Einar K. Guðfinnsson – fyrrverandi þingmaður, ráðherra og forseti Alþingis

Einar K. Guðfinnsson hætti á þingi í árslok 2016 eftir ríflega 25 ára starf sem þingmaður og ráðherra og síðar forseti Alþingis. Hann er fæddur 1955 og var því aðeins 61 árs gamall þegar hann hætti á þingi. Einar segist hafa hugleitt starfslok sín töluvert síðustu ár sín í þinginu og niðurstaðan verið sú að þetta væri orðið ágætt og tími til að hætta. “Ég var ekki viss um að ég myndi geta sinnt starfi mínu á þinginu af sama þrótti og ég taldi mig hafa gert fram að því,” segir Einar. “Þess vegna vildi ég frekar hætta á meðan ég væri enn í fullu fjöri. Ég vissi sem var að þingstarfið væri ekki þægileg innivinna sem maður vildi halda í heldur yrði ég að vinna í starfinu áfram af ástríðu sem ég var ekki viss um að ég hefði til langframa og þá var betra að hætta.”

Það kom Einari á óvart, andstætt því sem hann hafði haldið, að nokkrir aðilar höfðu samband við hann um áramótin 16/17 og veltu upp möguleikum á því að hann kæmi til starfa fyrir þá. “Niðurstaðan úr þeim samræðum var sú að ég kæmi til starfa sem starfandi stjórnarformaður Landssambands fiskeldisstöðva. Þá var fiskeldið smátt í sniðum og að slíta barnsskónum. Ég gerði mér grein fyrir því að fram undan væru heilmiklar áskoranir og átök sem ég væri að fara inn í. Ástæðan fyrir því að ég sló til var ekki sú að ég hefði svo mikinn brennandi áhuga á fiskeldi í sjálfu sér eða hefði bakgrunn í þeim efnum. Ég gerði mér hins vegar grein fyrir því að fiskeldi væri stóra tækifærið fyrir mitt heimahérað á Vestfjörðum sem ég hafði helgað starfskrafta mína í meira en aldarfjórðung. Þess vegna þótti mér spennandi að  leggja mitt af mörkum með heimamönnum og fleiru góðu fólki til þess að greinin mætti dafna í þágu byggðanna. Þetta varð því meginverkefni mitt fyrst eftir að ég hætti á þingi. Síðan gerðist það tveimur árum síðar að fiskeldisfyrirtækin sóttu um aðild að Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þá var greinin orðin það stór að mér þótti þetta rökrétt,” segir Einar.

Einar var þá fenginn til að vinna að fiskeldismálum innan SFS. “Þar var mér vel tekið og síðustu árin hef ég verið að vinna með mjög öflugu ungu fólki sem hefur verið mjög skemmtilegur tími.”

Í árslok 2016 hafði þáverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, samband við Einar og óskaði eftir því að hann tæki að sér að vera í nefnd sem ætti að undirbúa aldarafmæli fullveldis Íslands. Þar var hann formaður og verkefnið var fyrirferðamikið í lífi Einars  2017,-18 og fram á 2019. “Ég hafði óumræðilega gaman af þessu verkefni,” segir hann. “Þarna var ég kominn á nýjan vettvang og kynntist nýju fólki. Okkur tókst að virkja félagasamtök og fólk um allt land til að vinna með okkur.” Í stað þess að hafa aldarafmælið eina stóra hátíð á Þingvöllum segir Einar að þetta hafi verið stanslaus hátíðahöld allt árið með þátttöku mörg þúsund Íslendinga um allt land.

“Ég hafði búið mig undir það þegar ég hætti á þinginu að fram undan væri mun rólegri tími og minna áreiti. En árin fyrst á eftir reyndist verða mikill annatími og mjög skemmtilegur.”

Nú segir Einar að hafi hægst talsvert um hjá honum en hann er núna í verkefnabundnu hlutastarfi í fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að vinna að fiskeldismálum.

Þar fyrir utan hafi ýmislegt tínst til hjá Einari eins og þegar Svavar Gestsson hafði samband við hann og bað hann um að koma með sér og vera formaður félags um endurreisn virðingar Staðarhóls í Dalasýslu. Það voru heimkynni hins merka sagnaritara Sturlu Þórðarsonar. “Góður hópur, ásamt heimamönnum og fræðimönnum, hefur unnið að þessu verkefni og nú erum við að sjá mikinn afrakstur af þessari vinnu. Okkur hefur tekist að koma Staðarhóli og verkum Sturlu Þórðarsonar meira á dagskrá en verið hefur. Nú eru hafnar ýmsar framkvæmdir sem við stöndum fyrir til að gera staðinn aðgengilegri fyrir þá sem eiga leið um. Frábært framtak hefur átt sér stað í Dölunum um uppbyggingu sögutengdrar ferðaþjónustu og þar hefur Svavar Gestsson ýtt verkefninu áfram af ótrúlegum dugnaði.”

Einar hafði fengið mikla hvatningu 2016 um að halda áfram vinnu sinni á þingi. “Mér þótti sú hvatning mjög góð og vissi þar með að ég ætti valið sjálfur um að halda áfram eða hætta. Það er mjög hættulegt að lifa sjálfan sig í pólitík og ég var alltaf ákveðinn í að svo yrði ekki í mínu tilfelli. Ég ákvað líka að um leið og ég hætti stjórnmálastörfunum myndi ég draga mig út úr allri almennri stjórnmálaumræðu. Ég ætlaði ekki að vera karlinn í aftursætinu sem væri sífellt að reyna að hafa vit fyrir þeim sem halda nú um stjórnvölinn, fólki sem ég treysti svo vel. Þess vegna tjái ég mig almennt ekki mikið um stjórnmál að öðru leyti en því sem er óhjákvæmilegt í starfi mínu fyrir fiskeldið.”

Einar og Sigrún í gönguferð um Jakobsveginn.

Einar og eiginkona hans, Sigrún J. Þórisdóttir fyrrverandi kennari, hófu að feta sig áfram í útivist fyrir allnokkru síðan. Fljótlega varð til vestfirskur gönguhópur, gamlir og góðir vinir  sem hafa gengið saman bæði hér á landi og erlendis síðustu tuttugu ár. “Fyrst gengum við auðvitað um allt á Ströndunum og síðar víða um landið. Svo hafa gönguferðir í útlöndum bæst við, t.d. á Jakobsveginum  sem er ein merkilegasta ganga sem við höfum farið. Og síðan erum við svo heppin að hafa eignast tvö yndisleg barnabörn og það á hug okkar allan þessar stundirnar,” segir Einar og brosir.

 

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 14, 2020 07:53