Heilinn fer í gang þegar við fæðumst og stoppar um sjötugt

Benedikt Jóhannesson

„Heilinn er skrítið líffæri. Hann fer í gang þegar við fæðumst og stoppar um sjötugt. Eftir það gagnast hann ekki lengur í flókin verkefni í stofnunum, en helst til þess að leysa krossgátur.

Svona hugsar ríkið. Bankarnir eru enn róttækari. Þau vandasömu viðfangsefni sem þar eru leyst ræður fólk ekki við eftir 65 ára aldur. Nema að sitja í bankaráði, sem er svo létt verk að þar eru engin aldurshámörk“, skrifar Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi ráðherra, þingmaður og stærðfræðingur á heimasíðu sína bjz.iz

Benedikt heldur áfram og segir: „Þekking og reynsla búa til miklu meiri verðmæti en strit. Þó að þjóðin sé rík vitum við að með hverjum einstökum sem leggur sitt af mörkum verðum við enn ríkari. Þegar fólki gengur vel gengur þjóðfélagið best.

Samt er einum verðmætasta hópnum í þjóðfélaginu markvisst ýtt út af vinnumarkaði. Hér á landi er eftirlaunaaldur 70 ár og heimilt að hætta störfum fyrr. Líklega láta flestir Íslendingar af launuðum störfum á aldrinum 65 til 70 ára, ef þeim endist líf og heilsa. Talað er um að sá sem er 67 ára sé löggilt gamalmenni. Í Bandaríkjunum eru þrír af æðstu mönnum þjóðarinnar komnir vel yfir sjötugt. Enginn ætlast til þess að þeir einbeiti sér að því að leggja kapal eða tali bara um málefni aldraðra. Að minnsta kosti ekki vegna fæðingardagsins.

Sumir vinna líkamleg störf sem þeir eiga erfitt með að stunda þegar aldur færist yfir. Margir vilja sinna fjölskyldu eða hugðarefnum á efri árum og finnst gott að hafa meiri lausan tíma en áður. Þetta er gott og gilt.

Verstu ástæður fyrir því að hætta að vinna eru lög og reglur.  Þær boða fólki annars vegar að hætta störfum við ákveðinn aldur og hins vegar dregur lífeyriskerfi Tryggingastofnunar úr vinnuhvatanum. Mörgum finnst lítið eftir þegar ríkið skerðir lífeyri á móti vinnutekjum.

Fyrir heilsuna er mikils virði að hafa nóg fyrir stafni. Þeim vegnar best sem hafa nóg við að vera á elliárum. En það búa ekki allir svo vel að eiga áhugamál og því er það allt of algengt að aldrað fólk sitji heima og finnist það skyndilega orðið tilgangslítið. Það gerist nefnilega ekkert sérstakt þegar fólk verður 65, 67 eða 70 ára.

Stundum er eldri starfsmönnum ýtt út burt til þess að búa til pláss fyrir yngri kynslóðina. Engum með fullum mjalla dytti í alvöru í hug að búa til pláss á vinnumarkaði með því að ýta konum til hliðar. Aðgerðin gagnvart öldruðum er álíka greindarleg.

Ég hef metið  það svo að fyrir hvern árgang sem hverfur af vinnumarkaði tapi þjóðfélagið um 25 til 30 milljörðum króna, um 1% af þjóðartekjum eða 3% af fjárlögum.

Því segi ég: Þvingum ekki fólk sem hefur vilja og getu til þess að vinna lengur til þess að hætta störfum. Með þessari skynsamlegu aðgerð gæti þjóðin gert miklu meira, til dæmis byggt upp vegakerfið. Skerðum ekki greiðslur frá Tryggingastofnun þó að aldraðir vinni. Allir græða og samfélagið blómstrar,“ eru lokaorðin í grein Benedikts.  Greinina er hægt að lesa í heild hér og aðrar greinar á síðunni.

 

 

 

 

 

Ritstjórn mars 16, 2019 17:52