Ragnar Jónasson er meðal athyglisverðustu sakamálahöfunda okkar Íslendinga. Hann hefur hingað til skrifað bækur sem eru drifnar áfram af vel fléttaðri gátu og lesendur hans hafa getað skemmt sér við að leita vísbendinga og setja fram eigin kenningar um lausnina. Í nýjustu bók hans, Emelíu, kveður við annan tón. Hér felst gátan í því hvaða erindi látin stúlka á við heimilisfólk í húsi í Reykjavík.
Emilía er nítján ára þegar hún flytur með foreldrum sínum og ömmu til Reykjavíkur. Pabbi hennar er læknir og honum hefur boðist góð staða í borginni. Þau þurfa því að kveðja bæinn sinn á Norðurlandi og Emilía er ekki sátt við það. Ofan á heimþrána norður bætist að amma hennar liggur fyrir dauðanum en Emilía og hún hafa alltaf verið nánar og það er erfitt að kveðja. En svo sér Emelía sýn í speglinum fyrir ofan rúmið hennar ömmu og tilfinningar hennar til flutninganna breytast úr ljúfsárum söknuði í kvíða og ótta.
Þessi bók er einstaklega vel skrifuð og Ragnari tekst vel að byggja upp spennu þótt hér séu engir glæpir framdir. Hann á auðvelt með að skapa lifandi og áhugaverðar persónur og sá hæfileiki er áberandi í þessari bók. Það kemur fljótt í ljós að Emilía á ekki langt að sækja það að sjá fleira en flestir aðrir því bæði amma hennar og mamma hafa skyggnigáfu. Þótt þetta sé fyrsta eiginlega draugasaga Ragnars hefur hann áður skapað persónur sem treysta á innsæi sitt og fá hugboð þegar eitthvað hættulegt er í vændum, nefna má Unu í Þorpinu. Hér kemur einnig við sögu ungt skáld sem skrifar ósjálfráða skrift og þá tengja áreiðanlega margir við Guðmund Kamban sem sautján ára gaf út sína fyrstu bók með sögum sem hann sagði að hefðu verið skrifaðar með hjálp þeirra Jónasar Hallgrímssonar og Snorra Sturlusonar. Guðmundur var þá í miklu sambandi við hóp spíritista í Reykjavík og skrifaði ósjálfráða skrift á miðilsfundum í bænum. Hvort skáldið í bók Ragnars eigi eitthvað skylt við hann er ekki gott að segja en Emilía er fín bók sem gaman er að lesa.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







