Gunni Þórðar er hvorki hógvær né feiminn

Gunnar Þórðarson

Gunnar Þórðarson

Gunnari Þórðarsyni tónlistarmanni er lýst sem hógværum manni sem lætur engan vaða ofan í sig, manni sem fer eigin leiðir bæði í samskiptum við aðra og í listinni. Gunnar varð sjötugur í byrjun mánaðarins og hefur glatt þjóðina með tónlist sinni í rúma hálfa öld.

Maðurinn sem breytti öllu

„Hann hefur breytt öllu fyrir íslenskt tónlistarlíf. Hann er án efa eitt besta tónskáld okkar,“ segir  Magnús Kjartansson tónlistarmaður. Haustið 2013 var haldið upp á  að hálf öld var frá því að Hljómar komu fram á sínu fyrsta balli í Krossinum í Keflavík. Síðan má segja að saga Gunnars hafi verið samtvinnuð sögu þeirra sem byggja þetta land.Gunnar spilaði með Hljómum, Trúbroti, Ðe Lónlí Blú Bojs, hann hefur sent frá sér sólóplötur, stjórnað upptökum á hljómplötum og diskum, samið tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti og Sinfónían hefur flutt verk fyrir hann á tónleikum. Auk þess hefur hann  samið óperu.

Dægurperlur

Magnús Kjartansson

Magnús Kjartansson

Gunnar hefur samið á sjöunda hundrað dægurlög. Hver man ekki eftir lögunum Bláu augun þín, Fyrsti kossinn, Gaggó vest, Harðsnúna Hanna, Þitt fyrsta bros, Vetrarsól svo örfá dæmi séu tekin. Í fyrra var frumflutt óperan Ragnheiður sem lyfti Gunnari á enn hærra plan sem tónskáldi. Fyrir þessa fyrstu óperu sína hefur hann hlotið einróma lof. „Hann hefur stöðugt verið að þróast sem tónskáld. En svona móralskt séð þá er Ragnheiður ljúfur löðrungur á akademíska geirann. Að hann skyldi toppa á stað sem ákveðinn akademískur hópur hafði eignað sér. Götustrákar gera ekki svona,“ segir Magnús og hlær.

Enginn neitar Gunnari

„Hann er mjög virtur af kollegum sínum innanlands og utan. Þegar hann fór að spila með Hljómum var hann strax virtur af þeim sem voru tíu til tuttugu árum eldri en hann. Það hefur alltaf þótt mikill heiður að fá að spila með Gunnari. Það hefur enginn maður neitað að spila með honum eða syngja fyrir hann svo að ég viti,“ segir Ólafur Laufdal, veitingamaður og einn nánasti vinur og samstarfsmaður Gunnars í áratugi og bætir við að samstarf þeirra hafi verið einstakt. Það hafi aldrei orði hallað á milli

Ólafur Laufdal

Ólafur Laufdal

þeirra. Gunnar var hljómsveitarstjóri á Broadway og Hótel Íslandi. Hann setti upp fjöldann allan af ógleymanlegum sýningum má þar nefna Abba-, Bee Gees-, Queen-, Söngbók Gunnars Þórðarsonar og fleiri. Fólk hætti ekki að koma og sumar sýningarnar voru sýndar oftar en hundrað sinnum. Margir af yngri tónlistarmönnum landsins stigu sín fyrstu spor í þessum sýningum má þar nefna Birgittu Haukdal og Jónsa, í hljómsveitinni Í svörtum fötum.

Ætti að syngja meira

„Hann er eldklár hljómsveitarstjóri, tónskáld og útsetjari,“ segir Ólafur. „Hann er líka góður söngvari, Gunnar hefur skemmtilegan söngstíl. Ég hef bent honum á að hann ætti að syngja meira, honum finnst það hins vegar óþarfi,“ segir Þorsteinn Eggertsson, textahöfundur.  „Hann á engan sinn líka hér á landi. Hann heyrir tónlistina öðruvísi en við hin. Hann gerir öðruvísi raddsetningar en allir aðrir,“ segir Helga Möller söngkona og bætir við að það sé afar gaman að glíma við raddsetningarnar hans. Ef eigi að flytja tónlist Gunnars biðji allir um nótur.  „Fyrir honum er þetta svo auðvelt og áreynslulaust, fyrir aðra er þetta heilaleikfimi,“ segir Helga.

Þéttur í lund

Þorsteinn Eggertsson

Þorsteinn Eggertsson

Menn greinir á þegar spurt er um persónuleika Gunnars Þórðarsonar, eitt eru þó allir sammála um en það er að maðurinn sé fastur fyrir.  Þorsteinn segir hann sé allt öðru vísi en flestir haldi. „Fólk heldur að hann sé hógvær og feiminn. Ég get hins vegar upplýst að hann er hvorugt,“ segir Þorsteinn.  „Gunnar er ljúfur en ofboðalega fastur fyrir, hann lætur ekkert stoppa sig, hann er bæði hreinskilin og beinskeyttur,“ segir Magnús.  „Hógvær og rólegur maður sem hefur þó töluvert skap ef hann þarf á því að halda. Þægilegur að vinna með,“ segir Helga og bætir við: „Gunnar á til að æsa sig, hann er fljótur upp og fljótur niður. Ef einhver gerir eitthvað á hans hlut er hann settur til hliðar um stund. Hann lætur engan stjórna sér.“

Sankar ekki að sér vinum

Þorsteinn segir að Gunnar hafi hætt að drekka upp úr þrítugu. „Áfengi átti það til að fara illa í hann en eftir að hann hætti að drekka hefur hann verið geðprýðismaður.“  Hann segir að Gunnar hafi þann sið að hlæja ef honum misklíkar við þá sem eru að vinna með honum. „Hann æsir sig ekki ef honum mislíkar eða eitthvað er ekki eins og það á að vera. Hann fer að hlæja og segir þetta gengur ekki, við skulum prófa eitthvað annað.“ Eitt annað segir Þorsteinn að fólk viti almennt ekki um Gunnar Þórðarson en það er að hann sé laumu húmoristi. „Það eru fáir útvaldir sem fá að njóta þess,“ segir hann. Þegar hann er spurður hvort að Gunnar sé vinamargur segir hann. „Ég held að hann sé ekki að sanka að sér vinum og kunningjum en hann er vinur vina sinna. Hann sækist ekki eftir vinsældum.“

Helga Möller

Helga Möller

Fjölbreyttur ferill

Viðmælendum Lifðu núna ber saman um að Gunnar hafi verið í stöðugri þróun sem tónlistarmaður. Ferill hans sé ótrúlega fjölbreyttur og hann sé eiginlega jafnvígur á alla hluti. Allir voru spurðir hvort að þeir ættu uppáhaldslag sem hann hefði samið. Það sló þögn á viðmælendurna, góðu lögin væru svo mörg, og mörg þeirra í uppáhaldi þannig að það væri ekki hægt að nefna neitt sérstakt. Öll voru þau líka sammála um að hann væri einn alvirtasti tónlistarmaður þjóðarinnar. „Með fullri virðingu fyrir öðrum tónlistarmönnum þá er Gunnar Þórðarson sá virtasti af þeim öllum,“ segir Ólafur.

 

 

 

Ritstjórn mars 27, 2015 15:45