Ellert B. Schram, fyrrum formaður Félags eldri borgara

Um marga má segja að þeir hverfi í fjöldann þegar þeir eldast og sumir kjósa það hlutskipti, en Ellert Schram er ekki einn af þeim. Hann hefur kosið að vera í sviðsljósinu og líkamlegt atgerfi hans gerir það að verkum að hann stendur út úr og fram úr þar sem hann er. Jafnvel nú, þegar hann er orðinn 80 ára gamall þar sem hann gengur hávaxinn og hnarreistur um götur borgarinnar.

Ellert hefur verið í sviðsljósi íþróttanna um ævina, enda KR-ingur í húð og hár, en líka á sviði stjórnmálanna. Fyrst í fótboltanum, fyrirliði í KR í tíu ár og fyrirliði landsliðsins líka í tíu ár. Síðan formaður KSÍ í sextán ár og forseti Íþróttasambands Íslands í önnur fimmtán ár.  Þar að auki var Ellert ritstjóri DV í fimmtán ár. Á alþingi sat Ellert fyrst  árið 1971 og síðast 2018. Var þar fyrst yngstur og í lokinn elstur. Byrjaði á alþingi 30 ára og settist í lokin inn á alþingi 2018, 79 ára. Hann segist nú vera hættur að vinna og starfa en síðast var hann formaður Félags eldri borgara og ætlaði aldrei að geta hætt þar vegna covid.  Ekki af því að hann hafi veikst heldur af því að ekki var hægt að halda aðalfundinn vegna samkomubanns en þar átti  kosning um nýjan formann að fara fram. Loksins var höftum létt og kosningin fór fram og Ingibjörg Sverrisdóttir var kosin í embættið í hans stað.

Ellert var í fimm ár í stjórn félags eldri borgara og þrjú ár formaður. Hann segir að þessi tími hafi verið skemmtilegur en sorglegur í bland. “Það er óneitanlega sorglegt að sjá að margir af eldri borgurum á Íslandi búa við einangrun og fátækt. Ég tók nærri mér að fara niður í þing og mæta fyrrum samstarfsmönnum þar sem þeir tóku mér afskaplega vel. En þegar til átti að taka gerðist ekki neitt. Það er óneitanlega vont að hafa tekið þátt í þessum leik en hafa ekki náð neinum árangri í að bæta kjör eldri borgara. Það hvílir á mér. Nú eru málaferli í uppsiglingu og það mun allt taka tíma en ég er hættur og mun ekki leika hlutverk í því máli.”

Ellert segir að það hafi verið högg þegar kom í ljós að FEB vantaði 400 milljónir til að standa undir kostnaði bygginganna í Ásgarði. Ekki var hægt að klára og selja bygginguna. Verðið var of lágt af hálfu byggingarnefndarinnar. Mitt fólk í stjórninni stóð sig mjög vel í þessu máli og við náðum að fá kaupendur til að leysa málið áður en FEB mögulega yrði gjaldþrota sem félag. Þetta mál tók mikið á, hjá bæði mér sem öðrum og í það fór mikill tími sem gerði það að verkum að ég gat ekki sinnt bókarskrifunum sem ég hef verið með á prjónunum nokkuð lengi.” Ellert hefur verið að skrifa endurminningar sínar um nokkurt skeið og nú standa vonir til að bókin komi út í haust.

Bókin sem Ellert er að skrifa er lífshlaup hans og verður án efa spennandi fyrir marga að lesa því hann hefur komið svo víða við í íslensku samfélagi. Hann segir að bókin byrji á að segja sögu fólksins sem stendur að honum. Hann byrjar á að segja frá því hvaðan nafnið “Schram” er komið en upphafið megi rekja aftur til 18. aldar þegar forfeður hans komu hingað til lands frá Danmörku í viðskipti. Saga móður Ellerts, Aldísar,  er engu minna merkileg því hún er komin af íslensku alþýðufólki sem kom gangandi til Reykjavíkur úr sveitinni í leit að betra lífi. Þetta er saga forfeðra okkar flestra þar sem erfiðleikar og hörmungar einkenndu líf fólks en afkomendur þeirra sem lifðu komu oft sterkir út.

Síðan talar hann um uppeldisárin í Vesturbænum þar sem  Melaskólinn og Vesturbæjarskólinn voru sviðið. Síðan tóku við menntaskólaárin í Verslunarskólanum og svo Háskólinn þar sem Ellert lærði lögfræði og stjórnaði stúdentaráði. Gegndi störfum sem framkvæmdarstjóri borgarverkfræðings í Reykjavík. Svo tóku stjórnmálin fljótlega við og þrítugur var  hann kosinn inn á þing. Það gerðist 10. október 1971 en Ellert er fæddur 10 október 1939. Á þeim tíma hætti Ellert að spila fótbolta en var kosinn  formaður KSÍ og síðan forseti ÍSÍ. Þar til viðbótar varaformaður UEFA, knattspyrnusambands  Evrópu. Ferill hans  hefur hverfst mikið um íþróttir alla tíð og frá því öllu er sagt í bókinni. Þetta er frásögn af skemmtilegri lífsgöngu.

Ritstjórn ágúst 5, 2020 07:02