Einar Karl Haraldsson ráðgjafi

Einar Karl Haraldsson þekkja margir af störfum hans en hann var um árabil ritstjóri hér heima og á vettvangi Norðurlandaráðs, framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins og ráðgjafi í almannatengslum. Einar er nú orðinn sjötugur en er langt frá því sestur í helgan stein. Þegar Samfylkingin fór í ríkisstjórn tók hann að sér að aðstoða Össur Skarphéðinsson, og síðar voru kraftar Einars nýttir í forsætisráðuneytinu og til að starta Inspired by Iceland herferðinni. Nú hefur hann snúið sér að hugðarefnum sem hann getur nú notið þess að sinna.

Þegar náðist í Einar var hann að koma af undirbúningsfundi fyrir ráðstefnu sem á að fara fram í Skálholti 8. – 10. október. Á þessari ráðstefnu segir Einar að sé ætlunin að fjalla um siðbót í þágu jarðar, þ.e. umhverfismálin, sem verði sífellt meira áríðandi umfjöllunarefni í samfélagi manna. Einar segir að fulltrúar þjóðkirkjunnar og fólk sem hefur verið virkt í landgræðslu- og landverndarmálum komi að undirbúningi ráðstefnunnar í Skálholti.  “Umhverfisráðherra mun ávarpa ráðstefnugesti og við eigum von á öflugum erlendum þátttakendum,” segir hann.

“Við munum fjalla um samstarf hreyfinga með trúarlegan bakgrunn og áhugafólks um landgræðslu og náttúruna því þetta tvennt spilar mjög saman,” segir Einar. “Þarna verður m.a. fulltrúi frá umhverfisáætlun Sameinuðu þjónanna þar sem verið er að undirbúa alþjóðlegt samstarfsnet á þessum grunni. Hjá Sameinuðu þjóðunum hafa menn fyrir löngu komist að þeirri niðurstöðu að hreyfingar með trúarlegan bakgrunn hafi mikil áhrif á viðhorf fólks því þeirra rödd sé gífurlega sterk og beri að nýta. Þar er ekki síst verið að tala um Afríku- og Asíulöndin en líka Ameríku. Ráðstefnan í Skálholti verður ekki stór en vonir standa til að upp úr henni rísi önnur stærri,” segir Einar Karl. “Margir þeirra sem taka þátt í þessari ráðstefnu núna verða þátttakendur í tveimur málstofum á Hringborði norðurslóða í Hörpu sem við erum að undirbúa líka.”

Einar Karl hefur verið varaformaður og gjaldkeri Hallgrímssóknar en hann segir að á sjöunda áratug síðustu aldar hafi Hallgrímskirkju verið falið það verkefni að gefa Passíusálmana út á erlendum tungumálum. “Nú þegar hefur komið út hátt í tugur þýðinga og nú eru þessar gömlu þýðingar að verða uppseldar. Enska útgáfan er til dæmis alveg uppurin og  nú er að koma út ný þýðing á ensku sem Gracia Grindal, prófessor frá Minneapolis, hefur þýtt mjög fallega. Þetta verður viðhafnarútgáfa sem gefin er út í tengslum við Hallgrímshátíð sem er alltaf í endaðan október í Hallgrímskirkju. Glerlistaverkið eftir Leif Breiðfjörð, sem er í glugganum fyrir ofan aðaldyrnar í Hallgrímskirkju, er notað til grundvallar í hönnun bókarinnar og er útgáfan geysilega falleg,” segir Einar. “Auk þess verða passíusálmarnir gefnir út bæði á dönsku og þýsku hvað líður og svo síðast en ekki síst á íslensku í þessum búningi,” segir hann.

Einar Karl er titlaður ráðgjafi í símaskránni og segir sjálfur að hann sé enn að sinna aðkallandi almannatengslaverkefnum. Hann segist hafa verið heppinn með heilsuna fram að þessu. “Við nútímafólkið erum svo lúsheppið að til eru alls konar leiðir til að halda okkur gangandi,” segir Einar Karl og hlær.

“Svo ver ég líka tímanum í að sinna konu, dætrum, tengdasonum, barnabörnum og kunningjum. Það er fjársjóður sem vert er að sinna vel,” segir Einar Karl að lokum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn október 2, 2019 07:41