Eins og ofvaxinn skátadrengur

Jónas Haraldsson

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar

Í mátunarklefa herrafataverslunarinnar heyrði ég í eiginkonum karlanna. Þeir mátuðu þöglir, þær sögðu sitt álit. „Þetta gengur ekki,“ sagði ein, „þetta er upp á miðjan spóalegg á þér.“ Önnur hafði á orði að sinn hefði eitthvað bætt á sig miðjan og því strekktist flíkin um of. Ég heyrði fótatak fjarlægjast þegar sótt voru ný klæði á karlana, eitthvað sem betur passaði að mati kvennanna. Þeir töltu skrefinu á eftir að fatastöndunum, fámálir.

Ég var hins vegar einn og konulaus – og því fremur lítill í mér. Minn betri helmingur komst ekki með í búðina, aldrei þessu vant. Þar sem við vorum á leið úr landi degi síðar varð hún að sinna áríðandi verkum í vinnunni. Mér var því nauðugur sá eini kostur að fara án hjálpar í leiðangurinn. Það er ekki gott því ég er lélegur mátari og reyni að komast undan slíku ef mögulegt er. Frúin kaupir því oft eitthvað á mig, sem hún telur að passi, eða fer með mig í búðir og lætur mig máta, eins og konurnar sem voru að ráðskast með sína menn í mátunarklefunum við hliðina á mér.

Við vorum nefnilega á leið til heitara lands en Ísland er og því var ég látinn máta kvartbuxur heima kvöldið áður. Ég hafði þráast við, ekki nennt að sinna þessu skylduverki, en þar kom að ekki varð undan vikist. Ég gróf upp kvartbuxurnar innarlega í skúffu í fataherberginu, lítt eða ekki brúkaðar, skellti mér í þær og togaði sokkana vel upp á leggina, en bert var á milli upp fyrir hné. Þannig gekk ég fram í sportsokkum og stuttum buxum fyrir minn dómara. Eiginkona mín til nær hálfrar aldar var rétt að fá sér sopa úr kaffibollanum þegar hún leit sinn heittelskaða augum, tískusýningargripinn, tilbúinn í ferð til heitara lands. Svo óheppilega vildi til að hún var ekki búin að kyngja svo nýlagað kaffið frussaðist út úr henni í roku sem var bland skelfingar og hláturs. „Hvað er að sjá þig maður,“ sagði frúin þegar hún náði andanum, „þú ert eins of ofvaxinn skátadrengur. Má ekki biðja þig náðarsamlegast að koma þér úr þessu hið bráðasta. Ég læt ekki sjá mig við hliðina á þér í þessum ósköpum.“

Mér var því gert að fara í buxnaleit strax næsta dag, svo bæta mætti stöðuna fyrir brottför. Ég gerði eins og fyrir var lagt, meðan konan kláraði sín verk í vinnunni. Ég hafði fengið ákveðin fyrirmæli um buxnagerðina og átti að leita að ljósum buxum, sem vel færu í landinu heita. Kannski valdi konan þennan lit svo minna bæri á fölum leggjum eiginmannsins innan um tanaða fótleggi annarra karla, jafnvel rakaðra, ef ekki vaxaðra. Þegar í búðina kom sá ég konur á þönum þótt þetta væri herrafataverslun. Þær gripu klæðin fumlaust og ráku karla sína inn í mátunarklefana, leiðbeindu þeim í hvað ætti að fara og úr hverju. Ekki var annað að heyra en að þeir hlýddu möglunarlaust.

Ég hringsólaði konulaus. Í fyrsta hring sá ég engar buxur ljósar en greip með mér einar hermannagrænar. Stærðina skoðaði ég fyrst, mundi hvað konan hafði sagt, 34×34, og átti þá við tommur í skálmasídd og mittismáli. Ég held að þetta sé svipuð tala og var á buxunum mínum þegar við hittumst fyrst, 18 og 19 ára. Sú góða kona reiknar með að sá sem er 69 ára sé enn með sama mittismál og þvengmjór 19 ára gutti. Vel má þó vera að þetta sé misminni hjá mér, að mittismálið hafi þá verið 32 tommur.

Ég sá ekki betur, þegar ég leit í spegilinn, en þær hermannagrænu pössuðu. Ég ákvað því að smella mér á þær. Minnugur þess að ég átti að velja ljósar fór ég þó annan hring og fann einar slíkar í minni stærð. Þær voru þó aðeins yfir í brúnan tón en þann lit átti ég að forðast, að sögn konu minnar. Ég mátaði samt og ákvað að taka þær líka, gat ekki annað séð en þær pössuðu.

Nú stóð ég með hermannagrænar og tiltölulega ljósar buxur í höndunum en var samt ekki sannfærðum um að ég væri að gera rétt. Ég tók því þriðja hringinn í versluninni og valdi mér bláar gallabuxur í ljósi þess að þær geta ekki klikkað. Út fór ég því með þrennar buxur í þremur litum, tilbúinn að eigin mati að minnsta kosti, í ferðina til heita landsins.

Þegar þetta er skrifað er ég ekki búinn að sýna konunni úrvalið, eða taka sýningargöngu í þeim nýju fyrir framan hana. Þess verður þó gætt, þegar þar að kemur, að hún sé hvorki að drekka kaffi né neyta fæðu sem getur staðið í henni.

Jónas Haraldsson ágúst 8, 2022 07:00