Eiga sextugir að semja um lægra kaup?

Jón H. Magnússon, lögfræðingur telur að það verði fýsilegri kostur fyrir atvinnurekendur að ráða eldra fólk til starfa ef það fær sjálft að semja um kaup og kjör óháð því sem kjarasamningar kveða á um. Jón segir að fólk sem komið er yfir miðjan aldur hafi þroska og lífsreynslu til að semja sjálft um kaup sín og kjör.

Jón H. Magnússon

Jón H. Magnússon

Samkvæmt núgildandi lögum er samið um lágmarkslaun og það er óheimilt að semja um laun sem eru lægri en lágmarkslaun. Jón segir að yngra fólk hafi mun betri tölvukunnáttu en fólk sem komið er yfir sextugt, styrkleiki þeirra eldri felist hins vegar í starfsreynslunni sem þá yngri skorti.  Hóparnir bæti því hvor annan upp á vinnumarkaðnum.

Mismunandi tekjuþörf

Jón hélt erindi á ráðstefnu um sveigjanleg starfslok. Þar bar hann saman tekjuþörf yngra og  eldra fólks.  „Ungt fólk er að stofna heimili og koma þaki yfir höfuðið. Stór hluti launanna fer í afborgarnir á húsnæði og framfærslu barna.  Fólk sem komið er yfir miðjan aldur býr  í skuldlausu húsnæði oft einn eða tveir í heimili,“ segir hann forsendur þess séu því hreinlega aðrar en þeirra yngri.  Jón segist telja að hægt væri að leysa vanda þeirra sem eru 60 ára og eldri á vinnumarkaði með því að þeir fengju fullt frelsi til að semja um laun og starfskjör sín.

Víkja frá ákvæðum kjarasamninga 

„Til þess að það geti orðið þarf að afla samþykkis aðilarsamtaka vinnumarkaðarins um heimild til að víkja frá ákvæðum kjarasamninga. Það ætti að vera tiltölulega auðvelt. Það þarf að finna leiðir til að bæta stöðu þessa aldurshóps, það þarf að finna leiðir til að gera þá eftirsóttari á vinnumarkaði,“ segir Jón. Hann segir að vilji menn ekki að 60 ára og eldri fái fullt frelsi til að semja um kjör sín ætti viðmiðið að ná til eftirlaunaþega.

 

Ritstjórn nóvember 27, 2014 13:11