Tengdar greinar

Veran á Kanaríeyjum hafði góð áhrif á heilsuna

Hér birtist þriðja og síðasta grein Dóru Stefánsdóttur um dvöl hennar og eiginmannsins Stefáns Rafns á Kanaríeyjum í vetur. Þau bjuggu í þorpinu Arguineguín á eynni Gran Canaría.  Áður hafa birst tvær greinar eftir Dóru um dvölina, hér á Lifðu núna. Slóðina á fyrri greinarnar má sjá neðst í þessari grein. En gefum Dóru orðið:

Möndlutrén fóru að blómstra um mánaðamótin janúar og febrúar

Heilsubót

Veran hér í vetur hefur haft mikil og góð áhrif á heilsu okkar hjóna. Eiginmaðurinn hefur ekki verið svona góður af gigtinni í áraraðir og ég finn ekki lengur fyrir bakverkjunum sem hafa verið minn fylgifiskur í nokkur ár.

Áhrifin á andlega heilsu skipta mig enn meira máli. Það er það unaðslegt að vakna alltaf í birtu, geta farið út hvenær sem er án þess að hafa áhyggjur af snjóbyl , hálku eða brunagaddi. Skammdegisþunglyndið gerði aldrei vart við sig og get ég ekki sagt að ég hafi saknað þess.

Sem betur fer höfum við hvorki veikst né slasast og því hafa samskipti við heilsugæslu verið í algeru lágmarki. Opinber heilsugæsla er algerlega ókeypis sé veifað hinu samevrópska sjúkratryggingarkorti og þótt mánaðarbið sé eftir tíma hjá lækni, er hægt að ganga beint að neyðarþjónustu. Fæstir starfsmenn tala annað mál en spænsku og eiginmaðurinn brá á það ráð þegar hann vantaði endurnýjun á lyfseðli að taka með sér iPadinn og nota Google translate. En ég heyri það á kunningjum hér að þeir hræðast mjög að þurfa að tala spænsku og eina norska konu þekki ég sem er að flytja heim eftir 3 ára dvöl af ótta við að elli kelling fari að ná í skottið á henni og leggja hana á sjúkrahús þar sem eingöngu er töluð spænska.

Fyrir þá sem geta borgað fyrir þjónustu utan kerfisins er hægt að leita til norskra lækna. Hver heimsókn kostar 70 evrur og eru margir Norðmenn með aukatryggingu til að takast á við slíkan kostnað.

Lyf eru ódýr sé framvísað lyfseðli en dýrari sé hann ekki við höndina. Ég hef tekið eftir mun á milli lyfjaverslana á því hvað hægt er að fá án lyfseðils. Ég held þó að ekki sé hægt lengur að fá sýklalyf án lyfseðils og gildir hið sama um róandi og svefnlyf, að sögn þeirra sem til þekkja.

Félagslíf

Ég hef áður dvalið langdvölum erlendis og nær alltaf hefur raunin orðin sú að ég umgengst mun meira aðra útlendinga en heimamenn. Sú hefur einnig orðið raunin hér. Ég hef hitt leigusalann okkar tvisvar og hitti auðvitað fólk í verslunum daglega. Samskiptin hafa þá eingöngu snúist um hvað mig vanti og þetta fólk geti útvegað mér.

Þeir útlendingar sem við umgöngumst langmest, eru Norðmenn. Arguineguín er kallaður norskur bær og dvelja margir Norðmenn hér langdvölum. Þeir eru búnir að koma sér upp margvíslegri þjónustu, hér eru norskir læknar og sjúkraþjálfar, norskar verslanir og veitingahús og meira að segja norskur skóli hér aðeins fyrir austan. Við deilum palli með nokkrum Norðmönnum og umgöngumst marga þeirra umtalsvert. Hjón frá Kirkenesi í norður-Noregi hafa reynst okkur einstaklega vel og eru orðin góðir vinir.

Við gengum nýlega í norska klúbbinn sem er með margvíslega starfsemi, farið er í ferðir um eyna bæði á miðvikudögum og sunnudögum, menn hittast og leika sér saman og ganga saman. Rekið er lítið kaffihús þar sem hægt er að kaupa norskan mat og kaffibrauð og tekið er í spil og handavinnu.

Ritstjórn apríl 12, 2023 07:00