Tengdar greinar

Sár sem aldrei gróa

Sandra Söderstrom býr ein. Hún leitast við að fylla tómarúm einsemdarinnar með skyndikynnum af og til og kaupum og sölu á notuðum munum á netinu. Hún er kennari og góð í sínu starfi þótt áhuginn og eldmóðurinn sé farinn að dofna. Hún er nýbúin að taka í gegn eldhúsið og þarf því að fara margar ferðir í Sorpu. Þar mætir hún heillandi nýjum starfsmanni og verður gagntekin af honum.

Þegar hún kemst að því að hundurinn hans er týndur gengur hún í leitarhóp á netinu og leitar allra leiða til að nálgast draumaprinsinn. Smátt og smátt afhjúpast hvers vegna Sandra er jafneinangruð og raun ber vitni og gömul sár gróa ekki. Hún telur sig komna í gott jafnvægi en þá kemur eitthvað upp og hrúðrið flettist af og aftur byrjar að blæða. Þetta er í stuttu máli sögurþráðurinn í frábærri bók Yrsu Þallar Gylfadóttur, Rambó er týndur.

Sagan er einstaklega vel unnin stúdía á einelti og afleiðingum þess. Hvernig byrjar eineltið? Í hverju felst það og hvers vegna er svo erfitt að snúa þróuninni við þegar hún er einu sinni hafin? Allt eru þetta spurningar sem kvikna við lesturinn og sömuleiðis skilningur á því hvernig einelti fylgir fólki fram á fullorðinsár og mótar sjálfsmynd þess og líf með margvíslegum hætti. En Yrsa Þöll dregur ekki upp einhliða mynd. Margt getur orðið þess valdandi að einelti fer af stað. Það er einnig erfitt að gera upp slík mál því þolandi og gerandi geta aldrei séð atburðina sömu augum. Sandra er einnig einstaklega flókinn persónuleiki, breysk manneskja en áhugaverð og skemmtileg. Þetta er listavel skrifuð og athyglisverð bók og þótt viðfangsefnið sé alvarlegt er leiftrandi kómík undir niðri og engum þarf að leiðast við lesturinn. Þetta er frábær saga sem skilur mikið eftir.

Eva Halldóra Guðmundsdóttir sviðslistamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn nóvember 2, 2023 07:00