Viltu verða eigin bókaútgefandi?

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

Útgefendum bóka eru mislagðar hendur þegar kemur að vali á efni sem þeir gefa út. Margar sögur eru til um bækur sem útgefendur höfnuðu en urðu síðan metsölubækur. Frægt dæmi er þrautarganga JK Rowling milli 15 útgefanda sem allir höfnuðu útgáfu fyrstu bókar hennar um Harry Potter. Nú hafa Harry Potter bækur verið þýddar á yfir 60 tungumál og seldar í meira en 30 milljónum eintaka. Margir síðar viðurkenndir höfundar urðu að gefa út sínar fyrstu bækur á eigin kostnað því útgefendur höfðu ekki áhuga.

Nú eru breyttir tímar því allir geta orðið eigin bókaútgefendur ef ritverkið fær ekki náð hjá útgefendum. Hvað viðkemur bókaútgáfu hefur heyrst frá bókaútgefendum að miðað við hverja eina bók sem kemur út á Íslandi hafni útgefendur níu handritum eða 90%. Mikið er því til af skúffuhandritum og án efa enn fleiri hugmyndir að ritverkum sem ekki komast á blað vegna ótta við neikvæð viðbrögð bókaútgefenda. Miðað við að rúmlega 50 íslenskar skáldsögur komi út á þessu ári ættu um 500 handrit að hafa farið ofan í skúffu. Saga rafbókarvæðingar í heiminum er ekki löng en hún hófst árið 2007 og hefur útgáfusviðsmyndin opnað nýjan heim fyrir rithöfunda. Nú eru fleiri rafbækur seldar á Amazon en pappírsbækur. Yfir 90% af öllum rafbókum í heiminum eru til sölu hjá Amazon (Kindle), iTunes rafbókaverslun Apple (iPad, iPhone, iPod) og hjá Barnes og Noble (Nook) en auk þess eru mýmargar aðrar rafbókaverslanir á ýmsum tungumálum.

Þróun rafbókarútgáfu hefur verið hæg hér á landi miðað við bæði ensk málsvæði sem og nágrannalöndin. Fyrstu rafbækurnar birtust í lok árs 2011. Þá lækkaði virðisaukaskattur á rafbækur úr 25.5% í 7%, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda gerðu tilraunasamning um rafbókaútgáfu og útgefendur fóru að þreifa fyrir sér um valmöguleika. Vefurinn lestu.is opnaði fyrir rafbækur með efni sem ekki féll undir höfundarétt. Í desember sama ár opnaði fyrsti íslenski rafbókasöluvefurinn á Emma.is sem bauð sjálfstæðum höfundum og bókaútgefendum að koma handritum sínum á framfæri á rafbókaformi án aðkomu hefðbundinna útgáfufyrirtækja. Skömmu síðar voru opnaðar rafbókaverslanir á Eymundsson.is og Forlagid.is og vefurinn eBækur.is fylgdi á eftir ári síðar en þessir vefir selja íslenskar rafbækur.

Emma.is er ekki lengur rafbókaveita heldur upplýsingaveita og veitir aðstoð við umbrot bóka fyrir rafbókaútgáfu og birtingu þeirra. Samkvæmt talningu Emma.is er fjöldi íslenskra rafbóka nú 720 titlar sem standa lesendum til boða. Þar af koma um 70 titlar út á þessu ári. Rúmlega 200 rafbækur á íslensku eru til sölu á Amazon ekki aðeins nýjar bækur heldur einnig eldri bækur. Rithöfundar hugsa í vaxandi mæli um að eldri bækur verði fáanlegar og huga að varðveislu til framtíðar. Sem dæmi um eldri bækur sem nú fást á Amazon eru 11 bækur eftir Braga Þórðarson sem bókaútgáfa hans Hörpuútgáfan gaf út fyrir nokkrum árum. (http://www.amazon.com/bragiþórðarson).

Hverjir eru svo kostir rafbóka miðað við prentaðar bækur?. Útgáfukostnaður er mun minni, hlutfall höfundar í sölu getur verið hagstæðara og dreifingarkostnaður er enginn. Markaðssetning er auðveldari að því leyti til að auðveldara er að ná til ákveðinna markhópa sem viðkomandi ritverki er ætlað að ná til en með almennri markaðssetningu. Á móti kemur að þar sem mun auðveldara er að gefa út rafbækur verður framboðið mikið og gæði bókanna afar misjöfn.

Á vefnum má finna fjölda greina sem leiðbeina fólki um hvernig skal skrifa og markaðssetja rafbækur. Ein slík grein er „How to Write & Publish an eBook and Sell It for Profit“ eftir David Bakke (http://www.moneycrashers.com/write-publish-ebook/). Í þeirri grein ræðir David um 7 liði hvernig skrifa skal rafbók. Hann ræðir um (1) viðfangsefnin, (2) lengdina, (3) bókarheitið, (4) sérstakt efnisval, (5) vinnsluforrit (format), (6) yfirlestur og (7) forsíðuna. Einnig ræðir David um markaðssetningu rafbóka.

Skrif og útgáfa rafbóka opna ný tækifæri til útgáfu ritaðs máls. Tækifæri eru ekki aðeins fyrir þá sem vilja skrifa og gefa út skáldsögur eða ljóðabækur heldur fyrir mun fleiri. Einstaklingar geta skrifað bækur með minningum fyrir afkomendur, ættingja og aðra þá sem áhuga hafa. Þeir geta kynnt rannsóknarverkefni um hugarefni sín eða safnað saman ritgerðum sem þeir hafa skrifað á starfsferlinum. Einstaklingar með sérhæfða þekkingu og reynslu geta gefið út ritverk öðrum til fræðslu. Miklum fróðleik mun verða miðlað með auðveldum aðgangi og netleit og fróðleikurinn verður varðveittur. Hefur sá er þetta ritað sjálfur gefið út rafbók? Jú og hún heitir Gleðigjafinn (www.amazon.com/þráinnþorvaldsson). Gleðigjafinn inniheldur stutta pistla um lífið og tilveruna einkum jákvætt hugarfar og mannleg samskipti. Grunnurinn að flestum pistlunum eru stuttar greinar sem birtust á vef Bústaðakirkju fyrir nokkrum árum. Bókin eða öllu heldur heftið var upphaflega sett saman sem handrit fyrir afkomendur en var gefið út af Emmu.is fyrir nokkrum árum og seldist þá hvorki meira eða minna en í 20 eintökum. Í október s.l. var bókin sett inn á Amazon. Ég á ekki von á mikilli sölu en ég get vísað á Gleðigjafann og heftið er þar til framtíðar varðveislu.

Vonandi eigum við eftir að sjá útgáfu margra íslenskra  rafbóka og hver veit nema að nýr íslenskur Rowling metsöluhöfundar eigi eftir að birta sína fyrstu bók í formi rafbókar.

Þráinn Þorvaldsson desember 15, 2015 12:31