull í ferðaþjónustu á Íslandi. Hann var einn þeirra fyrstu til að bjóða erlendum ferðamönnum inn á hálendi Íslands og lagði grunn sem aðrir byggja á enn í dag.
„Ég var alltaf í ferðabransanum hér áður fyrr. Ég vann hjá pabba fyrst af öllu, fór svo til Englands og var þar á ferðaskrifstofu við að selja Bretum Íslandsferðir. Ég vann hjá manni sem heitir Clive Stacey og ég sá nýlega viðtal við hann í breskum miðli þar sem hann sagði að ferðamennirnir væru farnir að sækja til Noregs eftir svipaðri reynslu og þeir fá hér því Ísland væri orðið svo dýrt. Ég vann svo hjá Icelandair eftir að ég kom heim.“
Þurfum að byggja betur upp innviði
Þess má geta að Clive er eigandi vefsíðunnar Discover the World og þar skrifar hann um áfangastaði víða um heim og segir kost og löst á þeim. En hvað finnst Auði um ferðamannaiðnaðinn hér á landi núna miðað við það sem hún ólst upp við í ferðum með pabba sínum?
„Við þurfum að byggja betur upp innviðina okkar til að geta tekið á móti svona mörgum. Við eigum stórt land og getum tekið á móti miklum fjölda en verðum huga að náttúrunni okkar, passa upp á hana. Pabbi var mikill frumkvöðull í ferðaþjónustu á Íslandi og hann flutti inn fleiri þúsund manns hingað á hverju ári og þá var ferðamannatíminn tveir mánuðir. Þá voru brottfarir úr bænum alla sunnudaga. Þetta voru þrettán daga tjaldferðir og það var komið annan föstudag í bæinn. Það var farið suðvestur og norðvestur líka og svo voru sex daga ferðir. Við vorum með eldhúsbíla og elduðum, morgunverð, hádegisverð, miðdagskaffi og kvöldmat fyrir fólkið.
Á hálendinu voru fáir vegir þá, þetta voru meira og minna ruðningar. Pabbi fór yfir Skeiðarársand löngu áður en farið var að brúa Skeiðará. Hann fór páskaferðir í Öræfasveit. Það var ævintýrablær yfir þessu. Maður þurfti að bíða fram í enda júní því þá voru vegirnir á Íslandi að byrjað að verða færir, bæði inn í Hljóðakletta, Sprengisandsleið og Kjölur. Ef mikið frost var í jörðu brast hún bara undan bílunum þegar fór þiðna. Ég hitti nýlega konu sem var að rifja upp að þegar ferðamennirnir komu til landsins þurftu þeir að gista einhvers staðar. Pabbi útvegaði þeim heimagistingu. Það var kallað, „private accomodation“. Hún sagði: „Pabbi þinn var frumkvöðull á þessu sviði líka því ahnn var með Airbandb því hann var heimagistingu út um allan bæ.“
Er enn mest heilluð víðáttuni
Þegar Auður var barn og unglingur fór hún oft með pabba sínum á fjöll en eftir að hún eltist vann hún mest á skrifstofunni. Hún minnist viðbragða ferðamanna við öræfum Íslands.
„Ég man eftir fólki að falla í stafi yfir söndunum og víðáttunni. Ég sá fólk oft beygja sig niður til að taka myndir af einu litlu blómi sem óx upp úr sandinum. Ég er enn mest heilluð af víðáttunni sem Ísland hefur upp á að bjóða.“
Þessi fjölhæfa kona hefur ekki bara verið launþegi heldur einnig rekið eigið fyrirtæki og verið atvinnuveitandi.
„Við hjónin áttum Quiznos, samlokuveitingahúsið. Maðurinn minn hitti konu sem átti þetta áður og hún sagði honum að hún væri að reyna að selja. Við ákváðum að slá til og prófa þetta. Þetta er amerísk keðja og eigendur háðir leyfum frá þeim. Maðurinn minn fór til Ameríku til að læra að gera samlokurnar. Hver einasta samloka verður að vera eins, það er engin breytileiki leyfður þar. Við áttum fyrirtækið í nokkur ár en seldum Olís það rétt fyrir hrun. Við vorum með fjóra staði sjálf en áttum fleiri leyfi. Þeir hjá olíufélaginu voru að leita að handhægum veitingum til að hafa inni á bensínstöðvunum hjá sér. Þeir gerðu okkur því gott tilboð sem ekki var hægt að hafna,“ segir hún að lokum og auðheyrt er að jákvæðni er aðalsmerki þessarar konu og annríki eitthvað sem hún tekur fagnandi.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.