Nýstúdent – og annar aðeins eldri

Jónas Haraldsson

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar

Um nýliðna helgi var okkur, ömmu og afa, boðið í stúdentsveislu elsta barnabarns okkar. Nýstúdentinn, 19 ára piltur, stóð sig vel og það fréttum við yfir hafið, því hann býr með foreldrum sínum og systkinum í úthverfi Kaupmannahafnar, að hann hefði fengið 12 í einkunn í tveimur síðustu prófunum, munnlegri ensku og kínversku. Tólfan jafngildir tíu í því prófakerfi sem afi unga mannsins minnist frá sínum menntaskólaárum. Það er að sönnu langt síðan sami afi setti upp hvíta kollinn en sá gamli minnist þess ekki að hafa fengið 10 í nokkru fagi. Svona gerast menn afabetrungar – sem er dásamlegt.

Ekki vekur síður athygli í hvaða greinum pilturinn dúxaði. Enskan er ungu fólki að sönnu töm í dag, en því var ekki endilega að heilsa á ungdómsárum afans. Kínverskan er hins vegar fjær okkur en Kína er ört vaxandi stórveldi. Það sá okkar maður þegar hann valdi sér námsbraut í upphafi menntaskólagöngunnar. Það að kunna kínversku er augljós kostur og nýtist vonandi vel þegar fram í sækir þótt viðsjár séu í efnahagslífi heimsins um þessar mundir, ekki síst vegna þrjótsins sem öllu ræður innan Kremlarmúra.

Það er léttir að ljúka stúdentsprófi, eftir þá törn sem slíku fylgir. Framtíðin blasir við og tilhlökkun til þess tíma sem í hönd fer þar sem drög eru lögð að því sem koma skal. Þegar skálað er fyrir áfanganum á björtum sumardegi er þó óvíst að ungmennin horfi áratugi fram í tímann – og alls ekki hálfa öld. Svo mikið er víst að afi nýstúdentsins gerði það ekki á sínum tíma, 15. júní það sæla ár 1972 – sem segir okkur jafnframt að rétt 50 ár eru liðin frá því að afinn setti upp sína stúdentshúfu.

Hefðum við, nýstúdentar þess árs, séð fólk fagna 50 ára stúdentsafmæli er líklegt að við hefðum undrast hvað þessir gamlingjar væru að dedúa – en til þess kom ekki. Menntaskólinn okkar var svo ungur að við vorum þriðji árgangurinn sem útskrifaðist frá honum. Því var okkur hlíft við þessum ósköpum.

En aldur er afstæður. Við sem settum upp hvítu kollana fyrir hálfri öld finnum fæst fyrir ellinni og þótti sjálfsagt að hittast – og spurðum ungdóm dagsins í dag ekkert hvað honum þætti um slíkt. Því var efnt til stórveislu og það sem meira var – bekkjarpartí að fornum sið var haldið áður en til veislunnar var gengið.

Bekkjarpartíið var sannkölluð gleðistund þar sem rifjaðar voru upp minningar þess sameiginlega tíma sem við áttum í fjögur ár á mótunartíma unglingsáranna. Makarnir komu með enda löngu orðnir hluti hópsins. Menn skelltu kannski ekki eins í sig og í den – enda engin þörf á því að herða sig upp til samskipta við hitt kynið. Nú var þetta var allt í fastari skorðum þess fólks sem þekkir sín mörk – og margir á bíl, eins sagt er.

Sameiginleg veisla allra bekkjanna sem fylgdi á eftir var einnig dásemd. Einn úr hópnum átti einmitt sjötugsafmæli þetta sama kvöld. Því var fagnað með húrrahrópum sem í raun giltu fyrir öll sjötugsafmæli árgangsins, hvort heldur þau eru liðin eða væntanleg. Við fundum satt best að segja ekki fyrir því að sjötugsafmælið væri annað hvort nýliðið eða í vændum, ung í anda og flest, sem betur fer, heilsuhraust. Ég hef það á tilfinningunni að þeir sem héldu upp á 50 ára stúdentsafmæli sitt árið sem við lukum stúdentsprófi hafi verið talsvert virðulegri „gamalmenni“ en við – en get að sjálfsögðu ekki sannað það því við sáum engin slík í unga menntaskólanum okkar.

Sá er munurinn á mér og elsta barnabarninu. Nítján ára nýstúdentinn þarf ekki annað en að horfa á afa sinn til þess að gera sér í hugarlund hvernig hann kemur til með að líta út eftir hálfa öld eða svo, þegar hann heldur upp á 50 ára stúdentsafmælið sitt með skólasystkinum sínum. Það verður árið 2072, réttri öld eftir að afinn og félagar settu upp sína kolla.

Þá verður ástæða til að skála og hrópa húrra, en líklega – og vonandi – verður hann enn óvirðulegra „gamalmenni“ en afi hans er í dag.

Jónas Haraldsson júní 27, 2022 06:50