„Elti engan á fastandi maga“

Jónas Haraldsson

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar

Lögreglumenn eru yfirleitt hinir alúðlegustu viðskiptum, þótt fæstir sækist eftir beinum afskiptum laganna varða. Þannig var það t.d. um árið þegar lögreglumaður stöðvaði mig á suðurleið á Holtavörðuheiðinni fyrir of hraðan akstur. Hann hélt því fram að ég hefði ekið á 113 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km. Ég mótmælti ekki og afþakkaði að skoða myndband af akstri mínum þegar það stóð til boða, sagði ósköp einfaldlega að bifreiðin sem ég ók í það skipti færi ekki mikið hægar en þetta á góðum vegarkafla. Ég var ekki á eigin bíl heldur fínum Benz jeppa tengdaföður míns. Þessi rök mín breyttu ekki afstöðu lögreglumannsins og skildum við sáttir að kalla. Ég borgað sektina.

Sama gilti um stuttan túr nokkru síðar frá heimili mínu niður í miðborg Reykjavíkur að sækja dóttur mína sem þar var stödd. Eitthvað var ungu konuna tekið að lengja eftir föður sínum svo hún hringdi um það bil sem ég renndi til hennar. Sími minn var ekki tengdur bílnum svo ég sótti hann í vasann og svaraði. Blá ljós lýstu í sömu andrá upp tilveru mína. Lögreglubíllinn var á sama horni og ég. Glæpamaðurinn var gripinn glóðvolgur. Ung lögreglukona sótti mig yfir í lögreglubílinn. Það var ekki eins dramatískt og í amerískri kvikmynd og mér var ekki ýtt með sveiflu í aftursætið. Lögreglukonan var prúð – og símaglæponinn silfurhærður og ekki líklegur til átaka. „Þú gerir þér grein fyrir brotinu,“ sagði lögreglukonan. Ég þrætti ekki fremur en fyrri daginn, fékk 1 punkt í kladdann, kvittaði á sektarpappírana og yfirgaf valdsins vagn. Dóttir mín tók á móti sakamanninum, miður sín vegna uppákomunnar, taldi hana sér að kenna sem alls ekki var rétt. Það var ég sem tók upp símann.

Á dögunum var ég síðan á suðurleið frá Vestfjörðum á mínum eigin jeppa, sem rennur ljúflega ekki síður en jeppi tengdaföður míns á sínum tíma. Við vegamót Vestfjarðavegar og svokallaðra Þröskulda, vegar sem liggur til Hólmavíkur, sá ég lögreglubíl nálgast. Ég vildi ekki tefja ferð laganna varða svo ég hægði á mér, þótt ég ætti réttinn, auk þess sem það er, eins og allir vita, heldur skárra að hafa lögreglubíl á undan sér en eftir. Lögreglubíllinn stoppaði hins vegar og beið mín. Það þýddi það að ég sá fram á lögreglufylgd um ófyrirséðan tíma – og varð því að gæta mín á hraðanum, fara ekki upp fyrir 90 km hraða, sem getur vissulega gerst þótt einarður og ótvíræður brotavilji sé ekki til staðar. Svo gekk um hríð að tveir bílar á suðurleið héldu nákvæmlega 90 km hraða, þar til farþegi í mínum bíl stakk upp á því að beygja til vinstri og kíkja í kaffi í Króksfjarðarnesi, þar sem ferðalúnum er veittur góður beini. Þetta var þjóðráð, gott var að stoppa og fá sér kaffisopa á leiðinni – og losna um leið við lögreglufylgdina. Ég gaf því stefnuljós, passaði mig á því, og beygði út af aðalveginum – en sá um leið í baksýnisspeglinum að lögreglubíllinn gerði slíkt hið sama. Hvurt í logandi, hugsaði ég með mér, á nú enn og aftur að stoppa kallinn þrátt fyrir sparaksturinn undanfarna kílómetra.

Ökumaður lögreglubílsins lagði við hliðina á jeppanum mínum og út stigu tveir fílefldir, annar sýnilega heldur eldri. Sá hafði orð fyrir þeim þegar ég spurði hvort þeir félagar ætluðu sér að góma mig þrátt fyrir allt. „Nei, svo sannarlega ekki, ég elti engan á fastandi maga“. Með það sama snaraði hann sér inn í veitingasölu Króksfjarðarkvenna og bað um tvo kaffibolla og rjómavöfflur. Mér var nokkuð létt og bað því um sama skammt. Konurnar tóku því ljúflega, báru í alla kaffi og hófu bakstur á fjórum vöfflum.

Fyrst ég slapp við tiltal færði ég mig örlítið upp á skaftið og stakk upp á því við eldri lögreglumanninn, sem greinilega var hærra settur, að við settum fjórar vöfflur með rjóma og sultu í reikning hjá sýslumanninum í stað tveggja. Að vonum hafnaði laganna vörður þessari tillögu kurteislega, enda var hún sett fram af nokkru alvöruleysi, en lét þess um leið getið að sýslumenn færu ekki lengur með þeirra mál heldur lögreglustjóri, staðsettur á Ísafirði. Vöfflureikningurinn mætti heldur ekki vera of hár því framlög til embættisins vestra væru skorin við nögl. Umdæmið væri víðfeðmt og þótt þeir væru á sæmilegum fólksbíl að sumarlagi versnaði í því þegar vetur gengi í garð því þá þyrftu þeir að treysta á útkeyrðan 18 ára gamlan jeppagarm, margtjónaðan.

Vegna þessarar lýsingar á dapurlegu ástandi og aðbúnaði þjóna réttlætisins vestra hvarf frá mér öll löngun að koma vöfflukostaðinum yfir á embættið og greiddi ljúflega uppsett verð fyrir tvær vöfflur, sultu, rjóma og kaffi. Við vorum samferða út, mettir vel og sælir. Lögreglufylgdinni var lokið – en vei þeim sem mætti þessum sama lögreglubíl á ólöglegum hraða eftir vöffluveisluna.

Þá var hvorugur lögreglumannanna á fastandi maga!

 

Jónas Haraldsson ágúst 21, 2023 07:00