Hafsteinn Hafliðason garðyrkjufræðingur

Amarillislaukur. Hafsteinn hendir aldrei laukum heldur lætur hann þá bíða og þegar þeir eru búnir að vera þurrir lengi koma þeir með blóm eins og þessi. Þetta er eitt af því sem hann er búinn að vera að fikta og svala forvitni sinni við undanfarin ár.

Allt í kringum Hafstein var garðyrkjufólk þegar hann var barn svo hann vissi snemma hvað hann vildi liggja fyrir sig. Hann flutti barn að aldri til Vigur í Ísafjarðardjúpi með móður sinni þar sem hún giftist Baldri í Vigur. Móðir Baldurs var mikil garðyrkjukona og Hafsteinn segist hafa lært geysilega mikið af henni. Þar var hann til 14 ára aldurs og fluttist þá til föður síns, Hafliða Jónssonar, sem var þá Garðyrkjustjóri Reykjavíkur og bjó inni í Laugardal. Grasagarðurinn var því leiksvæði Hafsteins. Allt þetta kunnáttufólk í kringum hann varð til þess að Hafsteinn kom út í lífið með mjög mikla þekkingu á sviði garðyrkju. Þegar hann var 17 ára gamall fór hann síðan í garðyrkjunám til Svíþjóðar.

Hafsteinn starfaði um árabil í Blómavali við Sigtún og nú segja yfirmenn hans frá Blómavalsárunum að slíkir starfsmenn hafi sannarlega ekki verið á hverju strái þá. Hafsteinn sé í raun mikill listamaður á mörgum sviðum. Hann sé sérlega fróður og hafi getað miðlað af viskubrunni sínum til viðskiptamanna Blómavals. Hann hafi líka verið orðsins maður og til hans megi til dæmis rekja slagorð eins og „Blómaval – heillandi heimur“ og „Haustlaukar – loforð um litríkt vor“.

Hafsteinn hætti í Blómavali 1998 eftir 18 ára starf til að fara að starfa fyrir Snæfellsbæ sem garðyrkjustjóri þar sem hann var í 3 ár. Eftir það flutti Hafsteinn austur fyrir Selfoss og gerðist garðyrkjustjóri hjá  Árborg.

Hann segir að erfiðleikar garðyrkjusjóranna á landsbyggðinni sé að þar skortir venjulega framtíðarsýn. Þar þurfi að beita öllu sínu við að reyna að kría peninga út úr sveitarstjórnarsjóðunum frá sveitarstjórnarfólki sem hefur takmarkaðan áhuga á nánasta umhverfinu og þróun þess. Það er kosið til fjögurra ára á meðan garðyrkjumaðurinn þurfi að hugsa til tuttugu ára hið minnsta. Þar sem alltaf er verið að skipta um sveitastjórnir á fjögurra ára fresti myndast síður samfelldur og sérstæður bæjarbragur að mati Hafsteins.

Hafsteinn býr nú í litlu húsi við Þingborg með eiginkonu sinni Iðunni Óskarsdóttur, meinatækni og kennara. Þau hjónin eiga þrjár dætur og 10 barnabörn og eitt barnabarnabarn. Hafsteinn dundar sér þar við alls konar ræktun núna og kallar það hlæjandi „fikt og forvitni“.

Hafsteinn segir að lífsmottó hans sé að vera ánægður með sitt og abbast ekki upp á aðra. Hann sé afleitur í að græða peninga eða markaðssetja sig en taki glaður á móti öllum sem leiti til hans. Hann segist ekki eiga sér uppáhaldsplöntur eða svið í garðyrkju heldur hafi hann gífurlega gaman af að fylgjast með framförum sem eiga sér stað í allri ræktun um allt land. Fram undir 1990 hafi landið verið bert og hvergi tré að sjá. Nú séu alls staðar tré og þá þurfi maður að ganga út úr skóginum til að fá útsýni. Veðurfar um allt land hafi gjörbreyst við gróðurinn.

Eplatréð sem Hafsteinn er með í garðínum er sortin ‘Summer Red‘ – Kanadískur blendingur milli Golden Delicious og McIntosh frá 1964. „Ég er búinn að vera með það síðan 2006 en þetta er fyrsta árið sem tréð  sýnir blóm. Ég býst ekki við að fá nein epli í ár því að enginn heppilegur maki er í blóma í nágrenninu – og tréð getur ekki átt börn með sjálfu sér. En hvað um það, nú veit ég að það lifir af við íslenskar aðstæður og að finna því maka er framtíðarverkefni. En vonbiðillin ‘James Grieve‘ er hér við hliðina – tórandi bærilega en er enn ekkert farinn að flassa blómum. Trén voru keypt saman sem kærustupar – en kærastinn heldur í við sig,“ segir Hafsteinn og kímir.

Ritstjórn júní 25, 2020 09:33